26.11.1948
Neðri deild: 23. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1650)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég ákvað að biðja hv. sjútvn. þessarar d. að taka á móti þessu frv., sem um tíma hefur legið í ráðuneytinu og hefur verið dregið að leggja fram af því, að ekki var vitað um afstöðu bankanna um viss atriði. — Ég heyri, að hv. frsm. sjútvn. boðar brtt. við málið, að því er mér skilst í þá átt, að hér sé breytt til þannig, að þar sem í frv. er talað um, að þessi aðstoð sé skoðuð sem lán, þá verði þessi aðstoð veitt sem styrkur, en ekki lán. Ég skal ekkert leggjast á móti því, að hæstv. Alþ. breyti þessu þannig. Hins vegar þótti mér réttara, að frá ráðuneytisins hálfu væri frv. fram borið í því formi, sem það er, þannig að gert væri ráð fyrir, að þessi hjálp væri afturkræf, ef ástæður leyfa. En það er vitaskuld að öllu leyti í höndum Alþ. að hafa annan hátt þar á. Og skal ég ekki leggjast þar á móti, ef þingvilji er fyrir því.

Hv. frsm. sjútvn. og hv. þm. Ísaf. lögðu áherzlu á það, að þessu máli væri hraðað í gegnum þingið. Ég tel líka, að það sé nauðsynlegt að gera það. Og sá dráttur, sem orðið hefur á að leggja þetta frv. fram á Alþ., stafar einungis af því, að verið var að biða eftir að sjá, hvort ekki mætti tryggja fleiri atriði varðandi þennan atvinnuveg í leiðinni, og þá einkum tryggja það, að þeir, sem þarfnast hjálpar vegna lögveðs og sjóveðs, yrðu hjálparinnar aðnjótandi, en yrðu ekki látnir standa uppi hjálparlausir með sína útgerð á næstu vertíð. Við höfum í félagi, kreppunefndin, sem skipuð var, og ég, lagt þessa spurningu fyrir bankana, fyrir báðar bankastjórnirnar, sem sé þetta: Viljið þið gefa okkur skýrslu um það, hversu mörgum eða hverjum af þessum ca. 160 bátum þið viljið hjálpa til útgerðar, ef af hálfu ríkisvaldsins verður séð fyrir því að leysa af þeim sjóveð og lögveð? Þessari spurningu er því miður enn ósvarað. En ég álít samt sem áður, þó að henni sé ósvarað af bankanna hálfu, að þetta mál verði nú að koma fram í dagsins ljós og fá staðfestingu Alþ., ef Alþ. er samþykkt þeirri stefnu, sem ég tók upp við samningu fjárlagafrv., að taka hreinlega fjárveitingu inn á frv. í þessu skyni, sem hér er um að ræða. Ég greindi frá því þá, af hvaða ástæðum ég teldi réttara að hafa þennan hátt á heldur en að fá heimild til þess að taka enn á ný lán í þessu skyni, og tel mig ekki þurfa að rekja það öllu meir en þá var gert. Ég sýndi fram á það, að það væri ekki hægt og væri ekki fjármálalega rétt að viðhalda þessari hjálp ávallt með lánum, heldur, þegar maður hefði nú tvö slík kreppulán af því tagi á sér, þá yrði sennilega að taka þetta fé núna af þjóðarbúrekstrinum. Og ég álít þá rétt að skera einhver önnur útgjöld niður, sem minni þörf er á.

Hv. þm. Siglf. kvartaði mikið yfir drætti á þessu máli. Taldi hann þetta misráðið, að hjálp þessi kæmi of seint, o.s. frv. Það er nú svo. En hv. þm. hlýtur að gera sér það ljóst hann er það greindur maður —, að þó að á árinu 1945 væri ákaflega létt verk að grípa upp 5 milljónir króna, til þess þá að aðstoða þessa sömu síldarútvegsmenn, er það dálitíð annað í dag. Hann bar það fram á þingi, að kreppuhjálpin væri styrkur. En það eru margir, sem draga í efa, að rétt hafi verið á því tímabili að fara að stað með kreppuhjálp til síldveiðibátanna. En það var gert. Svo kom árið 1947, og þá þurftu útvegsmenn aðrar 5 milljónir. Fjárhagsástæður í landinu hafa mjög breytzt til hins verra á þessu tímabili síðan. Til þess hefur ýmislegt hjálpað. Alþ. hefur séð svo fyrir með margháttaðri löggjöf, að útgjöld ríkisins hafa mjög vaxið. Hins vegar hefur gjaldgeta sjávarútvegsins minnkað. Allt þetta hefur skapað vandræði fyrir þá, sem hafa á höndum að útvega peninga fyrir land og þjóð, líka fyrir ríkisstj., þó að hún gjarnan vilji fá lánsfé, eins og í þessu tilfelli, þegar nauðsyn er á að hlaupa undir bagga með síldarútvegsmönnum. Þess vegna má ekki einblína á það, að dráttur hefur orðið hér á hjálpseminni, ef menn vilja sanngirni viðhafa, heldur líka á, hvaða ástæður fyrir hendi eru. Væri það ekki annað fyrir ríkisstj. og þyrfti hún ekki annað að gera eða beita sér öðruvísi en að rétta upp hendina til þess að geta fengið fé til þess að deila út til bátanna til þess að losa af þeim lögveð og sjóveð, þá væri vandinn lítill.

