17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1274 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

42. mál, fjárlög 1949

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Af hálfu þeirra, sem voru á móti fyrrv. stj., er því nú haldið fram, að í þessum efnum hafi sannazt sakir á hana. Auðvitað var sú stj. ekki óskeikul fremur en aðrar, en nýsköpunin, sem sjálfstæðismenn beittu sér fyrir, er forsenda þess, að á einu ári jukust útflutningstekjur þjóðarinnar um 36%, eða rúmar 100 millj. Með þessu sannaðist ágæti nýsköpunarinnar svo, að ekki ætti framar að þurfa um að della. Hitt er annað mál, að sú stj. skildi við ýmiss mál óleyst, eins og allar aðrar ríkisstj. fyrr og síðar hafa gert. Ætíð verður það samt talið kraftaverk, að Ólafi Thors tókst að hemja kommúnista svo um tveggja ára bil, að þeir gerðu þá þó ekki meira tjón, en raun bar vitni um.

En náttúran er náminu ríkari, og jafnvel Ólafi Thors tókst ekki til lengdar að halda niðri hinum illu kommúnistísku tilhneigingum þessara manna. Við heyrðum nú, að þeir velja honum nú aðrar kveðjur, en þeir áður gerðu.

Einar Olgeirsson kallaði Ólaf Thors, sem aldrei hefur verið ríkari, en meðan kommúnistar þjónuðu honum í ríkisstj., þá í hverju orði „herra“ með andagtarhreim. Nú kallaði Einar hann „milljónamæring“ og taldi það eitt honum ærið til áfellis. Þetta nafn velur Einar Ólafi nú, þótt hann viti, að fyrirtæki Ólafs hafi í tíð núverandi stj. tapað stórfé, einmitt vegna þess, að lífskjörum verkamanna hefur verið haldið uppi á kostnað atvinnurekenda og þeirra betur stæðu í landinu.

Þá kom Einar Olgeirsson með sína gömlu þulu um „milljónamæringana“ 200. Í þeirri upptalningu gleymdi Einar að geta þess, að meðal þessara 200 „milljónamæringa“ eru félög eins og Kron, undir forustu Sigfúsar Sigurhjartarsonar, og ýmsar aðrar stofnanir og einstaklingar, sem standa kommúnistum mjög nærri og hafa mikil áhrif á gerðir þeirra og njóta velvildar þeirra og verndar.

Fram að þessu hefur sá verið talinn hér á Íslandi í hópi helztu lygara, sem logið hefur um helming, hvað þá sá, sem logið hefur tífalt. En í kvöld mátti sjá hér í ræðustólnum mann, sem laug hundraðfalt eða meira. Það var landsk. þm., Steingrímur Aðalsteinsson, sem hélt því fram, að kostnaðurinn af „Hæringi“ væri 100 þús. kr. á hverjum einasta degi. Sannleikurinn er sá, að kostnaðurinn nær ekki hundraðasta hluta af þessari upphæð, og er þó ekki hægt að telja hann líkt því allan rekstrarkostnað, vegna þess að mikið af honum fer til umbóta á skipinu og ber þess vegna með réttu að telja til stofnkostnaðar.

Nú sakast kommúnistar um það, að lagt hafi verið í kostnað við að undirbúa móttöku vetrarsíldar. Þegar menn heyra það, munu margir minnast þess, að í fyrsta sinn, sem vetrarsíldin kom hér að nokkru marki, svo að menn yrðu varið við, haustið 1946, linntu kommúnistar ekki látunum í ásökunum sínum á bæjarstjórn Reykjavíkur yfir því, að þá skyldi ekki vera til hér síldarverksmiðjur og söltunarstöðvar til að taka á móti og vinna úr þessari síld, sem enginn þá hafði haft hugboð um, að von gæti verið á.

Um „Hæring“ er sannleikurinn sá, að með honum var komið upp síldarverksmiðju á tilskildum tíma, á 7–8 mánuðum, þannig að hún hefði verið til, ef vetrarsíldin hefði komið hingað að þessu sinni. Hefur því ólíkt tekizt til um þá framkvæmd eða verksmiðjubyggingar þær, sem Áki Jakobsson beitti sér fyrir. Kostnaðurinn við þessa framkvæmd hefur einnig orðið svipaður því, sem áætlað var, eða hér um bil 8 millj. kr., og er mikill munur á því og framkvæmdum Áka, þar sem allt fór a.m.k. tvöfalt fram úr því, sem ráð hafði verið fyrir gert.

Þó að menn finni nú að ýmsu varðandi „Hæring“, mundu aðfinningarnar hafa orðið enn þá meiri og réttmætari, ef hann hefði ekki verið fyrir hendi, hefði svo farið, að síld hefði veiðzt á s.l. vetri.

