09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1316 í B-deild Alþingistíðinda. (1655)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ríkisstj. bað hv. sjútvn. að taka að sér þessar till. til flutnings, sem eru brtt. við frv. það, sem hér er til umræðu, og þakka ég hv. nefnd fyrir að hafa lýst þeim till.

Þegar, eins og hér horfir nú við, útgerðin er á ný í enn þá stórkostlegri vandræði rötuð vegna taps ár eftir ár, og ríkisstj. eða ríkisvaldið og Alþ., sem hefur ekki haft bein afskipti af athöfnum útvegsins, sem ekki er að vænta, á að finna ráð til að leysa þessi vandræði, þá er ekkert líklegra, en að eitthvað sé hægt að finna að þeirri tilraun til lausnar vandanum, þegar svo er komið, að margir bátar eiga ekki fyrir skuldum, vantar veiðarfæri og skulda kaup sjómanna. Mér er vel kunnugt um, hve vandræði útgerðarinnar eru mikil og margþætt, bæði er mér það kunnugt í gegnum þær upplýsingar, sem trúnaðarmenn ríkisstj. hafa fengið hjá útgerðarmönnum, og af ótal viðtölum við útgerðarmenn og fulltrúa útvegsins. Og þegar svo er, þurfa menn ekki að ætla, eins og fjárhagsástandið er og verðbólgan hér á landi, að þetta verði allt læknað í einni svipan, svo að ekkert sé hægt að, að finna. Og það er í sjálfu sér ekki nema eðlilegt, að stjórnarandstaðan breiði sig út yfir þá agnúa, sem finna má á þessari tilraun til aðstoðar, sem miðar þó að því í heild sinni að bjarga við rekstri bátanna, fyrst og fremst á þessari vertíð, það er að segja þeirra báta, sem ekki eru svo illa komnir, að þeir geta ekki haldið áfram.

Það var verið að tala hér um heilbrigðan grundvöll. Ójá, heilbrigður grundvöllur. Ja, hver sem gæti nú farið til tunglsins. Það gengur barnaskap næst, þegar maður heyrir fullorðna menn, sem þekkja, hvernig dýrtíðin er, halda því fram eins og í alvöru, að hægt sé að kippa atvinnulífinu á heilbrigðan grundvöll í einu vetfangi eins og útgerðin er komin.

Hv. 2. þm. Reykv. talaði mikið um það, hverjar skyldur ríkisvaldið hefði gagnvart útgerðinni, og skal ég sízt draga úr því sem gamall útgerðarmaður. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að ríkið ætti miklar skyldur að rækja við útgerðina. En þegar svo er komið, að útgerðarmenn geta ekki boðið ríkinu annað, en að taka við tapinu ár eftir ár, án þess að ríkið hafi önnur afskipti af atvinnurekstrinum, þá verður maður að viðurkenna, að útgerðin hefur líka vissar skyldur við ríkið. Ég hef ekki haft kynni af neinni ríkisstj., sem ekki hefur haft fullan hug á því að búa í haginn fyrir útveginn á ýmsum sviðum, og sama er raunar að segja með landbúnaðinn. Mér hefur virzt, að allar meyjar vildu með Ingólfi ganga, þegar um bætta aðstöðu þessara atvinnuvega hefur verið að ræða, eða svo hefur almennt verið látið. En nú er ástandið mjög breytt, því miður, frá því sem var fyrir nokkrum árum, því að þótt margt blési áður í móti útgerðinni, þá kastar þó fyrst tólfunum nú. Skuldir útgerðarmanna eru svo stórkostlegar, erfiðleikarnir svo miklir, að þessi atvinnuvegur stendur geigvænlega tæpt, hvað sem út af ber. Og af hverju? Af því, að þjóðarbúskapurinn er ekki rekinn á heilbrigðum grundvelli. Og þá liggur beint við að spyrja þá, sem heimta, að honum sé komið á heilbrigðan grundvöll í einni svipan, hvað þeir hafi sjálfir gert til að draga úr verðbólgunni og dýrtíðinni í landinu, því að það er verðbólgan í fyrsta lagi, verðbólgan í öðru lagi og verðbólgan í þriðja lagi, sem mestu veldur í þessu efni, samhliða aflabresti á síldveiðum síðustu árin. Mér er satt að segja ekki kunnugt um það, að kommúnistar hér á Alþ., eða sá flokkur yfirleitt, hafi á nokkru sviði í nokkurt skipti komið með nokkrar raunhæfar tilraunir til að minnka verðbólguna í landinu. Þeir hafa snúið geiri sínum í ýmsar áttir eftir sínum pólitíska áttavita í það og það skiptið og miklað og blásið upp ógn þess, er þeir börðust við og hömruðu á í hvert sinn, hvort sem það hafa nú verið kaupfélögin, Landsbankinn eða heildsalarnir. En að þessi flokkur eða þingmenn hans hafi nokkru sinni gert sig líklega til að létta af þjóðinni böli verðbólgunnar eða losa myllusteininn af hálsi útvegsins, hefur aldrei komið fyrir. Þeir hafa því manna sízt ástæðu til að varpa svo þungum steini að þessari tilraun til úrlausnar, sem hér á að reyna, sem ég skal að vísu játa, að ekki er veigamikil á þessu stigi málsins, en þó tilraun til bjargar.

