10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Ég féllst á það með öðrum hv. nm. í sjútvn., að dregin sé til baka brtt. á þskj. 150 á grundvelli yfirlýsingar, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið hér í hv. þd., sem ég skoða þannig, að hann muni, áður en þingið hættir störfum fyrir jól, leggja fram þessa till. í öðru frv., því að ég er ásamt öðrum nm. á þeirri skoðun, að það beri að taka á málunum á þann hátt, sem í brtt. greinir.

Ég vil í samræmi við það, sem ég kom að í ræðum mínum við 2. umr. málsins, flytja nokkrar brtt. Í fyrsta lagi tel ég ástæðulaust, að ríkisstj. leysi til sín sjóveðin, ef hún ætlast til, að sjóveðin verði ekki til fyrirstöðu um, að bátarnir verði gerðir út. Þetta, að leysa til ríkisins sjóveðin, en láta þau samt sem áður hvíla á útgerðinni, mundi verða til erfiðleika við allan rekstur bátanna, sem sjóveðin hvíla á, vegna þess að þeir, sem einhverra hagsmuna hafa að gæta í sambandi við útgerðina, verða órólegri við það, að bátarnir starfi áfram með sjóveðum áhvílandi, vitandi það líka gagnvart þeim, sem veð hefðu í skipunum, að það getur komið viðbótarsjóveð á bátana vegna Hvalfjarðarútgerðar eða annars, sem líka kemur með forgang móti hinum veðunum, enda er ákvæði í frv. þessu um að gefa almennan greiðslufrest. Það verður því vafasamur gróði — og það verður hæstv. ríkisstj. að gera sér ljóst —, þó að leyst séu til ríkisins sjóveðin á bátunum, vegna þess óróa, sem það skapar að framlengja sjóveðin. Sjóveðin eru yfirleitt til eins árs. Og það er liðið á þann tíma nú þegar, frá því munstrað var af skipunum, þ.e. frá því í september s.l., það eru liðnir sem sagt þrír mánuðir. En með þessum lögum, ef þetta ákvæði verður samþ., verða sjóveðin framlengd um eitt ár, frá því að ríkisstj. leysir þetta inn, sem getur orðið í janúar eða febrúar n.k. — Ég hef ekki enn séð tilgang í því að fara þannig að um sjóveðin eins og ætlað er af hæstv. ríkisstj., vegna þess að hæstv. ríkisstj. ætlar sér, eftir því sem ráðið verður af frv., sem fyrir liggur og sjútvn. flutti samkv. beiðni ríkisstj., að veita lán, sem ekki verða betur tryggð en það, að fyrir þeim verða tekin veð hjá útgerðinni á eftir þeim veðum, sem búið er að setja á skipin. Nú er vitanlegt, að í langflestum tilfellum er þetta engin trygging, heldur munu þessi lán verða lánuð út á væntanlega betri afkomu en verið hefur hjá útveginum. En þá kemur þessi bráðabirgðaráðstöfun, sem er gerð með svona harðhentum aðferðum, að ríkisstj. vill leysa inn til sín sjóveðsréttinn, til þess að hafa forgang fyrir öllum samningsbundnum veðum á skipunum, til þess að halda þessum rétti nokkurn tíma og gefa hann svo eftir, þegar gengið er endanlega frá þessum lánum. Ég sé engan tilgang í svona starfsaðferðum. En það er alveg augljóst, að þetta kemur til með að valda útgerðinni miklum óþægindum og spilla fyrir henni í mörgum tilfellum. Þess vegna flyt ég brtt. um, að í staðinn fyrir ákvæðin um innlausnina á veðunum komi svo hljóðandi breyt. á 2. gr. frv. „Í stað 1. og 2. mgr. kemur: Ríkisstjórninni er heimilt f. h. ríkissjóðs að lána útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum, sem síldveiðar stunduðu sumarið 1948, upphæð, sem nægi til þess, að þeir geti leyst af skipunum allar lögveðs- og sjóveðskröfur, hvort sem lögveð eða sjóveð hefur verið á lagt eða skipunum verið forðað frá því með bráðabirgðalánum, sem útgerðarmenn eða útgerðarfyrirtæki hafa tekið, og þeim ella væri kleift að halda áfram rekstri vegna aflabrests á síldarvertíðinni 1948.“ — Og í samræmi við þessa brtt. er till. um, að 3. gr. frv., eins og það er nú, verði felld niður.

