18.10.1948
Neðri deild: 5. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1297 í B-deild Alþingistíðinda. (1625)

5. mál, niðursoðin mjólk

Samgmrh. (Emil Jónsson):

Ég vil aðeins geta þess, af því að það kom fram í ræðu hv. 2. þm. Reykv., að ég mundi eitthvað vera riðinn við þessar leyfisveitingar og þar hafi komið til minna kasta, að svo er þó alls ekki. Ég hafði ekki hugmynd um, að þetta hefði verið leyft, fyrr en nú fyrir 3–4 dögum, að hv. þm. A-Húnv. skýrði mér frá þessu. Þess vegna hafði ég ekki tækifæri til þess að ræða við framleiðsluráð landbúnaðarins um það. Hv. þm. veit það líka, að megnið af innflutningsleyfum er veitt, án þess að það sé borið undir ráðherra eða ráðuneytið. Þau skipta þúsundum, og þó að ég gerði ekkert annað, en að lita á þau, þá kæmist ég ekki yfir þau öll. Það er á valdi viðskiptan., og hún hefur gert það, bæði í þessu tilfelli og öðrum. Hins vegar aðspurð skýrði hún mér frá orsökunum fyrir því, að innflutningurinn var leyfður. Ef það stangast við upplýsingar frá hv. þm. A-Húnv., þá er ekki nema sjálfsagt, að nefndin athugi það og beri saman og láti það sanna koma í ljós.

Hv. þm. A-Húnv. segir, að ef neyðarástand skapist, t.d. ef eitthvað gæti komið fyrir, sem orsakaði rekstrartruflun, eða að verksmiðjan fullnægði ekki eftirspurninni, þá mundu landbrh. og viðskmrh. veita undanþágu. Ég veit ekki, hvar sú heimild er. Það er brot á lögunum. Það hefur orðið að brjóta lögin til þess að firra vandræðum. Það var gert í fyrra, og mig langar ekki til þess, að það þurfi að koma fyrir aftur.