14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Sigurjón Á. Ólafsson:

Mér þykir hlýða, að við, sem erum annar hluti að ágreiningnum innan sjútvn., gerum nokkra grein fyrir ágreiningnum og afstöðu okkar til till. á þskj. 206. Áður vildi ég þó segja um ræðu hv. frsm., að sumt af því, sem hann sagði, verður að skrifast á hans eigin reikning. Sumt af því, sem hann kom fram með, er ekki talað fyrir hönd n., og sumt hefur ekki verið rætt í n. og n. í heild því ekki tekið afstöðu til þess. Ég get hins vegar getið þess, að ég tel ýmsar þær upplýsingar, sem hann flutti um hag útgerðarinnar réttar, en þó að við báðir, og hv. þm. N-Þ., teljum þær réttar í höfuðatriðum, og í samræmi við skýrslur og greinargerðir þær, sem liggja fyrir Alþ., skal ég ekki segja, hvað tæmandi þær eru eða hvort þær eru 100% réttar. Ég vildi segja þetta út af ræðu hv. frsm.

Í raun og veru er ekki um ágreining að ræða um málið í heild. Hér er um bráðabirgðaráðstafanir að ræða, sem fela það í sér, að ríkið innleysi lögveðs- og sjóveðskröfur á hendur útgerðarmönnum og fyrirtækjum, er stunduðu síldveiðar sumarið 1948. Þetta er það sama og gert var 1945 og 1947, með þeim skilyrðum, sem í frv. felast. Þó er reiknað með nokkru hærri upphæð, 6 millj. kr., og er gert ráð fyrir því, að þessi upphæð verði tekin inn í fjárlög næsta árs. Áður voru veittar 5 millj., og var það kallað hallærislán eða kreppulán. Ég hafði ástæðu til að fylgjast með ástandi útvegsins á þeim tíma, því að ég var riðinn við þá úthlutun, sem þá fór fram, en nú er ástandið enn ömurlegra, og hagur útgerðarinnar hefur ekki verið réttur í einu né neinu. Mér er ljóst, enda hefur það nú komið fram, að þeir verða fleiri og fleiri, sem þarfnast hjálpar. Árin 1945 og 1947 töldust um 100 bátar þurfa hjálpar við, en nú eru þeir fleiri. Í frv. er að vísu talað um lánveitingarnefnd, — áður var talað um skilanefnd, en sá stigmunur er á, að veð skyldi koma á móti þeim styrk, sem áður var úthlutað, en nú hefur verið litið svo á, að þess verði ekki krafizt, heldur er um beinan styrk frá ríkinu að ræða. Það er sá stóri munur á þessu.

Ég skal játa, að ég hefði óskað, að þetta mál hefði verið fyrr á ferð, því að þær lágu tekjur, sem síðasta síldarvertíð gaf í aðra hönd, hefði þurft að greiða fyrir löngu. Það er erfitt fyrir marga, sem ekki hafa fengið þessar greiðslur. Þetta segi ég vegna þess, að þótt málið sé nú seint á ferð, tel ég ekki, að tefja megi tímann, heldur verði að afgreiða það sem fyrst.

