10.12.1948
Neðri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1338 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. S–M. kvartaði undan því, að hann hefði ekki getað verið hér við 2. umr. þessa máls, og það liggur við, að ég sjái líka eftir því, að svo var ekki, vegna þess að flest af því, sem hann hefur nú sagt, er talsvert þrautrætt á milli mín og tveggja flokksbræðra hans við 2. umr., og ég sé ekki ástæðu til að tefja málið með því að endurtaka neitt af því. Ég vil aðeins benda á það, að jafnskýr maður og hv. þm. S–M. veit vel og skilur, að eftir því sem þessi kreppuhjálp endurtekur sig oftar, til viðbótar því, að fjármálaástand ríkisins er stórum breytt frá því, að þessi hjálp var fyrst veitt, þá er ýmislegt, sem verður að taka tillit til af illri nauðsyn. Þá var fleira, sem menn gátu farið léttara yfir, en nú er unnt.

Við 1. umr. vorum við hv. þm. Siglf. og fleiri, ég held öll sjútvn., sammála um það, að þessi hjálp, sem miðuð er við ríkjandi vandræðaástand, væri ekki nema partur af því, sem þarf að gera, og að hún væri samt sem áður jafnvel tilgangslaus, ef ekki væri um leið reynt að sjá fyrir því, að þeir, sem hjálpina eiga að fá, fengju jafnframt rekstrarfé til áframhaldandi útgerðar á næstu vertíð. Og í þeim anda hef ég einmitt reynt að starfa að þessum málum ásamt kreppunefndinni gagnvart bönkunum, í viðtölum við útgerðarmenn, o.s.frv. Og það hefur margt komið til greina. M.a. var það talin nauðsyn af hálfu þjóðbankans, og því var mjög haldið fram, að friða þyrfti bátana um takmarkaðan tíma fyrir öðrum kröfum en þeim, sem um getur í frv.

Ég þarf ekki að fara um þetta miklu fleiri orðum, en vil þó benda á, að oft hafa fyrirsvarsmenn útgerðarinnar minnzt á kröfur annarra en ríkis og banka, talið t.d. viðgerðarkostnað of háan o.s.frv. Og þar sem mér virðist, að búast megi við, að aðrar og frekari aðgerðir í skuldamálum útvegsins þyrfti e.t.v. að gera á næstunni, t.d. með niðurfærslu skulda, virðist mér ekki óframbærilegt að hafa um nokkurt skeið friðun á þessu sviði. Ég veit og skal viðurkenna það, að þetta getur valdið einhverjum óþægindum undir vissum kringumstæðum, en þó ekki eins og hv. 2. þm. S-M. vildi vera láta. Ég skal þó taka varlega upp í mig um það, því að vandræði útvegsins hafa verið svo ótrúlega mikil og fjölþætt í haust og í vetur, — því hef ég kynnzt af ótal viðtölum við útgerðarmenn, — að mér hefur oft nálega fallið allur ketill í eld yfir þeim kröfum, sem þeir segjast þurfa að gera um hjálp og aðstoð. Ég er ekki að segja, að þessar kröfur séu ekki að einhverju leyti á rökum reistar, og ég er heldur ekki að segja, að þeir, sem verst eru settir, mikli nokkuð erfiðleika sina. En hins vegar gefur auga leið, að ríkið og bankarnir eiga því erfiðara um vik að hjálpa, þegar farið er að margendurtaka hjálpina.

Hv. þm. Siglf. talaði hér allmikið, og skal ég ekki fara langt út í ræðu hans. En hann brýndi sérstaklega raustina þegar hann kom að upphafi 6. gr., þar sem segir, að lánveitinganefnd eða skilanefnd skuli sannprófa eins og unnt er, hvort skjöl þau séu rétt, sem hún fær hjá útgerðarmönnum. Nú vita allir, að þessi skjöl fjalla um fjárhagsástand viðkomandi útgerðar. Hv. þm. taldi þetta ákvæði og orðalag smán gagnvart útgerðarmönnum. Hann spurði, hvort það væri meiningin að láta þá ganga undir réttarrannsókn, og virtist ekki eiga nógu sterk orð til að lýsa því, hvílíka lítilsvirðingu ríkisstj. eða ég sýndi útvegsmönnum með þessu og hvernig þeir væru settir skör lægra, en aðrir þegnar þjóðfélagsins með þessum orðum. Ég vildi nú benda hv. þm. Siglf. á, að ég hef hér lög um aðstoðarlán til síldarútvegsins fyrir árið 1945. Þau lög voru borin fram og samþykkt að tilhlutan hans sjálfs, meðan hann var ráðherra sjávarútvegsmála, og í þeim lögum, 4. gr., standa þessi orð, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar lánveitinganefnd hefur fengið tilskilin skjöl í hendur, skal hún sannprófa, eins og unnt er, hvort þau eru rétt.“ Hvernig stendur nú á því, að það, sem hv. þm. Siglf. leyfði sér að fá lögfest 1945 og taldi þá víst ekki meiðandi fyrir útgerðarmenn, að hann hellir sér nú yfir sama orðalag í þessu frv. og fer um það öllum þeim orðum og gefur þær ófögru lýsingar, sem hann gerði í síðustu ræðu sinni og raunar líka í gær? Það er alveg óþarfi að ræða þennan óskapagang, það liggur skjallega fyrir, að hann hefur sjálfur staðið fyrir því að láta lögfesta nákvæmlega sama orðalag. Ég er ekki að átelja, að þetta var sett í lögin 1945, þetta orðalag var sjálfsagt þá, eins og það er sjálfsagt nú.

Annars teldi ég, að heppilegast væri að reyna nú að koma þessu máli í gegn, til þess, ef unnt væri, að koma í kring þeirri hjálp, sem hugsað er að reyna að veita.