Hv. þm. Siglf. breiddi sig mjög út yfir það í ræðu sinni, hve rangt og óviðeigandi, skildist manni, það væri að breyta 2. gr. í þá átt, að í stað þess að lána beint, þá leysi ríkið til sín sjóveð. Hann virtist telja ríkið ætla að koma þar fram eins og harðsvíraðan „prokurator“, sem ætlaði að ná í veð fyrir skuldum, og veifa síðan sverði laganna yfir skuldunautunum. En það er svo fjarri því, að skilningur þessa löglærða manns á málinu sé réttur. Það er engin hætta á, að ríkið hlaupi í veg fyrir menn til að stöðva þá í atvinnurekstri þeirra. Það hafa ótal menn leitað til mín og sjútvmrn. í tíð núverandi stjórnar viðvíkjandi því, hvort þoka mætti til hliðar veðrétti ríkisins til þess að greiða fyrir öðrum lánum, sem þessir menn hafa verið að leitast við að fá, og þessu hefur aldrei verið neitað mér vitanlega, það hefur alltaf verið hliðrað til með veðrétt ríkisins,

þrátt fyrir það að það kunni að vera skakkt út frá einstrengingslegu lögfræðilegu „prokúrators“-sjónarmiði. Ég skil ekki mitt hlutverk svo, og það hafa fyrirrennarar mínir heldur ekki gert, að ríkið ætti, þótt það hefði lögveð, að leggja stein í götu útgerðarinnar af þeirri ástæðu, að það hefði vald til þess.

Þá fannst hv. þm. Siglf. ákvæði 4. gr. um, að lánveitinganefnd eigi að rannsaka skýrslur frá útgerðarmönnum, nærri því móðgandi fyrir þá. Þarna er líka um misskilning að ræða. Ég get sagt það eins og er, og það er ekkert til að hneykslast á eða vera móðgaður af, að þær skýrslur, sem útgerðarmenn hafa gefið, eru nokkuð mismunandi, sumir reikna einn póst í ósamræmi við það, sem áður hefur verið reiknað, sumir reikna fyrningar óeðlilega, sem vel getur komið fyrir, o.s.frv., og það er ekki nema sjálfsagt, að lánveitandi kynni sér þessar skýrslur, það er sízt móðgandi. Það er ekki fyrirhuguð nein réttarrannsókn, heldur blátt áfram, að lánveitinganefnd kynni sér, hvort hagur viðkomandi útvegsmanna er eins og hann er sagður vera í skýrslunum.

