10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1332 í B-deild Alþingistíðinda. (1664)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. sjútvn. fyrir að hafa fallizt á þau tilmæli mín að taka endanlega aftur, hvað þetta frv. snertir, brtt. á þskj. 150, sem frestað var til þessarar umr. Og í tilefni af því og með hliðsjón af ræðu hv. þm. Ísaf. vil ég segja, að ríkisstj. hefur ákveðið að leggja fram á næstunni vegna vandamála bátaútvegsins frv. og taka inn í það frv. heimild til þess að gefa eftir fé það, sem lagt kann að verða fram samkvæmt þessu frv., og lán þau, er veitt voru vegna aflabrests á síldveiðum sumarið 1945 og 1947. — Þá vil ég líka þakka hv. meiri hl. n. fyrir að hafa tekið til greina tilmæli mín um það að hafa nefndina, sem gert er ráð fyrir í 5. gr. frv., skipaða fimm mönnum í stað þriggja, eins og nú stendur í frv.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa hér um mörg fleiri orð. Mér er það ljóst og ríkisstj., á svipaðan hátt og hv. sjútvn., að vandræði útvegsins eru mikil og að neyta verður allra bragða til þess að fá eitthvað úr þeim rétt. Það verður nú ekki hægt að ætla sér þá dul, að öll þau vandræði megi í einu vetfangi leyst verða. En þó er það einlægur ásetningur okkar að reyna á þessu þingi að stíga spor til þess, að réttur megi verða nokkuð hagur útvegsins.

En að því er snertir efni þeirrar brtt., sem nú hefur verið tekin aftur af hv. sjútvn., og þetta frv. sjálft, þá er um það í raun og veru ekki skoðanamunur að efni til, sem hefur valdið því, að inn í þetta frv. yrðu ekki felld þau ákvæði, er um ræðir í brtt. á þskj. 150, heldur miklu fremur, að það þykir hentara að hafa þau í sambandi við aðrar tilraunir til lausnar sömu vandamála. En sjálfu frv., sem felur í sér greiðslufrest á vissum skuldum, þarf af þeirri ástæðu, þótt ekki væru aðrar ástæður fyrir hendi, að hraða gegnum þingið, til þess að menn hlaupi ekki til um að krefja inn þessar skuldir, áður en frv. er orðið að lögum, skuldir, sem annars yrðu að biða samkvæmt því, ef það væri orðið að lögum. Og þess vegna vil ég vænta þess, að þetta sérstaka mál fái nú greiðan gang gegnum þessa hv. d. og áfram í hv. Ed.