17.05.1949
Sameinað þing: 75. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1278 í B-deild Alþingistíðinda. (1577)

42. mál, fjárlög 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. forsrh. las hér upp áðan frávísunartill., sem kom fram í Nd. í dag, um það, að vísa frá þáltill. um, að d. skipi rannsóknarnefnd samkvæmt 39. gr. stjskr. til þess að rannsaka tildrög óeirðanna 30. marz s.l. Þar var lagt til að vísa till. frá með þeim röksemdum, að þm. hafi verið sjónarvottar að þessum atburðum, og vegna þess að þm. hafi verið sjónarvottar, þá mætti ekki rannsaka tildrög óeirðanna. Finnst ykkur ekki röksemdin góð? Af því að þm. voru sjónarvottar, þá má ekki rannsaka tildrögin. Sem sé, ef menn eru vitni, þá á ekki að kalla þá fyrir. Þokkaleg réttvísi að tarna!

Hæstv. forsrh. talaði um, að við hefðum verið á móti því, að Ísland færi í Atlantshafsbandalagið, þetta friðarbandalag lýðræðisþjóðanna. En hæstv. forsrh. gleymir því, að eitt þessara ríkja, Holland, er brennimerkt sem árásarríki frammi fyrir öllum heimi af sameinuðu þjóðunum.

En hvað veldur annars þessum taugaóstyrk og blindni, þegar ræða á þessa hluti? Er það ef til vill það, að kreppa auðvaldsins kemur nær með hverjum degi og yfirdrottnun Vestur-Evrópuauðvaldsins yfir þeim Asíulöndum, sem það hefur arðsogið, er að hrynja fyrir voldugri sókn alþýðunnar í Austur-Asíu til frelsis og valda?

Hæstv. menntmrh. var að tala um réttlætisbaráttu alþýðunnar í verzlunarmálum, skamma sósíalista og lofa Alþfl. Því fær Eysteinn ekki þennan fína Afþfl. til að vera með réttlætismálinu? — Hæstv. menntmrh. minntist á nýsköpunartogarana. Það var nýbyggingarráð og við sósíalistar, sem knúðum það fram, að bæjarfélögin úti um land gátu keypt 10 nýsköpunartogara, með því að koma fram 75% láni í stofnlánadeiIdarl. móti vilja Eysteins Jónssonar. Og hvernig gengur nú með 10 togarana, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur keypt? Hæstv. menntmrh. hefur barizt gegn till. Sósfl. um að tryggja bæjarfélögum forgangsrétt að þeim og fengið þær felldar.

Hæstv. atvmrh. ætlaði að verja ráðstöfun sína á trésmíðaverkstæðinu við Elliðaárvog með því, að þar hefði ekki verið hægt að smíða þá hluti, sem framleiða á í Silfurtúni. Ekki ótrúleg saga En hann viðurkenndi, að hann hefði ráðstafað bátasmíðastöðinni á sínum tíma, á sama hátt og 8. landsk. þm. hefði sagt. Og hann reyndi ekki að mótmæla því, að þessi geysimikla verkstæðisbygging var skrifuð niður í verði um 600 þús. kr., eða 75%, til þess að láta Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda fá hana fyrir nógu lága leigu. En á þennan hátt er auðvelt að sýna taprekstur. En þannig falla áhugamál þessara manna allra inn í þann samnefnara að koma óvirðingum á fyrrv. atvmrh.

Hæstv.fjmrh. talaði um, að við sósíalistar hefðum lagt til að auka útgjöld ríkisins um 20–30 millj. kr. Hann kvartaði um, að við bentum ekki á tekjustofna upp í slík útgjöld. En ríkið á tekjustofna, sem það alls ekki hefur notað. Amerísku auðfélögin á Keflavíkurflugvellinum og starfsemi þeirra hefðu samkvæmt Keflavíkursamningnum átt að greiða tolla af 9/10 af innflutningi þeirra, skatta af 9/10 af starfsemi sinni. En hæstv. ríkisstj. hefur svikizt um að innheimta nokkuð af þessum tollum og sköttum. Samtímis því sem álögurnar hafa verið þyngdar svo á almenningi, að óbærilegar eru orðnar, þá er hinum amerísku vinum ríkisstj. hlíft við tollum og sköttum. Ameríkanar eru skattfrjáls herraþjóð í landi voru, eins og aðallinn var á einveldistímanum. Þannig framkvæmir ríkisstj. jafnréttið og yfirráð Íslendinga yfir landi sínu.