Þá minntist hv. þm. Siglf. á seinlæti ríkisstj. í því að leysa höft af bátunum í vetur. Ríkið hefur skaðazt stórkostlega vegna þess, að bátar hafa legið og ekkert aðhafzt í haust. En ég minni á, að einmitt í haust hafa Norðlendingar, og ég held Austfirðingar yfirleitt og menn við Ísafjarðardjúp, stundað fiskveiðar með óvenjugóðum árangri. Þessir bátar hafa ekki legið við hafnarbakkann í Reykjavík eins og margir stórir bátar haf gert og mundu hafa gert, þótt engin sjóveð hefðu hvílt á þeim, blátt áfram af því, að hin stærri síldveiðiskip eru ekki þannig, að það borgi sig að gera þau út á þorskveiðar, nema vel veiðist og ekki þurfi langt að fara. Í haust hafa verið óvenjumiklir fiskflutningar úr Eyjafirði, og einhverjir hafa orðið að veiða þann fisk, og yfirleitt er það fjarri sanni, að sjóveðið hafi hindrað menn í að gera út, þar sem menn gátu og vildu fiska. Aftur á móti verður að segja það eins og er, að það hefur verið sorglega lítil veiði í Faxaflóa í vetur, svo að fólk hefur naumast haft í soðið hér í Reykjavík, en að sjóveðið hafi komið í veg fyrir, að menn gerðu út, er mest í huga hv. þm. Siglf. Hitt er vitað mál, að það er ekki gert að gamni sínu að leysa ekki sjóveð og lögveð fyrr, það stafar af þeim erfiðleikum, sem eru á því að fá fé til þessara hluta. En ríkisstj. hefur verið velviljuð í þessu efni, það er víst. Mest hefur staðið á því að fá fé til að leysa veðin.

Hv. 2. þm. Reykv. segir nú, að Alþ. eigi að fyrirskipa Landsbankanum að verja gróða sínum til að greiða það 14–15 millj. kr. tap, sem varð á síldarvertíðinni s.l. sumar, og þetta verkar eins og skot að áliti hans. En „i Morgen er der atter Dag“ sagði Valdimar Atterdag. Skyldi það ekki koma dagur eftir morgundaginn, skyldi það ekki geta þurft að hjálpa útgerðinni síðar, ef illa fer, oftar en í þetta eina sinn? Landsbankinn stendur beinlínis undir langmestu af lánveitingum til útgerðarinnar og stendur að mestu leyti straum af því fé, sem Útvegsbankinn lánar í því skyni. Það er því varhugaverður háttur, sem þessi hv. þm. benti á.

Ég held, hvað greiðslufrestinn snertir, að engin ástæða sé til að hafa neitt á móti honum. Hann er ekki nema eðlilegur, þegar athugað er, hve mörg spjót standa á útvegsmönnum, og hér er aðeins um stutt tímabil að ræða, en á meðan fá bátarnir tækifæri til að vinna sig upp. Í öðru lagi er þetta tímabil hugsað af ríkisstj. hálfu til að fara lengra og dýpra í sakirnar en þetta frv. gerir ráð fyrir, ef með þarf, og reyna að losa útvegsmenn úr skuldafjötrunum á ýmsum sviðum. Því er ástæðulaust að hafa á móti þessum gjaldfresti, sem þýðir friðun um skuldakröfur á þessum atvinnurekstri, á meðan fresturinn er. Varðandi kaupgreiðslur til sjómanna er mér ekki kunnugt um annað en þeir, sem vinna við bátana, hafi fengið greitt eftir hendinni, eins og rétt er að lögum.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á, að ríkisstj. ætti að fyrirskipa bankanum að lækka rekstrarvexti til útgerðarinnar. Það er nú svo. Við höfum nú oft um þetta talað, en ég veit ekki til, að nein stjórn hafi gert þetta nema núverandi ríkisstj. s.l. vetur; þá steig hún þetta spor af illri nauðsyn. Hvað um það, það var gert. Ég lái engri fyrrv. stjórn, þótt það væri ekki gert fyrr, frekar en ég hrósa núverandi stjórn fyrir að hafa gert það. En staðreyndin er sú, að engin önnur stjórn hefur farið út á þessa braut, og ef það er vert gagnrýni að hafa forsómað að fara þessa leið, þá verður hv. 2. þm. Reykv. að beina þeirri gagnrýni annað en í garð núverandi stjórnar, sem hefur einmitt gert þetta.

