14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1361 í B-deild Alþingistíðinda. (1698)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að mál það, sem hér liggur fyrir, beri á ýmsan hátt dálítið undarlega að hér á Alþingi. Þegar í lok ágúst, er séð var, að síldarvertíðin mundi bregðast, þá var bollalagt um það, að nauðsyn væri opinberra ráðstafana til aðstoðar útvegsmönnum, sem harðast höfðu orðið úti undanfarnar vertíðir. Var þá sett á laggirnar opinber nefnd, sem safnaði skýrslum um fjárhag útvegsmanna. Síðan var beðið eftir því að fá að vita, í hverju hjálpin ætti að vera fólgin, en langt var liðið á þing áður en nokkuð kæmi fram í því efni. Þá flytur hv. sjútvn. Nd. eftir beiðni hæstv. fjmrh. frv., sem ber heitið: Frv. til l. um aðstoð til útvegsmanna, er síldveiðar stunduðu sumarið 1948. Í þessu frv. er aðeins gert ráð fyrir því, að ótilgreindri fjárhæð skuli varið til að lána viðkomandi útvegsmönnum, þannig að þeir losnuðu úr mestu vandræðunum. Nokkru síðar flytur svo hv. sjútvn. Nd. gagngerar brtt. við þetta fyrirkomulag, og veit ég ekki betur en öll n. hafi verið sammála um, að aðstoðin ætti að vera óafturkræfur styrkur. Þegar þetta er í deiglunni, þá koma enn fram skv. beiðni frá hæstv. fjmrh. alveg gagngerar brtt. við hvort tveggja hið fyrra, og það er það frv., sem nú liggur fyrir. En aðstoðin, sem felst í þessu frv., er ekki önnur en sú, að ríkissjóður tekur að sér að innleysa sjóveðin, sem á bátunum hvíla, svo að þeir geti farið á stað, ef þeir fá nokkra fjárhagsmöguleika til þess. Mér finnst allur þessi undirbúningur bera vott um það, að of lauslega hafi verið á málunum tekið, og allar þær breytingar, sem sífellt eru gerðar, sýna það, að stefnan er ákaflega óákveðin, svo að það virðist sem hæstv. ríkisstj. viti varla, hvað hún vill gera, og útgerðarmenn vita ekki, við hverju þeir mega búast. Þetta vildi ég segja um undirbúning málsins, og þó að frv. feli ekki í sér róttækar úrbætur, þá ber þó að fagna því, að eitthvað er gert, og vil ég ekki verða í vegi fyrir því, að frv. nái fram að ganga, en þó eru á því veigamiklir agnúar, svo að nauðsynlegt er að breyta ýmsum atriðum, t.d. ákvæðum 4. gr. Eins og frv. er nú, eru aðalatriði þess tvö. Í fyrsta lagi leysir ríkissjóður inn til sín sjóveðskröfurnar, sem á skipunum hvíla, og fær heimild til að lána þeim útgerðarmönnum, sem leyst hafa af sér kröfurnar af eigin rammleik. Í öðru lagi er útgerðarmönnum svo veittur gjaldfrestur á öllum skuldum til tiltekins tíma. Ég skal ekki fjölyrða um fyrra atriðið, til þess að tefja ekki umr., enda hefur hv. frsm. skýrt málið, en um síðara atriðið vildi ég ræða nokkuð, því að það er þýðingarmikið, og held ég, þrátt fyrir allar umr., sem fram hafa farið um málið, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki enn gert sér grein fyrir afleiðingunum, sem af ákvæðum 4. gr. mun leiða. Þetta lítur að vísu vel út á pappírnum, þar sem látið er lita svo út, að þetta sé greiði við útvegsmenn, svo að þeir geti starfað í friði, en málið er bara ekki svo einfalt. Til dæmis bendi ég á það, að þótt gjaldfrestur sé lög inn, þá upphefur hann ekki þann haldsrétt , sem sumir aðilar hafa gagnvart útgerðinni. Ef bátur er í slipp og á þeim bát liggur krafa sem ekki er greidd, þá er hægt að fastsetja bátinn í slippnum, og sá bátur verður ekki gerður út. Því hefur verið haldið fram, að þetta muni aðeins verða í örfáum tilfellum, en ég held þau geti orðið þónokkuð mörg. Skip þurfa mjög oft upp í slipp, og ég held, að á hverjum tíma séu fleiri eða færri af bátunum, sem kröfur hvíla á. Það þarf ekki meira, en að stykki