17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1271 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

42. mál, fjárlög 1949

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Í upphafi ræðu minnar í gær taldi ég upp nokkrar fjarstæðufullyrðingar kommúnista. Ég leiddi rök að því, hversu haldlaus þessi hrópyrði væru. En ekki dugði það sem aðvörun til hv. 6. landsk., Steingríms Aðalsteinssonar. Hann endurtók áðan, að það væri stefna ríkisstj. að auka dýrtíðina, að húsbyggingar væru stöðvaðar, að atvinnuleysi hefði haldið innreið sína, að stj. hefði hætt við alla nýsköpun, að hún hefði valdið því, að nýsköpunartogararnir hefðu langan tíma verið bundnir við bryggju. Og svo kryddaði hann þessar áður hröktu fullyrðingar sínar með því að segja, að ríkisstj. skriði betlandi að fótum Bandaríkjavaldsins, að þar væri samábyrgð í svikráðum og að landsalan héldi henni saman. Og auk þess vitnaði hann til bragðbætis í greinar Hermanns Jónassonar. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að þessu skrafi. Ég hef í gær í ræðu minni sýnt fram á, að núv. ríkisstj. hefur barizt — og með nokkrum árangri — gegn verðbólgunni. að stutt hefur verið verulega að hagkvæmum húsbyggingum, að sem betur fer hefur tekizt að halda við fullri atvinnu í landinu, að nýsköpuninni hefur verið haldið áfram af miklu, kappi, að kommúnistar reyndu með öllu móti að hindra lausn togaradeilunnar og ríkisstj. átti góðan og gildan þátt í lausn hennar. Þannig eru öll árásarstóryrði kommúnista fullkomin öfugmæli. Það, sem þeir finna að, eru syndir þeirra sjálfra. Þeir virtust heldur engan áhuga hafa fyrir umbótamálum innanlands, á meðan þeir voru í ríkisstj., en voru þá fjötur um fót margra góðra framkvæmda. En verkefni þeirra var þá og allt annað. Þeir sátu þá fyrst og fremst sem fulltrúar erlends stórveldis, til þess að gæta hagsmuna þess. Og þegar þeir töldu, að þeir gætu ekki hindrað samstarf Íslands við lýðræðisríkin, þá ruku þeir í burtu. Og reynslan af setu þeirra í ríkisstj. var dýrkeypt, en hún verður þó vissulega til þess, að það verður í fyrsta og síðasta sinn, sem íslenzkir lýðræðisflokkar taka höndum saman við slíkan byltinga- og ofbeldisflokk.

Þá var hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, eitthvað að tala um feimni við gengislækkun. Það er að vísu satt, að kommúnistar voru ekkert feimnir við að bera fram till. í lok fyrra árs í sambandi við ábyrgð á útfluttum sjávarafurðum, er höfðu í för með sér gengislækkun að verulegu leyti.

Þá var þessi hv. þm. að tala um, að núv. ríkisstj. hefði búið vel að auðvaldinu og að hér hafi komið til sögunnar margir miljónamæringar. En hvernig var það á meðan kommúnistar voru í ríkisstj.? Var búið illa að þeim þá? Urðu þeir ekki flestir til á þeim tímum?

Sami þm., Einar Olgeirsson, talaði um umbætur fyrrv. ríkisstj., svo sem alþýðutryggingarnar, launal., verkamannabústaðina, nýsköpunina. Allt var þetta gert eftir skilyrðum Alþfl., án nokkurs áhuga af hálfu kommúnista. Það eru hrein og bein ósannindi, að kommúnistar hafi sett nokkur skilyrði, önnur en almennan orðaflaum. En nýsköpun kommúnista er fræg hvað snertir byggingu síldarverksmiðjanna nýju, landssmiðjunnar, bátabyggingar o.fl. Þetta er þeirra eina nýsköpun, og hún er fræg að endemum.