Hæstv. dómsmrh:, Bjarni Benediktsson, talaði borginmannlega um, að kvikmyndirnar frá 30. marz, sem lögreglustjóri hefur bannað að sýna, skyldu verða sýndar seinna. Já, hvenær? Þegar Sjálfstfl. væri búinn að ná þeim og klippa úr þeim allt, sem honum er óþægilegt.

Hlustendur! Veitið því athygli á næstu mánuðum, hvað verður um kvikmynd þá, sem einn starfsmaður lögreglunnar, Sigurður Norðdal, tók 30. marz. Sú kvikmynd átti að leggjast fram sem sönnunargagn í hlutlausri réttarrannsókn, en Sjálfstfl. ætlar sér að komast yfir þessa kvikmynd lögreglunnar og klippa út úr henni og sýna hana síðan þannig afskræmda. Aðeins ykkar eftirlit og þessi orð mín gætu, ef til vill hindrað slíka meðferð á sönnunargögnum. Svona er komið með réttvísi kylfunnar á Íslandi 1949.

Hæstv. dómsmrh. reyndi að nota sér mismæli í ræðu Steingríms Aðalsteinssonar. Hann sagði 100 þús. kr. á dag, en ætlaði að segja 100 þús. kr. á mánuði. — Hæstv. dómsmrh. sagði rangt frá, þegar hann talaði um samtöl okkar Ólafs Thors, og sagði, að ég hefði nefnt Ólaf Thors hr. Ólaf Thors. Það var Ólafur Thors, sem kallaði mig hr. Einar Olgeirsson. Hitt er rétt, að ég hef reynt að koma á samstarfi milli auðvaldsins og alþýðunnar, meðan þess hefur verið nokkur von, að til góðs gæti leitt fyrir þjóðina. Ég hef viljað forða þjóðinni frá þeirri harðstjórn og eyðileggingu á atvinnulífinu, sem styrjöld milli þessara ólíku stétta mundi valda.

Það hefur ekki tekizt, og nú er það auðvaldsstj., sem hefur ráðizt vægðarlaust á kjör alþýðu og umbætur nýsköpunarstj., og þá er ekki um annað að gera fyrir alþýðuna, en að taka vægðarlaust á móti.

Hæstv, samgmrh. talaði um UNNRA og Marshallhjálpina. Hver var munurinn á þessu tvennu? UNNRA var samhjálp allra þjóða, hugsuð og framkvæmd til þess að hjálpa öllum þeim, sem áttu um sárt að binda eftir stríðið. UNNRA byggðist á mannúð eingöngu. Þess vegna fögnuðum við UNNRA. En ameríska auðvaldið drap hana þrátt fyrir mótmæli allra Evrópuþjóðanna. Af hverju drápu Ameríkanar UNNRA? Af því að þeir vildu skapa samtök, sem þeir gætu ráðið og notað einvörðungu til pólitískrar og efnahagslegrar kúgunar. Í slíku skyni sköpuðu þeir Marshallhjálpina. Samkvæmt henni er ekki lengur úthlutað til þjóðanna, sem svelta. Þvert á móti er reynt að nota hungrið til að beygja nauðstaddar þjóðir undir ameríska okið. Þess vegna fá þær þjóðir Evrópu, sem verst urðu úti í stríðinu, enga hjálp. En samkvæmt Marhallaðstoðinni er ekki úthlutað eftir neyðinni, heldur eftir pólitískri þægð ríkisstjórnanna við ameríska auðvaldið. Þess vegna er íslenzka ríkið nú orðið nr. 1 í Marshallaðstoðinni.