Um ágreininginn milli okkar hv. þm. Barð. og hv. 6. landsk. get ég sagt það, að hann er í raun og veru um greiðslufrestinn, sem um getur í 4. gr. Þeir vilja draga úr, svo að þessi ákvæði nái ekki til hinna lausu skulda. Ég verð að segja, að ég tel þetta lauslegt hugtak. Teljast allar aðrar skuldir, en veðskuldir lausaskuldir? (StgrA: Ekki víxilskuldir.) Nei, ekki við bankana, en það geta legið tryggingarvíxlar fyrir eitthvað af matarskuldum og skuldum fyrir viðgerðir og olíu. Ég hef ekki átt kost á því að kynna mér þetta, en slíkir víxlar eru ekki óvenjulegir og þá heyra þeir undir bundnar skuldir. En ef svo er ekki, er rétt að geta þess, sem hæstv. fjmrh. einnig nefndi, að í 4. gr. frv. stendur: „skulu hafa greiðslufrest.“ Það er á valdi hvers einstaks, hvort hann notar sér þetta. Ef það er aðkallandi, er hverjum einum heimilt, sem hefur getu til þess, að greiða lausaskuldirnar. Frv. hindrar það ekki. Ég skal geta þess, að í sambandi við kreppulánin 1947 var ekki sett inn „moratorium.“ Lánunum skyldi varið til greiðslu lögveðs- sjóveðskrafna, áfallinna tryggingariðgjalda og vaxta af stofnlánum. Þá var ekki ætlazt til, að greiddar væru svokallaðar lausaskuldir. Ég man, að kröfur komu fram frá smáverzlunum, er lánað höfðu fæði, en n. gat ekki tekið þær til greina. Sama er nú, þessar skuldir verða að lúta því sama. Veðskuldirnar hafa forgangsrétt, stofnanir eins og fiskimálasjóður og bankarnir, en hinn, er lánar af góðsemi, ef svo má segja, er réttindalítill gegn stóru veðhöfunum. Annars held ég, að of mikið sé gert úr því, hvað farið sé illa með þessa aðila, og því ekki eins mikil ástæða til þess að undanskilja þá sérstaklega og þessir tveir hv. þm. telja. Það hefur verið skýrt af hæstv. fjmrh., að ef um „moratorium“ er að ræða, þá er ekki hægt að ívilna einum frekar en öðrum. Þetta mun vera regla, og þannig höfum við hv. þm. N-Þ. skilið það. Sami skilningur kom fram í Nd., í n. og utan hennar, og þannig er þetta túlkað af hæstv. ríkisstj.

Þá er hitt atriðið, sem hv. frsm. beindi til okkar. Hann skildi ekki, að við vildum hafa greiðslufrestinn einungis til 1. júlí. Ég hef sagt við hv. frsm., að mér finnist nokkur rök fyrir lengri fresti, en frestur til 1. júlí virðist nægilegur til þess, að séð verði, hvort hægt er að fá samkomulag og fleyta skipunum áfram. Ef hins vegar þessi frestur reynist ekki nógu langur, er það á valdi Alþ. eða stj. að framlengja hann og því auðvelt að bæta úr því. Ég er sammála hv. frsm. um það, að þessar ráðstafanir verða til einskis, ef skipin stöðvast einmitt þegar þau eiga að fara út á síldveiðar.

Annars held ég, að það sé rétt hjá hæstv. fjmrh., að minna megi vænta, ef fresturinn er langur. Það er nú einu sinni svo, menn bíða ætið fram á síðustu stund.

Í sjútvn. var ágreiningur bara um þessi tvö atriði, og ég tel brtt. óþarfa. Tímann má brúa, og hitt atriðið tel ég, að ekki þurfi að vera til trafala. Það er sagt, að þeir, sem ekki hafa tryggt lán sín með veði, muni ekki veita frekari lán, nema eldri lán séu greidd. Það kann svo að vera um einstöku útgerð, en hæstv. fjmrh. hefur svarað því til, eftir að hafa rætt við bankamenn, að það muni þýða meiri rekstrarlán, en áður voru veitt.

Loks eru það matarskuldirnar, en þær hafa verið taldar í flokki lausra skulda. Þegar krafizt er sjóveðs, er miðað við brúttótekjur og hundraðshluta af afla, en af þessu á að greiða fæði, og hlutur fæðisins í tekjunum hlýtur því að verða greiddur. Ég hygg, að það sé rétt hjá mér, að sjóveðskröfur reiknist eins og hundraðshluti af afla. Ég skal ekki fullyrða, hvort svo er, en ég held, að þetta sé rétt hjá mér í meginatriðum. Sá ótti, sem komið hefur fram í þessu sambandi, þurrkast því út að nokkru.

Ég sé svo ekki ástæðu til að rökræða þetta frekar. Við hv. þm. N-Þ. álítum brtt. á þskj. 206 óheilbrigða, og ég skal benda á það, að ég er ekki viss um, hvað Nd. gerir, ef þessi brtt. verður samþ. Ég legg því til, að hún verði ekki samþ.