10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Sjútvn. tók aftur eftir beiðni hæstv. ríkisstj. brtt. við frv. þetta á þskj. 150 til 3. umr. Fyrir þessari brtt. hefur hv. frsm. n. áður gert nokkra grein. En hún var á þá lund, að ríkisstj. væri heimilt, að fengnum till. lánveitinganefndar, að ákveða, að fé það, sem veitt yrði með þessum lögum, yrði veitt sem óendurkræfur styrkur, og jafnframt væri ríkisstj. heimilað að gefa eftir lán, sem veitt voru til útgerðarinnar vegna aflabrests á sumarsíldveiðunum 1945 og 1947, ef í ljós kæmi, að slíkt greiddi fyrir hlutaðeigandi vélbátaeigendum um að halda rekstri sínum áfram. Nú er það svo, að sú rannsókn, sem gerð hefur verið á hag vélbátaútvegsins, sýnir að hann er ákaflega bágborinn. Eins og hv. þm. er kunnugt, aflar vélbátaflotinn um það bil 3/4 af því hráefni, sem fer til þeirra vara, sem útfluttar eru úr landinu á ári hverju. Það er þess vegna þjóðarnauðsyn, að þessi útvegur sé rekinn á heilbrigðum grundvelli og að hann sé fullnýttur til framleiðslunnar. Á þessu er orðinn mikill misbrestur. Bæði er það, að fjarri fer því, að þau tæki, sem flutt hafa verið til landsins fyrir vélbátaflotann, séu fullnýtt, og eins hitt, að svo er komið um hag vélabátaútvegsins, að hann er miklu verri, en hagur flestra annarra atvinnuvega í landinu. Og ég hygg reyndar, að enginn annar atvinnuvegur standi eins höllum fæti eins og vélbátaútvegurinn. Þær skýrslur, sem nefnd sú, sem ríkisstj. skipaði á síðasta hausti til þess að rannsaka hag vélbátaútvegsins, hefur aflað, sýna það, að 140 vélbátar, sem reikninga sendu, skulda um 79 millj. kr., og er þá sleppt að telja til skuldar hlutafé og stofnfé þessara fyrirtækja, sem nemur 10,5 millj. kr. Af þessum skuldum, þessum 79 millj. kr., eru samningsbundin lán hjá lánsstofnunum um 59 millj. kr., en aðrar skuldir um 20 millj. kr. Það má gera ráð fyrir, að veðskuldir og víxilskuldir þessara fyrirtækja séu um 59 millj. kr., en samningsbundnar skuldir um 20 millj. kr., og er þá búið að afskrifa allt hlutafé og stofnfé, sem til þessara fyrirtækja hefur verið lagt, eða um 10 millj. kr. Þetta samsvarar því, að þessi 140 skip skuldi til uppjafnaðar rúmlega 550.000 kr. En vaxtabyrði af þessum skuldum á ári mun nema um 30 þús. kr. Og sjá allir, sem eitthvert vit hafa á útgerð, í hvert óefni hér er stefnt. — Eftir þeim skýrslum, sem fyrir liggja, eru skuldir þessara fyrirtækja umfram eignir um 25 millj. kr., þegar hlutafé og stofnfé er talið til eigna, en um 15 millj. kr., þegar það er talið tapað. Nú er það svo, að þessi skip eru mjög misjafnt metin. Sum þeirra er búið að afskrifa mjög mikið, en önnur eru skráð með því nær fullu kaupverði og því dýra kaupverði, sem þau voru keypt á, á stríðsárunum. Ég skal ekki rekja þá sögu lengri. — En sjútvn. var alveg ljóst, að til þess að þessi atvinnuvegur geti haldið áfram, þarf að gera mjög miklar umbætur, og þá nægir vitanlega ekki að bjóða vélbátaútveginum þær sex millj. kr., sem áætlun var um upphaflega frá hæstv. ríkisstj., sem lán, meðfram vegna þess, að allflest þessara fyrirtækja hafa bókstaflega engan rétt til þess að fá fé lánað vegna gjaldþrotalaganna, þar sem þau eiga ekki fyrir skuldum. Fyrir því flutti sjútvn. þessa brtt., sem ég gat um áðan, á þskj. 150. — Hæstv. sjútvmrh. hefur nú mætt á fundi hjá sjútvn. og óskað eftir því, að n. tæki þessa brtt. aftur, ekki til þess að hún félli niður, heldur af þeirri ástæðu, að ríkisstj. mun hafa með höndum frv. um aðstoð við vélbátaútveginn, og mundi þá taka till. þess efnis, sem ég hef getið hér um, upp í það frv. Í því trausti, að þetta frv. komi fram nú allra næstu daga og væntanlega verði afgr. áður en þm. fara í jólafrí, hefur sjútvn. heitið hæstv. sjútvmrh. því að taka þessa brtt. aftur, og væntir þess, að hann gefi yfirlýsingu. um þetta mál nú á þessum fundi. — Ég vildi svo geta þess, að hæstv. sjútvmrh. fór fram á það við sjútvn., að hún flytti brtt. við þetta frv., við 5. gr., þannig, að í staðinn fyrir „þriggja manna nefnd“ kæmi: fimm manna nefnd — þ.e. til þess að hafa á hendi þau störf, sem ákveðin verða í lögunum samkv. þeirri gr. Meiri hl. sjútvn., eða fjórir nm., hafa fallizt á að flytja þessa brtt., og er hún þess efnis, að fyrir „þriggja manna nefnd“ í 5. gr. komi: fimm manna nefnd. Vil ég leyfa mér að leggja þessa brtt. fyrir hæstv. forseta. Hv. þm. Siglf. hefur nokkra sérstöðu í þessu máli. Hefur hann fallizt á það með okkur hinum í n. að taka aftur brtt., sem ég gat um, í sambandi við yfirlýsingu, sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið n. og væntanlega flytur hér í hv. þd.. En að öðru leyti hefur hv. þm. Siglf. sérstöðu, og ég held út af tveimur eða þremur gr. í þessu frv., sem hann mun gera nánari grein fyrir.