17.12.1948
Neðri deild: 42. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

92. mál, gjald af innlendum tollvörutegundum

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Við þetta frv. hef ég leyft mér að koma fram með brtt., sem er prentuð á þskj. 220 og hækkar mjög verulega það álag, sem er í gildi samkvæmt lögum nr. 60 frá 1939. Samkvæmt brtt. minni heimilast ríkisstj. að innheimta gjald af innlendum tollvörutegundum með 450% álagi árið 1949 og sumpart með 550% og 600% álagi, eins og nefnt er í tillögunni, en hækkunin nær þó ekki til gjalds af kaffibæti. Þessi tillaga mín er í beinu sambandi við fyrirhugaða opinbera aðstoð við atvinnuvegina samkvæmt því frv., sem hér var á dagskrá í gær, þar sem ríkinu er beint ætlað að láta 22 millj. kr. af tekjum sínum í dýrtíðarsjóð, og verður einhvers staðar að afla ríkissjóði tekna á móti þeim útgjöldum. Nú er að vísu ekki fyllt upp það tap með þessu frv. hér, þótt brtt. mín verði samþ., og þarf að leita fleiri úrræða til að jafna þau met. En um leið og ég þannig — ekki allfús — neyðist til að leggja til, að það álag, sem hér um ræðir, sé enn hækkað, þá vil ég taka fram, að það þarf að búa svo að þessum iðngreinum í landinu, sem ríkið byggir svo miklar tekjuvonir á, að ekki liggi við, að þær stöðvist og leggist niður. Það er til lítils að hækka tolla af slíkum varningi, ef innflutningsyfirvöldin taka svo ekkert tillit til þess, hvort ríkið fær miklar eða litlar tekjur af framleiðslunni eða vörunum. Það hefur komið mjög við fjmrn. þetta ár þetta tillitsleysi í viðskiptanefnd eða fjárhagsráði gagnvart hinum innlenda tollvöruiðnaði. Það hefur komið fyrir í fleiri skipti, að aðstandendur þessa iðnaðar hafa leitað á minn fund til að kvarta undan hráefnaleysi og jafnvel áheyrnarleysi. Að vísu er þeim kunnugt um, að ég veiti ekki innflutningsleyfi, en þeir hafa sagt sem svo: Hvað segir fjármálaráðherrann um það, ef rekstur okkar stöðvast, fólk missir atvinnu sína og ríkið missir tekjur sínar af þessum atvinnurekstri? — Þegar ég því nú þarf að leggja til, vegna afkomu ríkisins, að þessir framleiðslutollar verði hækkaðir samkvæmt brtt. á þskj. 220, þá geri ég það í því trausti, að séð verði betur fyrir þörfum þessara iðngreina, en gert hefur verið á þessu ári, að greitt verði a.m.k. betur fyrir hráefnaöflun til þessarar framleiðslu. Frá sjónarmiði fjmrn. er eðlilegt að bera þann iðnað fyrst og fremst fyrir brjósti, sem mestar tekjur gefur í ríkissjóð til að standa undir útgjöldum hans, því að þegar ekki er fé fyrir hendi til að standa straum af þeim útgjöldum, er ekkert vísara en að fjármálastjórninni sé um það kennt, svo að frá hennar sjónarmiði er þetta ofur eðlilegt sjónarmið. — Þetta vildi ég sagt hafa varðandi þessa brtt., sem ég leyfi mér að fara fram á, að samþykkt verði við afgreiðslu þessa máls.