Þá töluðu allir ráðh. um, að víss flokkur hlýddi erlendum fyrirskipunum, og Bjarni Ásgeirsson sagði, að hann hefði veraldlegu meðmælin frá Moskvu. Allir vita, að þetta er ósatt. En við vitum hins vegar upp á hár, þ.e.a.s. dollar, hvað ameríska auðvaldið greiddi fyrir verknaðinn 30. marz. Það upplýsti það frammi fyrir öllum heimi sama dag og ráðh. flugu vestur. Það voru 21/2 millj. dollara. Ég veit ekki, af hverju Ameríkanar höfðu það ekki 3 milljónir dollara, eina milljón fyrir hvern ráðh., líklega hafa þeir verið að hlífa tilfinningum Framsóknar og reiknað þess vegna eina millj. fyrir Bjarna, eina millj. fyrir Emil og hálfa milljón fyrir Eystein, af því að hann er svo mikið á móti verðbólgunni. Og því verður ekki neitað, að það er gífurleg verðbólga, þegar vitað er, að forðum daga kostaði svona verknaður bara 30 silfurpeninga.

Íslendingar! Allt frá upphafi kynstofns vors hafa stórfenglegustu ljóð vor og sögur varað oss við einni örlagaþrunginni bölvun, er valdið geti tortímingu kynstofns vors. Eins og rauður þráður liggur í gegnum bókmenntir vorar allt frá Fáfnismálum og Völsungasögu til Matthíasar Jochumssonar og Stefáns G. viðvörunin við bölvun gullsins, bölvun þess ógnarauðs, sem safnast á örfáar hendur og veldur spillingu og kúgun, frelsistjóni og fjörs. Bölvun þess auðs, sem safnazt hefur á örfáar hendur, birtist nú í helstefnu þessarar ríkisstj., peningaauðvaldsins, birtist í kúgun hennar og álögum á alþýðu þessa lands, birtist í undirlægjuhætti hennar gagnvart auðdrottnum Ameríku. Bölvun þessa gulls hefur tælt höfðingja þessa lands til að ofurselja land sitt undir amerískt hervald og þjóð vora undir engilsaxneskt arðrán, eins og skefjalaus valdagirnd tældi höfðingja Sturlungaaldar til þess að selja Ísland undir erlent konungsvald, sem við sluppum ekki undan fyrr en fyrir 5 árum. „Hið gjalla gull

og hið glóðrauða fé,

þér verða þeir baugar að bana,“

sagði Fáfnir við Sigurð forðum daga, og varð að áhrínsorðum.

Íslenzk alþýða, íslenzk þjóð hefur aðeins eina leið til þess að afstýra söfnun auðsins á örfáar hendur, til að firra sjálfa oss og afkomendur vora frelsis- og fjörtjóni: Að skapa órofa þjóðfylkingu Íslendinga til þess að brjóta hlekki þessarar ríkisstj. og flokka hennar af þjóðinni, reka amerísku yfirgangsseggina burt af þeim Suðurnesjum, er þeir nú svívirða, skapa öryggi alþýðuheimilanna gegn atvinnuleysi og fátækt, leiða þjóðina fram til velmegunar og frelsis, tryggja Ísland fyrir Íslendinga.

Það er þetta, sem Sósfl. vill. Í baráttunni fyrir þessu, í frelsisbaráttu Íslendinga gegn erlendri ágengni og innlendri harðstjórn og auðkýfingavaldi, er Sósfl. viðbúinn til að taka höndum saman við þjóðholla Íslendinga, hvar í flokki sem þeir standa. Gagnvart þeim, sem eru að gera Ísland að fótskör fyrir járnhæl hins ameríska Mammons, sem nú þegar er byrjaður að traðka þjóðmenningu vora í svaðið suður á Reykjanesi, — gagnvart þessu eiga Íslendingar aðeins eitt svar: Einingu um Ísland, frelsi þess og farsæld.