18.10.1948
Neðri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1288 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

5. mál, niðursoðin mjólk

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég vil aðeins beina því til landbn., hvort ekki sé unnt að finna aðra leið til þess að ná því marki, sem frv. stefnir að, en að lögbanna innflutninginn, og jafnframt, að n. athugi, hvort ekki sé hægt að rýmka bannið á niðursoðinni mjólk. Það er svo, að það geta komið fyrir tímabil, þegar innlenda varan er ekki fáanleg, og þá sitja menn uppi tómhentir, ef innflutningur er bannaður með l. Það hefur komið fyrir, að verksmiðja sú, sem framleiðir niðursoðna mjólk, hefur ekki getað fullnægt eftirspurninni. Eitt sinn var það vegna rekstrarstöðvunar, sem þó átti sínar eðlilegu orsakir.

Hv. flm. vísaði til þess, að síðan stöðin á Blönduósi tók til starfa, hafi verið fært að mæta eftirspurninni. Það er rétt, hvað magnið snertir, en ekki þær tegundir, sem þörf hefur verið fyrir. Undanrennuduft hefur verið til, en ekki mjólkurduft. Það hefur því ekki annað verið hægt en að flytja það inn.

Ég er því samþ., að allt sé gert til þess að greiða fyrir sölu innlendu vörunnar, en það má ekki setja svo strangar skorður, að neytendur verði tómhentir, ef eitthvað kemur fyrir. Ég vil í því sambandi benda á, hve erfitt það er fyrir sjómenn, ef þessari eftirspurn er ekki fullnægt. Það getur verið, að togararnir, sem sigla til Englands, geti birgt sig upp erlendis, en það hjálpar ekki öðrum sjómönnum, sem ekki hafa tækifæri til þess.

Ég tel frv. flausturslega samið og einhliða og vil, að það verði athugað vel.