úr vél sé til viðgerðar í verksmiðju. Því er líka hægt að halda föstu. Það geta því orðið mörg tilfelli, þar sem þetta ámæli yrði til þess, að skipin sætu jafnföst eða fastari, svo að þessi gjaldfrestur er ekki mikill greiði við útgerðina, nema gert sé ráð fyrir því, að ákvæðið verði brotið, og þá er þýðingarlaust að setja það í l. Haldsrétturinn gildir einnig um síldarnætur, og menn vona, að hér veiðist síld í vetur, en fjöldi síldarnóta er á netaverkstæðum, og á mörgum þeirra liggja vafalaust kröfur. Ef það á að banna mönnum að greiða viðgerðarkostnaðinn, þá sitja næturnar fastar. Ég held því, að ef menn vilja gera sér grein fyrir, hvernig þetta ákvæði verki, þá hljóti menn að komast að sömu niðurstöðu og við í brtt. okkar á þskj. 206 og sjá, að bátarnir sitja enn fastari en áður, ef frv. verður ekki breytt frá því, sem nú er. Við þetta bætast svo önnur tilfelli, sem verka eins og um haldsrétt væri að ræða. Það er í ýmsum viðskiptum, t.d. olíukaupum. Vitað er, að ýmsir bátar skulda olíu hjá olíufélögum eða olíusamlögum. Það er alveg gefið, að ef bátarnir greiða ekki skuldir sínar frá fyrri vertíð, þá verður torvelt fyrir þá að fá keypta olíu í vetur og framvegis, en enginn bátur verður gerður út án þess að fá olíu. Alveg sama gildir um verzlunarskuldir, sem bátarnir eru í fyrir vistir og veiðarfæri. Ef bátarnir eru í vanskilum og þau vanskil lögboðin, þá verður erfitt fyrir þá að fá keyptar þessar nauðsynjar. Ég held sem sagt, að grundvallarskilyrði fyrir því, að útgerðin haldi áfram, sé það, að hún haldi áfram að standa í skilum með ósamningsbundnar skuldir. En í staðinn fyrir að reyna það, þá er með frv. þessu verið að lögbjóða vanskil, og það mun sýna sig, að þetta bitnar á útgerðarmönnum. Þá kemur það og til greina, að í ýmsum tilfellum eru skuldirnar, t.d. fyrir olíu, veiðarfæri, viðgerðir og annað, við samtök útgerðarmanna sjálfra. Þeir hafa sums staðar komið upp olíusamlögum og dráttarbrautum, og enn fremur er til, að útgerðarmenn hafi viðgerðaverkstæði og innkaupasamlög. Þessi samtök munu flest vera nýlega stofnuð, og þau hafa ekki annað veltufé en samningsbundið lánsfé, og ef bátarnir geta ekki greitt skuldir sínar til þeirra, þá geta þau heldur ekki staðið í skilum og verða að hætta starfsemi sinni. Það er því ekki greiði við þá útvegsmenn, sem hér um ræðir, að lögbjóða gjaldfrest við þeirra eigin fyrirtæki. Það mundi þvert á móti eyðileggja fyrirtæki þeirra. Öll þau atriði, sem ég hef nú nefnt, hníga að því að sýna fram á, að gjaldfrestsákvæðið torveldar í öllum atriðum rekstur útgerðarinnar, og því verður ekki komizt að annarri niðurstöðu en þeirri, að það brjóti í bága við yfirlýstan höfuðtilgang frv. Hins vegar væri það sjálfsagt og raunverulegur greiði við útgerðina, ef veittur væri gjaldfrestur á föstum, samningsbundnum lánum. Þar er ekki um vanskil að ræða, því að þetta eru yfirleitt lán til langs tíma. Það er ekkert höfuðatriði, þótt langur gjaldfrestur sé framlengdur um eitt ár, og er það annars eðlis, en að veita gjaldfrest á lausaskuldum, sem engin trygging er fyrir. Það er nauðsynlegt að greina á milli þessara tveggja tegunda skulda, eins og við höfum gert í okkar brtt., og það mun sýna sig, er til framkvæmdanna kemur, ef frv. verður ekki breytt, að þá mun ríkisstj. reka sig á, að hún verður að gera nýjar ráðstafanir gegn afleiðingum þessa frv. — Nokkur atriði hafa komið fram í umr., en ég held ég hafi ekki ástæðu til að fara út í að ræða þau að svo komnu máli, enda vil ég halda mig við höfuðatriði málsins, en eitt það allra þýðingarmesta er aðgreiningin á föstu og lausu skuldunum.