Þá flytur meiri hl. hv. sjútvn., þ.e. 4 nm., brtt. um það, að í stað þriggja manna komi fimm manna nefnd, sem í 5. gr. frv. er talað um. Ég vildi ekki vera með í flutningi þeirrar brtt. vegna þeirrar grg., sem þessari brtt. fylgdi frá hæstv. ráðh. Mér skilst, að það sé meining hans að skipa í n. fulltrúa frá Landsbankanum og Útvegsbankanum til viðbótar hinum fyrri þremur mönnum, sem í n. eiga samkv. frv. að vera. Þó að þessi n. ætti að hafa samráð við bankana, tel ég, að ekki verði við það unað á nokkurn hátt, að bankarnir hafi beinlínis fulltrúa í n., og að það verði ekki til þess að bæta starfsemi n. Og ég hygg, að þetta verði ekki til neins gagns, að bæta þessum fulltrúum í n. Bankarnir eru búnir að hafa fulltrúa í n., sem hefur verið að rannsaka þessi mál, og hafa aflað sér upplýsinga á þann hátt. Þeir hafa þess vegna fulla aðstöðu til þess að fylgjast nákvæmlega með og gera aths. um það. Ef þeir teldu fjárhag útgerðarinnar lakari, en rök standa til, þá hafa þeir þegar aðstöðu til að fylgjast með öllum gögnum, sem fram eru lögð, og gera sínar aths. Hins vegar er ég með því að auka fjölda nefndarmanna í fimm og að þeir séu kosnir af þinginu. Það er mikill smásálarskapur að útiloka stjórnarandstöðuna. Hæstv. ráðh. leitar uppi allar mögulegar nefndir, sem hann getur látið skipa í nefndina, og segir síðan, að hann hafi aðeins útilokað ábyrgðarlausa gasprara. Ég fór fram á það við hæstv. fjmrh., að hann skipaði einn mann frá Sósfl., en mér skildist, að hann gæti það ekki, hann má það kannske ekki. Það er óskaplegur taugaskjálfti í sambandi við þetta. Ég vil leggja þessar tillögur fram til að lofa þm. að skera úr um það, hvort þeir vilji, að stjórnarandstaðan sé útilokuð úr öllum nefndum. Ég veit ekki til, að þessi hæstv. ríkisstj. hafi nokkru sinni skipað mann úr stjórnarandstöðunni í nokkra nefnd eða stjórn, nema í stjórn fiskimálasjóðs, en nú er verið að drepa það fyrirtæki, og sennilega kemur nú bráðum till. um að fella hann niður. Það er gott og blessað að fá úr því skorið, hvort stjórnarandstaðan eigi að vera útilokuð, gott að fá úr því skorið, hvort þingræðislegt sé að hafa þetta svona, og þetta skapar fordæmi og kvartar þá varla neinn yfir því, þó að þetta verði svo hjá næstu ríkisstj., því að varla verður þessi stjórn eilíf í landinu. Ég tel þetta brot á þingræði, brot á lýðræði og smánarlegan smásálarskap og öfuguggahátt. Þess vegna vil ég gefa Alþ. tækifæri til að marka stefnuna í þessu efni.

Ég flyt till. við 6. gr., að 1. málsl. eða orðin: „Lánveitinganefnd skal sannprófa eins og unnt er, hvort skjöl þau séu rétt, sem hún fær frá útgerðarmönnum og útgerðarfyrirtækjum“ falli brott. Í greininni næst á undan, 5. gr., eru ákvæði um það, að nefndin geti aflað sér allra nauðsynlegra skýrslna, og ef hún fær þær ekki, getur hún útilokað viðkomandi útgerðarmann frá lántökunni. Og ætti það að vera ærið nóg til að knýja fram skýrslu. Og síðan á að sannprófa, hvort skýrslur þessar séu réttar. Ef þetta ákvæði er ekki bara sett út í loftið, er helzt að skilja, að hvert plagg verði að rannsaka vandlega til að ganga úr skugga um, hvort það sé ekki falsað. Með þessu eru útgerðarmenn settir á sérstakan bekk sem menn, sem hæpið sé að treysta, og er þetta smán við þá, og vil ég leggja til, að þessi setning falli burt. — Og loks í 7. gr., að innlausn sjóveða falli burt í samræmi við 1. till. — Þannig eru mínar brtt., og mun ég ekki fjölyrða frekar um þær.