28.11.1948
Neðri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1303 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég vildi taka mjög undir ræðu hv. 5. þm. Reykv. um það, að afgreiðslu þessa máls verði hraðað sem allra mest. Ég tel, að hv. 5. þm. Reykv. hafi talað þar fyrir munn allrar sjútvn., er hann mæltist til þess, og skal ég ekki tefja þetta mál að neinu leyti. En ég vil aðeins lýsa því yfir, að ég geri ráð fyrir, að fundur verði haldinn í sjútvn. nú þegar að loknum þessum fundi eða a.m.k. það snemma fyrir mánudagsfundinn, sem væntanlega verður haldinn hér í þessari hv. d., að sú brtt. gæti þá legið fyrir, sem hv. 5. þm. Reykv. hefur hér boðað. Og í sambandi við þetta vil ég óska þess, að hæstv. forseti taki þetta mál fyrir á næsta fundi, sem haldinn verður í þessari hv. d., sem væntanlega verður þá haldinn á mánudag.