Svo kom hv. þm. Siglf. að því, sem við, kreppunefndin og ráðuneytið, fyrir löngu komum auga á, sem hann sagði, að nauðsynlegt væri að athuga, sem ég og hef talað um, að þeim, sem ríkið vill veita hjálp og aðstoð, verði einnig hjálpað af bankanna hálfu, a.m.k. á næstu vertíð. Og þessi hv. þm. tók fram, að þýðingarlaust væri að hjálpa þeim bátum, sem hvort sem er gætu ekki gert út á næstu vertíð. Ég er mikið til á sama máli í þessu efni og hef lengi haft þá skoðun, að þetta tvennt yrði að tryggja undir eins. En við erum ekki búnir að fá nein svör hjá bönkunum einmitt um þetta atriði. — Ég get af þeim ástæðum heldur ekki orðið við þeim tilmælum að gefa upplýsingar um afstöðu bankanna, en á það minntist hv. þm. Siglf. í sinni ræðu, að æskilegt væri, að ég gerði, því að ráðuneytið hefur ekki fengið þær upplýsingar enn frá bönkunum.

Að því er snertir greiðslufrest á öllum skuldum útgerðarinnar, þá væri mjög æskilegt, að hægt væri að koma því við, að útgerðin fengi þau fríðindi. En það er ekki alveg vandalaust mál að fást við. Ég geri ráð fyrir, að margir, sem eiga hjá útgerðinni, hafi líka sínar skuldbindingar, sem þeir verða að standa við gagnvart sínum lánardrottnum. Og eins og skuldir útgerðarinnar eru nú vaxnar, þá er ekki eins auðvelt að koma því fram með skaplegu móti að veita útgerðinni slíkan greiðslufrest eins og það hins vegar er auðvelt að kasta því fram, að æskilegt væri að geta gert það. Hitt má vel vera, að hér þurfi einhverra miklu stærri átaka við en ákvæði um felast í þessu frv. Og ég hef heldur aldrei haldið því fram, að hér væri í þessu frv. fram kominn einhver allsherjarlæknisdómur til lækningar á því neyðarástandi, sem þjáir nú bátaútveginn, heldur hef ég takmarkað þetta frv. við það, sem ég taldi, að ugglaust væri, að ríkisvaldið gæti ráðið við í bili, sem sé að forða útgerðarmönnum frá upptöku eigna sinna með því að leysa lögveð og sjóveð af bátunum.

Svo skal ég aðeins minnast á eitt atriði, sem kom fram hjá hv. þm. Siglf. Hann sagði, að menn yrðu að horfast í augu við þá staðreynd, að það, sem lánað hefur verið af hálfu ríkisins til þess að hjálpa útveginum vegna aflaleysis 1945 og 1947, væri tapað fé og væri bezt að gefa það eftir. Má vel vera, að það sé tapað fé. Þó vildi ég óska þess, að það þyrfti ekki endilega að líta þeim augum á það. Ég vildi óska þess, að útgerðin ætti ekki svo dökka framtíð fyrir höndum, að svo yrði endilega að líta á lánin frá 1945 og 1947 þegar á þessari stundu, að þau væru töpuð, og það jafnvel þá að ég fallist á, að þriðja lánið nú, 1948, sem hér eru till. um í frv. þessu, verði þá frekar litið á þannig, að breyta beri til og veita þessa hjálp nú sem styrk, eins og fram hefur komið nú hjá hv. frsm. sjútvn. En sú tilhugsun er ákaflega ömurleg fyrir ríkisvaldið, að þurfa að horfast í augu við það eiginlega fyrir fram, að slíka hjálp til útgerðarinnar megi raunverulega fyrir fram afskrifa. — Hitt tók hv. þm. Siglf. líka fram, sem rétt var, og taldi að mér skildist það ríkisstj. til gildis, að við hefðum ekki beitt okkur fyrir því að koma mönnum í vandræði núna eða ganga að veðum fyrir þessum skuldum, þó að það hefði mátt eftir laganna hætti. Nei, það höfum við ekki gert. Við höfum ekki viljað auka á vandræði skuldugra útgerðarmanna á þann veg. En það þarf ekki með því að slá því föstu, að þetta fé sé algerlega tapað, því að ef síldarútvegsmenn, sem hér eru verst staddir, fá einu sinni verulega góða síldarvertíð, þá mætti með miklum rétti vonast til þess, að þeir veltu af sér þessu fargi og mörgum öðrum, sem á þeim hvíla.

Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta mál. Ég vonast til þess, að það verði látíð ganga fljótlega til 2. umr., og ég tek undir þau ummæli, sem fram hafa komið um að afgr. það fljótt í gegnum þessa hv. þd.