26.11.1948
Neðri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem er á þskj. 132, er flutt af sjútvn. þessarar hv. d. samkv, beiðni hæstv. fjmrh. Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. eru ráðstafanir, sem gerðar hafa verið með því að taka á fjárlagafrv. 6 millj. kr. fjárveitingu til aðstoðar bátaútvegi landsmanna. En ástæðurnar fyrir þeirri ráðstöfun aftur eru að sönnu kunnar. Þær eru það, að bátaútvegurinn hefur komið af fjórum síðustu síldarvertíðum með stórkostleg töp, og þó urðu rekstrartöpin á síldarvertíðinni á síðasta sumri langsamlega mest og komu þar að auki sérstaklega illa við, sökum þess að sú vertíð var framhald af mjög lélegri vetrarvertíð, þorskvertíðinni 1948. —Hæstv. fjmrh. taldi, að það mundi ekki vera hægt að komast hjá því að gera opinberar ráðstafanir út af þessu ástandi bátaútvegsins, því að menn bjuggust við, og eru kannske ekki vonlausir um það enn, að verða mundi síldveiðivetrarvertíð við Faxaflóa nú í vetur. En það þótti þjóðfélagsleg nauðsyn, að bátaútvegurinn væri þá ekki undir hamrinum í byrjun þeirrar vertíðar, þannig að hún hlyti að farast fyrir. Og í raun og veru, hvernig sem á hefði staðið hlaut ríkisstjórnin að taka þetta mál til alvarlegrar yfirvegunar.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. í heild haft margháttaðar viðræður um það, hvernig þessum málum skyldi bjargað við. Fyrsta fangaráðið var að fá nokkrar stofnanir til þess að leggja menn til ráðagerða og mynda þannig ráðgefandi nefnd fyrir ríkisstjórnina. Bankarnir, Landsbankinn og Útvegsbankinn, tilnefndu hvor sinn manninn í þessa nefnd, Landssamband ísl. útvegsmanna þriðja manninn og Fiskifélag Íslands þann fjórða og fjmrh. þann fimmta. Fyrir þessa nefnd var nú lagt það að rannsaka hag útvegsins og sérstaklega þó, hvernig bátaútvegurinn hefði komið frá síðustu síldarvertíð, og gera till. til viðréttingar. Og sérstaklega var lögð áherzla á það í þessum rannsóknum, að till. yrði flýtt vegna væntanlegrar síldarvertíðar í vetur. — Nefndin gat nú ekki starfað með þeim hraða sem æskilegt hefði verið. vegna þess að hún varð að fá skýrslur sínar frá útvegsmönnum sjálfum, en það tekur alltaf nokkurn tíma. Það voru gerðar margendurteknar tilraunir af ríkisstj. í heild til þess að bæta úr bráðustu þörf bátaútvegsins með aðstoð bankanna. En það tókst ekki, sumpart af því að það vantaði rannsókn á þessum málum. En þessi rannsókn, sem nefndin reyndi að flýta eins og unnt var, varð til þess, að skýrslur og reikningar bárust frá eigendum 156 skipa af að mig minnir 260–270 skipum, sem síldveiðarnar stunduðu. Af reikningum þessara fyrirtækja, sem sendu sínar skýrslur til nefndarinnar, kom í ljós, að töp þessara báta á síldarvertíðinni einni voru á fimmtándu millj. kr. og þar af forgangskröfur, lögveðs- og sjóveðskröfur 8 millj. og 600 þús. kr. Ég vil biðja hv. þm. að leiðrétta það um leið, að þessi tala hefur misprentazt í grg. frv., þar stendur: 860 þús. í staðinn fyrir 8.600.000.00. — Þar sem talið var, eins og ég sagði, mest áríðandi að gera bátaflotann færan um að leggja út í næstu vertíð, þá sendi nefndin af þeirri ástæðu ríkisstj. fyrst af öllu skýrslu um forgangskröfur, þar sem vitað var, að bæði vegna kröfuhafa, sem eru yfirleitt fátækt fólk, sem átti þarna sína sumaratvinnu, og líka vegna framhalds á rekstri bátaflotans, þá var þessari skýrslu flýtt, og aðgerðir til þess að bjarga þessum sérstaka þætti við voru látnar ganga fyrir öllu öðru í þessu sambandi. Það héldu svo áfram rannsóknir ríkisstj. og nefndarinnar einnig til þess að komast að raun um það, hvort viðskiptabankar bátaflotans mundu sjá sér fært að leysa þennan vanda. En það reyndist ekki hægt með svo litlum fyrirvara sem bankarnir fengu til þess, og sjálfsagt hafa legið fleiri ástæður til þess. Það varð því fangaráð hæstv. fjmrh., og mér er óhætt að segja í samráði við alla ríkisstj., að setja inn á fjárlagafrv. 6 millj. kr. fjárveitingu, sem sérstaklega var ætluð til þess að leysa forgangskröfur af bátunum. En vitað mál er það, að þessi upphæð er algerlega ófullnægjandi til þess að bátarnir geti búið sig á næstu vertíð, því að eftir fjögurra ára rekstrartöp á síldveiðum og mjög lélega síðustu þorskvertíð, þá er hagur bátanna þannig kominn, að þetta nægir engan veginn. Bæði eru lausaskuldirnar miklu, meiri en forgangsskuldirnar, en auk þess eru stofnlánin yfirleitt í vanskilum, bæði um greiðslur vaxta og afborgana. Og sökum þess er það, að bæði nefndin og ríkisstj. halda áfram að leita ráða til þess að leysa þennan vanda og reyna að skapa framtíðarrekstrargrundvöll fyrir bátaútveginn. Ég skal svo ekki fjölyrða um það, því að það er ekki beinlínis viðkomandi þessu frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 132. En ríkisstj. taldi — og það er sjálfsagt alveg rétt —, að ekki væri nóg að setja þessa fjárhæð, sem þó er ófullnægjandi, inn í fjárlagafrv. Það þarf bæði að sjá sjávarútveginum fyrir fé út á þessa fjárveitingu nú þegar og einnig setja reglur um það, hvernig þessi aðstoð verði látin í té. Og frv. þetta hefur að geyma höfuðreglurnar fyrir þessari aðstoð um úthlutun á þessari hjálp til bátanna. Menn taka sjálfsagt eftir því, að þetta frv., sem ríkisstj. hefur látið gera, er sniðið eftir V. kafla dýrtíðarlaganna frá síðasta þingi, og þar er gert ráð fyrir, að þetta verði í lánaformi, en ekki er þar talað um neinar tryggingar fyrir lánunum, sem stafar af því, að fjárhag bátanna er þannig komið, að hjá þeim er sjálfsagt engar tryggingar að fá, sem nokkurs virði mega teljast.