Og svo var þessi hv. þm., Einar Olgeirsson, að hrósa sér og flokki sínum af hollustu við lýðræðið, og nefndi þá 30. marz t.d. Fyrr má nú rota en dauðrota. Þjóðin þekkir þessi lýðræðisafrek kommúnista. Í þessu sambandi ræddi hann um till. hv. þm. Siglf., Áka Jakobssonar, um rannsókn á atburðunum 30. marz. Saga þeirrar till. er merkileg. Kommúnistar heimtuðu hana á dagskrá og var þá borin fram svo hljóðandi rökstudd dagskrártill.:

„Þar eð alþm. voru sjónarvottar að óspektunum 30. marz s.l. og er því öllum ljóst, hverjir sök áttu á þeim, og málið auk þess er í rannsókn hjá sakadómara, telur neðri deild Alþingis tillögu þessa tilefnislausa og lætur í ljós undrun sína yfir flutningi hennar, og hún átelur málflutning þm. Siglf. í grg. till. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Það var vitað, að þessi till. átti víst fylgi allra andstæðinga kommúnista. Hvað skeði þá? Kommúnistar hófu málþóf og þæfðu fram og aftur, til þess að þessi rökst. dagskrá yrði ekki samþ.

Hv. 2. þm. Reykv., Einar Olgeirsson, talaði um brottrekstur úr flokki og áminningar. En hvað má þá segja um sessunaut hans, hv. 11. landsk., Hermann Guðmundsson. Þegar hann gerðist svo djarfur að vilja ekki hlýða fyrirmælum kommúnista um að beita ofbeldi á síðasta alþýðusambandsþingi, þá stóð til að reka hann úr flokknum, og síðan er hann í algerðri sóttkví í flokki sínum. Það má vera, að þessi járnharði agi kommúnista hér eins og annars staðar verði til þess, að þeir sem ekki játa syndir sínar og biðjast afsökunar, verði að fara úr flokknum.

Þegar eldhúsumræðunum er að ljúka að þessu sinni, er ekki ófróðlegt að staldra við eitt andartak og veita því athygli, hvað þær hafa einkum leitt í ljós. Stjórnarandstaðan, kommúnistar, hafa þar borið fram síendurteknar fullyrðingar og rakalausar ásakanir í garð ríkisstj. og stuðningsflokka hennar. Kommúnistar, sem verst, gálauslegast og ábyrgðarminnst hafa farið með fé ríkissjóðs, eins og margsannað hefur verið í þessum umr., saka nú andstæðinga sína um fjárbruðl og fyrirhyggjuleysi. Þessir sömu menn, sem beitt hafa öllu afli sínu til þess að stuðla að vinnustöðvunum, margs konar vandkvæðum í sambandi við framleiðsluna og aukinni dýrtíð og leitazt við að skapa með því öngþveiti, dirfast nú að hefja árásir á aðra fyrir það, að ekki hefur tekizt að ráða bót á verðbólgunni. Ég minntist á það í ræðu minni í gærkvöld, að þar hefur verið við ramman reip að draga fyrir ríkisstj., en hún hefur gert það, sem í hennar valdi hefur staðið, og áfram vinnur hún að því að koma á samkomulagi milli allra ábyrgra aðila, sem hlut eiga að máli, til þess að koma í veg fyrir, að verðbólgan stöðvi framleiðsluna og stofni þannig til atvinnuleysis. Sá hinn sami flokkur, kommúnistar, sem sannanlega fer eftir fyrirskipunum frá erlendum aðilum og fylgir í blindni hinni austrænu utanríkisstefnu, gerist einnig svo djarfur að áfellast aðra, sem unnið hafa að því, að Ísland yrði virkur aðili að viðreisnaráformum Vestur-Evrópu með Marshallaðstoðinni, sem einnig hafa unnið að samtökum hinna sömu þjóða til að verjast yfirgangi einræðisríkja og tll styrktar friði og öryggi í heiminum. Ófrið er einungis að óttast frá einræðisríkjum. Það er gömul og ný kenning Lenins og Stalins, að kommúnistar hljóti að leggja til beinnar orrustu með vopnavaldi fyrr eða síðar gegn þeim þjóðfélögum, sem standa í vegi fyrir alheimsyfirráðum kommúnista. Auk þess er það eitt af einkennum allra einræðisríkja, sem einnig samkvæmt séreinkennum sínum keppa að útþenslu og valdaaukningu, að fyrr eða síðar ber að þeim brunni, að þau ögra svo friðsömum þjóðum með framkomu sinni, að til beinna átaka getur leitt, eða beinlínis ráðast á þær. Það er öllum kunnugt, hvernig einræðisríkið í austri hefur lagt undir sig friðsöm smáríki allt í kringum sig, bæði með beinu vopnavaldi og einnig með aðstoð þeirra fimmtu herdeilda, sem kommúnistar eru í öllum löndum. Ótti við stríð stafar einungis frá einræðisríkjum og það er sízt að furða, þótt lýðræðisríkin, sem eru friðsöm í eðli sínu, bindist samtökum sér til varnar og til þess að reyna að hindra, að til ófriðar dragi.