Ég kem þá loks að gjaldeyrismálunum, sem hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Siglf. ræddu báðir um. Það er nú löng saga, og þykir mér ekki fyrir, að þau mál séu rædd. Ég hef oft verið á þeirri skoðun, að útvegsmenn væru ekki á allan hátt rétt með farnir í því efni. Það mun hafa verið 1930, að gjaldeyriseftirlit var fyrst sett á stofn. Og frá þeim tíma hef ég oft komizt í hóp þeirra manna, þar sem um það var rætt, að raunverulega væri það ekki að öllu leyti réttlátt, að útgerðarmenn, sem legðu til mestan hlutann af gjaldeyrinum, þyrftu að leggja hann allan fram öðrum til afnota, sem flyttu svo inn fyrir hann og græddu á, á sama tíma og útgerðin væri e.t.v. rekin með stórtapi. En gjaldeyririnn gengur í gegnum bankana, og það, sem mestu varðar raunverulega í þessu máli gagnvart útvegsmönnum og öðrum, sem framleiða fyrir erlendan gjaldeyri, er það, að framleiðendurnir fái réttlátt verð fyrir gjaldeyrinn, að verðskráningin sé réttlát og í samræmi við verðskráningu annarra þjóða. Ef svo er ætíð, er þetta böl ekki eins tilfinnanlegt og ella, því að í öllum þjóðfélögum viðgengst stétta- og verkaskipting, sumir gera út og selja bönkunum gjaldeyrinn, aðrir kaupa gjaldeyrinn af bönkunum og greiða með honum innfluttar vörur, sem þeir síðan selja, o.s.frv. Þess vegna er það ekkert undarlegt, þó að til séu í þessu þjóðfélagi útflytjendur og innflytjendur eins og annars staðar. Og ef við svo gætum að því, sem þessir menn halda fram, að það sé rangt að taka gjaldeyrinn af útgerðarmönnum og selja hann öðrum, þá vaknar fyrst og fremst þessi spurning: Er skrásetningin rétt, fá útvegsmenn hér á Íslandi útlenda mynt fyrir sínar afurðir svo sem þeim ber samkvæmt réttri skráningu? Það er ástæða til að spyrja þessa hv, þm., hvort þeir álíti, að svo sé, og vil ég sérstaklega leggja þá fyrirspurn fyrir hv. 2. þm. Reykv., sem er mestur bankafræðingur hér á þingi af okkur leikmönnum og talar mest um bankamál. Og við hv. þm. Siglf. vildi ég segja það, að ég er honum ekki ósammála um það, að útvegsmenn ættu skilið að fá hluta af sínum gjaldmiðli að einhverju leyti, og hef ég meira að segja gert lítils háttar tilraun, og hana heppnaða á þessu sviði síðan ég kom í ráðun. og tók við sjávarútvegsmálum. Það var svokallaður frjáls gjaldeyrir fyrir sölu á hrognum, sem útvegsmenn fengu í byrjun þessa árs, og mér er tjáð, að þeir hafi haft af því talsverð þægindi, a.m.k. ýmsir þeirra. Hv. þm. Siglf. var sjútvmrh. í nokkur ár á undan mér, og vil ég því spyrja hann: Hvað gerði hann til þess, meðan hann var í ríkisstj., að rétta þetta böl, sem hann telur nú vera og ég vil ekki segja, að eigi sér ekki stað? Hvaða athafnir hafði hv. þm. í frammi, meðan hann var ráðh., til þess að láta útvegsmenn ráða yfir sínum gjaldeyri? Ég ætla að bíða átekta þangað til þessir hv. þm. hafa svarað báðum þessum spurningum.