Er og á það að líta, að allur kostnaður við þessa framkvæmd er aðeins lítill hluti af flutningskostnaðinum einum á síldinni til Siglufjarðar 1947–48. Ef eitthvað verulega hefði veiðzt af síld í vetur, mundi þess vegna strax á þeim fáu mánuðum allur kostnaður við þessa nýju verksmiðju hafa unnizt upp á einum vetri. Það er hins vegar eftir Steingrími Aðalsteinssyni að taka síldarleysið í lið með sér til að ásaka „Hæring“. Það fer vel á félagsskap þeirra Steingríms og síldarleysisins, þar hæfir vissulega skel kjafti.

Í ræðu minni í gær sýndi ég fram á, hvernig kommúnistar reyna að eyðileggja fjárhag ríkisins og íþyngja skattborgurum landsins með öllum hækkunartillögum á útgjöldum úr ríkissjóði, en standa á móti raunverulegum sparnaði. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, ásaka kommúnistar aðra fyrir, að skattabyrðin sé orðin allt of þung.

Ég sýndi fram á, hvernig kommúnistar vilja reyra allt í viðjar ríkisafskipta og kæfa einstaklingsframtak í skriffinnsku og ofstjórn. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, ásaka kommúnistar aðra fyrir of mikla skriffinnsku og óþolandi útþenslu ríkisbáknsins.

Ég sýndi fram á, að kommúnistar stefna markvisst að því að gera íslenzka framleiðslu ósamkeppnisfæra sökum verðlags á erlendum mörkuðum. Í stað þess að segja satt til, saka kommúnistar aðra um ódugnað í markaðsöflun, þegar hún hefur tekizt betur, en nokkru sinni fyrr.

Ég sýndi fram á, að kommúnistar hafa ekki ró í sínum beinum af ákefðinni í, að hér hefjist sem fyrst víðtækt atvinnuleysi og eymd almennings. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, ásaka kommúnistar svo aðra fyrir ýmist að vilja eða hafa komið á atvinnuleysi, þegar sannleikurinn er sá, að þrátt fyrir óteljandi örðugleika hefur tekizt að halda fullu atvinnulífi í landinu og nær tvöfalt betri lífskjörum almennings, en var fyrir stríð.

Ég sýndi fram á, að stefna kommúnista í markaðsmálum einkennist af stjórnmálalegu ofstæki, ofurást þeirra á harðstjórum austan við járntjaldið, en ofsalegu hatri á hinum frjálsu lýðræðisþjóðum í vestri. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, ásaka kommúnistar þá, er ná vilja mörkuðum fyrir íslenzkar afurðir sem allra víðast og án tillits til pólitískrar geðþekkni þeirra, sem skipt er við, um að þeir láti stjórnast af stjórnmálaofstæki í þessum efnum.

Ég sýndi fram á, að kommúnistar vilja ótvírætt gera Ísland háð harðstjórunum fyrir austan járntjald með því að einangra viðskipti landsins sem allra mest við þau lönd, í því skyni að harðstjórarnir öðlist aðstöðu til að segja okkur fyrir um, hvers konar ríkisstj. við eigum að hafa á Íslandi. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, ásaka kommúnistar aðra fyrir, að þeir vilji gera Ísland háð erlendum ríkjum í viðskiptaefnum.

Ég sýndi fram á, hvernig kommúnistar fjandskapast við viðreisnaráformin í Evrópu, sem einnig miða að því að efla nýsköpun atvinnutækjanna á Íslandi og bæta lífskjör þjóðarinnar. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, ásaka kommúnistar aðra um fjandskap við nýsköpunina og viðleitni til að níðast á alþýðunni.

Ég sýndi fram á, hvernig kommúnistar á sínum tíma fögnuðu gríðarsáttmála Stalíns og Hitlers, sem var beinn undanfari heimsstyrjaldarinnar 1939. Í stað þess að segja satt til um þetta hátterni sitt, ásaka kommúnistar aðra fyrir, að þeir séu stríðsæsingamenn.

Ég sýndi fram á, hvernig kommúnistar hamast gegn Atlantshafssáttmálanum, sem nú þegar hefur haft meiri áhrif til friðunar Evrópu, en nokkur önnur ein aðgerð, áratugum saman. Í stað þess að segja satt til um stefnu sína, æpa kommúnistar um friðarást, jafnframt því sem þeir sjálfir beita ofbeldi og gleðjast yfir vaxandi útbreiðslu borgarastyrjaldarinnar í Kína.