Stefna og starfsaðferðir Alþfl. á Íslandi fara eftir sömu höfuðlínum og fylgt er hjá sósíaldemókrötum allra annarra landa, bæði í innanlands- og utanríkismálum. Jafnaðarmenn fara annaðhvort einir með stjórn eða eru þátttakendur í stjórnum allra ríkja Vestur-Evrópu. Kommúnistar eru þar alls staðar utan gátta, því að lýðræðisflokkarnir vilja ekkert hafa saman við þá að sælda um stjórn landsins. Og það er mjög eftirtektarvert, að þau ein ríki hér í álfu, sem hætt hafa öllu samstarfi við kommúnista um stjórn landsins, halda nú fullu frelsi sínu. Alls staðar er stefna jafnaðarmanna og starfsaðferðir í höfuðdráttum á þá lund, að keppzt er við að skapa traustan fjárhagsgrundvöll fyrir framtíðina, auka framleiðsluna og viðhalda nægri atvinnu og svo góðum kjörum vinnandi stétta sem frekast er unnt. Hafa þeir yfirleitt fylgt svokallaðri stöðvunarleið, þ.e. að halda verðlagi og kaupi sem mest föstu. Jafnaðarmenn vinna einnig að því að hindra, að verðbólga kæfi atvinnulífið, því að það yrði fljótlega þungur baggi allri alþýðu manna. Og í utanríkismálum er sú stefna ráðandi meðal allra jafnaðarmanna, að lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu beri að hnappa sér saman, til þess með gagnkvæmri aðstoð að vinna að fjárhagslegri viðreisn, eins og komið hefur í ljós með undirbúningi og framkvæmd Marshalláætlunarinnar. Og til tryggingar friði og frelsi lýðræðisríkjanna hafa jafnaðarmenn yfirleitt gengið fram fyrir skjöldu við stofnun Atlantshafsbandalagsins. Íslenzkir jafnaðarmenn, Alþfl.- menn, hylla sömu hugsjónir og flokksbræður þeirra um heim allan. Skoðanir þeirra eru mótaðar af sama hugmyndakerfi og öll uppistaðan í starfsháttum þeirra er lýðræði. Alþfl. heitir því á alla þá menn á Íslandi, sem sjá það og vita, að það eru jafnaðarmenn, sem beztu og mestu hafa til leiðar komið fyrir almenning, að styðja Alþfl. til aukinna áhrifa í íslenzkum stjórnmálum. Samtímis því er Alþ.fl. fús á að starfa með öðrum lýðræðis- og umbótaflokkum að viðreisn og framförum og til tryggingar friði, frelsi og farsæld á Íslandi.