Ég vil taka það fram, að sá dráttur, sem hefur orðið á þessum aðgerðum, hefur orðið allt of mikill, en mundi ekki hafa orðið til mikils baga, ef annað ólán hefði ekki komið stærra, sem er, að vetrarsíldin hefur ekki látið á sér bæra enn þá. En ýmsir kröfuhafar hafa ekki getað beðið lengur og eru þess vegna þegar byrjaðir að ganga að skipunum með lögveðskröfur.

Ég vil taka fram, að sjútvn., sem flytur þetta frv. fyrir hæstv. fjmrh., hefur ekki gengið frá málinu til fullnustu. Það er áreiðanlegt, að annaðhvort sjútvn. í heild eða einstakir nefndarmenn munu bera fram brtt. við frv. við 2. umr. Þannig standa sakir, að það er mjög óvíst, að eigendur bátanna geti yfirleitt notað sér lántökur. Það er ekki þægilegt fyrir menn eða fyrirtæki, sem eru í miklum skuldum, að skuldbinda sig við ný lán. Og ríkisvaldið getur ekki gengið á undan öðrum í því að láta brjóta þau lög, sem gilda um lántöku. Og þess vegna mun koma fljótt brtt. við þetta frv. um það, að aðstoð þessi við bátaútveginn verði styrkur, en ekki lán.

Ég vil svo loks bæta því við, að það verður að sjálfsögðu farið fram á, að máli þessu verði hraðað mjög mikið í gegnum þingið, og jafnvel þó að það þurfi afbrigði frá þingsköpum til þess. Ég hef ekki orðið var við, að ágreiningur hafi orðið um meginefni frv., þó að svo sé kannske um einstök atriði þess. Og þess vegna getur ekki talizt óeðlilegt, að málið verði afgreitt með meiri hraða en þingsköp gera ráð fyrir. En ef svo skyldi vera, að einhverjir teldu það nokkuð frekt í farið að gera þetta að beinu skilyrði, þá vil ég samt minna á það, að sjávarútvegurinn hefur unnið mikið afrek á undanförnum árum í þágu þjófélagsins. Það er vitað mál, að almenningur í þessu landi lifir yfirleitt við góð kjör og miklu betri en þekkzt hefur áður í þessu landi. Það er einnig vitað, að ýmsar stéttir þjóðfélagsins hafa bætt efnahag sinn stórkostlega, og þó að það megi sjálfsagt ekki teljast ríkidæmi, þá er þar mikil breyt. á frá því, sem áður var. Loks má taka það fram, að ríkið sjálft hefur margfaldað fjárhagsgetu sína á síðustu árum, sem hefur að langmestu leyti getað orðið fyrir þau verðmæti, sem fengizt hafa frá sjónum, og þar í á bátaflotinn sinn mikla þátt. En þrátt fyrir þetta allt, sem orðið hefur til umbóta og hagsældar fyrir land og þjóð, þá stendur nú bátaflotinn alveg snauður og er kominn að langmestu leyti í greiðsluþrot. Það er því ekki aðeins þjóðfélagsleg nauðsyn að gera bátaflotann aftur starfhæfan með einhverjum opinberum aðgerðum, heldur er það að sjálfsögðu verðugt vegna þeirra afreka, sem hann á að baki sér.

Ég vil svo óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. Til n. þarf það ekki að fara, því að n. flytur það.