Ég sýndi fram á, hvernig kommúnistar markvisst undirbjuggu ofbeldi og árásina á Alþingi 30. marz s.l. Í stað þess að segja satt til um gerðir sínar, ásaka þeir aðra, einmitt þá, sem héldu uppi röð og reglu og komu í veg fyrir verstu áform kommúnista, um, að þeir hafi stofnað til óspektanna.

Hvernig stendur á þessum fullkomna tvískinnungi, þessu einstaka fláræði, þessari stöðugu viðleitni til sundrungar, niðurrifs og upplausnar í þjóðfélaginu?

Er það eingöngu eða fyrst og fremst vegna þess, að kommúnistar séu svo illa innrættir, af því að þeir séu svo „vondir menn“, eins og einn hinna hempuklæddu kallaði þá, þegar hann var að reyna að dylja, hverra erinda hann gengi í fjandskap sínum gegn Atlantshafssáttmálanum?

Nei, út af fyrir sig vilja þessir menn ekki verr en aðrir. Gallinn er sá, að þeir eru þrælar úreltrar og afsannaðrar kenningar um þjóðfélagsvandamál, trúa því, að engar umbætur á núverandi þjóðskipulagi dugi. Allt, sem hér er gert til bóta, horfir þess vegna í þeirra augum til ills. Þjóðskipulagið, fjárhagsfyrirkomulagið, menningin, trúin; allt er þetta feigt, öllu þessu verður að kollvarpa, að þessara manna dómi. Fyrst þegar þetta er komið í rústir, þá telja þeir, að hægt sé að byrja að byggja á ný. Ef þeir tryðu þessu ekki, þá væru þeir ekki sannir kommúnistar.

Að vísu telja þeir sér ekki hentugt í bili að kalla sig kommúnistaflokk. Það er miklu lengra og áferðarfegurra nafn, sem þeir nefna sig. En Áki Jakobsson játaði í fyrra á Alþingi, að hann og aðrir ráðandi menn í flokknum væru kommúnistar. Bæði hann og aðrir, jafnvel ómerkilegustu skriffinnar við Þjóðviljann, sækja öll flokksþing kommúnista erlendis, sem þeir eiga kost á.

Þeim, sem hlýddu á ræðu Brynjólfs Bjarnasonar á dögunum, er hann hótaði okkur samþingsmönnum sínum, að 800 milljónir manna, gráir fyrir járnum, mundu standa vörð á meðan sjálfur hann og flokksbræður hans hér á landi gerðu upp við okkur sakirnar og létu okkur hljóta örlög Quslings, engum, sem á þessi gífuryrði hlýddi, duldist, hvert Brynjólfur þóttist sækja styrk sinn. Hann vill að vísu ekki vita, að þær hundruð milljóna, sem búa í hinum kommúnistísku löndum, eru ofurseldar hinni harðsvíruðustu undirokun og kúgun, sem sagan greinir. Hitt skildi hann rétt, að einræðisherrarnir standa með sínum, hvar sem er í heiminum, hversu vesælir sem þeir eru. Hvarvetna styðja einræðisherrarnir þá, sem ganga erinda hins alþjóðlega kommúnisma. Það var til hins alþjóðlega kommúnisma, sem Brynjólfur Bjarnason sótti styrk sinn, þess kommúnisma, er Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, er einungis lítil deild af. Afstaða Brynjólfs Bjarnasonar gat og engum komið á óvart, eftir að menn höfðu áttað sig á boðskap hans frá 1941, um, að hér á landi mætti „skjóta án miskunnar“, aðeins ef það kæmi Rússum að gagni.

Kommúnistar telja, að íslenzku þjóðinni, og raunar einnig völdum sjálfra þeirra, verði þá fyrst borgið, þegar hún sé orðin örlitill hluti af hinu kommúnistíska einræðisríki, þegar Ísland sé orðið hérað í Sóvétríkinu rússneska. Það er þetta, sem þessir menn sækjast eftir. Það er þetta, sem þeir trúa á af ofboðslegu ofstæki. Það er þetta, sem hefur gert þá að mönnum, sem vissulega hafa unnið til hegningar eftir íslenzkum lögum, en þó frekar ber að leiðbeina og hjúkra andlega, en refsa.

Umfram allt verður þó að færa íslenzku þjóðinni heim sanninn um, hvað fyrir kommúnistum vakir og af hverju hegðun þeirra er jafnofboðsleg og raun ber vitni.

Þessum umræðum er að verða lokið. Þær hafa, svo sem vonir stóðu til, snúizt í sókn gegn kommúnistum, sókn, sem íslenzka þjóðin mun ekki láta niður falla fyrr en fylkingu þeirra er eytt og enginn flokkur á Íslandi dirfist að halda öðru fram,, en íslenzkum hagsmunum.