09.12.1948
Neðri deild: 30. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Það fór sem mig varði, er ég spurði hv. 2. þm. Reykv. um það, hvort gjaldeyrisskráning væri réttlát. Þeir fóru báðir, hann og flokksbróðir hans, í kringum það eins og lítið húsdýr, sem við þekkjum, fer í kringum grautarskál: Það var spurt, hvort skráningin væri réttlát gagnvart útvegsmönnum. Þeir telja sér ekki fært að svara þessu, en um leið og þessu fer fram, þá fordæmir hann, þm. Siglf., þá till., sem fram kom á þingi Landssambands útvegsmanna nú í haust. Á þann hátt mætti ráða nokkra bót á verðlaginu, án þess það yrði til fjárhagslegrar byrði fyrir ríkissjóð. Líka þessi leið, sem útvegsmenn bentu á, virðist ófær, — því að ætlast hann þá til, að útgerðarmenn gerist heildsalar eða kaupmenn?

Hv. þm. hefur haldið hér á lofti lögfræðilegum teoríum út af ákvæðum frv. En það er nú þannig með þeirra hugsanagang, hann gengur meira út á teoretiskar kenningar, heldur en raunveruleikann. En það er ástæðulaust með öllu að vera með bollaleggingar um það, að með þessu ákvæði sé verið að stofna útvegsmönnum í hættu. Ég vil nú ekki tefja lengur hér að ástæðulausu, þó að ræða hv. þm. hafi gefið tilefni til þessara athugasemda.

Hv. 2. þm. Reykv. bölsótaðist hér yfir því, að lýsi hefði verið selt héðan fyrir neðan það verð, sem hægt var að fá á öðrum stöðum. Þó að hægt sé að benda á einhverja sölu á litlu magni, sem hærra verð hefur fengizt fyrir en það, sem selt er Bretum, þá er ekki hægt að selja allt lýsið við háu verði.

Það hefur verið bent á það, að framleiðendurnir sjálfir sæju um sölu afurðanna, en á því eru ýmsir annmarkar, eins og dæmi sýna glögglega, en s.l. ár ætluðu einkafabrikkur að selja afurðir sínar sjálfar, en það gekk heldur treglega. Fyrst var byrjað með yfirspenntu verði, eftir einhverjum agentum úti, en að lokum kom þó að því, að ríkisstj. varð að hlaupa undir bagga með þessum aðilum og komst þá ekki að eins góðum kjörum og hún hafði áður fengið. Ég er sjálfur sammála hv. þm. um það, að framleiðendurnir ættu að hafa meiri afskipti um útflutta vöru, en þeir hafa nú. En hann virðist ekki sjá neitt annað ráð, en að taka alla verzlun úr höndum þeirra, er nú hafa hana, og fá hana í hendur útvegsmönnum. En ég er hræddur um, að það yrði mikið vatn runnið til sjávar áður en það næði fram að ganga.

Ég ætla ekki að tefja lengur við þetta, en sný mér að frv. því, sem stjórnin hefur lagt fram og er einn liður til þess að ráða bót á því ástandi, sem nú í bili er í útvegsmálum okkar, en það er engan veginn álitlegt. En ég sé enga ástæðu til þess að vera að bölsótast yfir þessum eina lið frv. En það er hægast að leggja öðrum orð í munn, því að það gerði hv. 2. þm. Reykv. með því að taka hálfa setningu, svo að hún brenglaðist öll við það. — Ég gat ekki skilið flokksbróður hans, hv. þm. Siglf., þegar hann var að gefa ríkisstj. vitnisburð. Hann sagði í því sambandi, að við hefðum lagt á mikla skatta. Við höfum notað þá til þess að halda niðri verðbólgunni. Hvaða vísitala væri hér nú, ef þetta hefði ekki verið gert? Þó játa ég, að árangurinn er ekki eins mikill og við var að búast. En það liggja fyrir aðrar kröfur. — Það er bezt að láta hér staðar numið af minni hálfu. En hann er einkennilegur háttur þingmanna sósíalista hér á þinginu. Þeir hafa alltaf sama hljóð í munni. Það er engu líkara, en að þeir fari alltaf eftir línu, sem þeir aldrei bregða út af. Þeir segja: Það er aðeins ein stétt, sem veldur öllu böli, heildsalar. Þetta minnir mig á einn gáfaðan mann, sem ég þekkti, þegar ég var drengur. Þessi maður var alltaf að flytja kvæði og hafði gaman af að láta menn heyra, og menn komust ekki hjá því að hlusta á hann flytja sína list. Þau byrjuðu jafnan vel, en enduðu alltaf á óbótaskömmum um presta. Það er sama hjá sósíalistum. Hjá þeim endar kvæðið alltaf á þá leið, að allt böl komi frá heildsölunum. — Hv. þm. Siglf. gaf mér ráð um, hvað ég ætti að gera fyrir útvegsmenn. Ég hef ekki verið daufur fyrir ráðum útvegsmanna, sem ég sat á fundi með í nótt. Svo hefur ríkisstjórnin haft nefnd fulltrúa þeirra til þess að ræða við. En meðan hann var sjálfur sveinstauli og saug túttu, þá var ég starfandi við útgerð og þá jafnframt við sölu afurða. (EOl: Og þá réðuð þið gjaldeyrinum.) Það er að vísu satt, að við höfðum hann fyrst í stað, en svo kom það tímabil, er það þótti þjóðarnauðsyn að taka hann af að nokkru. Én gjaldeyrismál útvegsins og vandræði útvegsins verða ekki leyst, ef engin ákvörðun er tekin um það efni, en í þess stað verið með alls konar útopíur, sem miða að því að bola öðrum stéttum frá því, sem þær hafa mesta þekkingu til að inna af hendi og eru hæfastar til. — Það er skakkt hjá hv. þm. Siglf. að kenna heildsölunum og innflytjendum um svarta markaðinn. Hins vegar er ég sammála honum um það, að það er hin mesta ófremd að því að breyta dúkum og öðrum hlutum til þess að geta lagt meira á vöruna, eftir að búið er að vinna úr henni, en útiloka þar með fjöldann, en það er bara ekki sú stétt, sem hann sparkar mest í, sem sekust er í þessum efnum.