14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1700)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég gleymdi því, þegar ég talaði hér áðan, að auk þeirra breyt., sem ég minntist á þá, hefur sjútvn. gert smávegis breyt. í sambandi við skipun þeirrar n., sem ætlað er starf samkv. þessu frv. Þeirrar breyt. var að vísu getið af frsm., en hún felur í sér það, að í staðinn fyrir að heita lánveitinganefnd skuli n. heita skilanefnd. Mér skilst, að þetta þýði það, að þessari n., þó að það komi ekki beinlínis fram hér í frv., sé ekki aðeins ætlað það verkefni, sem felst í þessu frv., heldur muni henni einnig vera ætlað annað verkefni samkvæmt öðru frv., sem von sé á frá ríkisstj. nú á næstunni, þ.e.a.s. að henni mun auk þess vera ætlað að annast það almenna uppgjör á bátaflotanum, ef svo mætti að orði komast. Þetta þýðir hins vegar það, að starf þessarar n. verður miklu víðtækara, en gert er ráð fyrir samkvæmt þessu frv. út af fyrir sig. Þess vegna álít ég, að það sé enn brýnni nauðsyn fyrir það en þó var áður, að Alþ. sjálft kjósi þessa n., en að það sé ekki aðeins ráðh., sem skipar hana. Í tilefni þess ber ég fram brtt. við 5. gr. um það, að í staðinn fyrir upphafsorðin „Sjávarútvegsmálaráðherra skipar“ komi: — Alþingi kýs. Það var flutt brtt. við þetta atriði í Nd., en fékkst ekki samþ. Höfuðrökin, sem voru færð fyrir henni, voru þau, að það væri eðlilegt, að stjórnarandstaðan fengi einnig aðstöðu til að fá mann í n. og þar með aðstöðu til þess að hafa áhrif á þá starfsemi, sem n. á að hafa með höndum, þ.e.a.s. aðstoðina við útvegsmenn. Ég tel það fullkomlega ástæðu, þegar n. á til viðbótar við það, sem þetta frv. felur í sér, að fá í hendur miklu víðtækara starf, að stjórnarandstaðan eigi að fá möguleika til þess að koma sinni skoðun fram, og enn fremur, að eðlilegt sé, að Alþ. sjálft kjósi n., þegar um svona umsvifamikið starf er að ræða. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta, en leyfi mér að leggja þessa skriflegu brtt. fram og mun afhenda hæstv. forseta hana.

Það er í raun og veru ekki ástæða fyrir mig að fjölyrða um þetta mál, sízt að svo stöddu, því að hæstv. ráðh. vék af fundi, þegar hann hafði lokið máli sínu, og var ekki einu sinni inni meðan ég hélt ræðu mína. Þess vegna hafa ekki verið færð hér fram nein rök til þess að hnekkja þeim rökum mínum og hv. þm. Barð., sem við höfum fært fyrir brtt., sem við flytjum við frv. og eru að mínu áliti höfuðatriðið í þessu máli. Þó vil ég aðeins minnast á eitt atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. áðan, fyrst hann er staddur hér í hv. d., atriði, sem hv. 1. landsk. þm. tók upp eftir honum og notaði sem sína höfuðröksemd eða einu röksemd gegn till. okkar. Hæstv. ráðh. fórust orð á þessa leið, í sambandi við sundurgreiningu okkar á föstu og lausu skuldunum, að það væri almennt skilið svo, að „moratorium“ eða slíkur gjaldfrestur, sem hér um ræðir, yrði að gilda jafnt fyrir allar skuldir, í þessu tilfelli jafnt fyrir þessar samningsbundnu skuldir og einnig fyrir lausaskuldirnar. Hins vegar segir hann jafnframt, að þó að þetta ákvæði sé óbreytt í frv., að gjaldfresturinn skuli einnig vera fyrir lausaskuldirnar, þá sé ekki þar með bannað að greiða þessar lausaskuldir, eða eins og hv. 1. landsk. þm. orðaði það, að það væri á valdi hvers einstaks manns að greiða skuldirnar, ef hann teldi sig geta það, þrátt fyrir ákvæði frv. Sjá nú ekki þessir hv. ræðumenn þá mótsögn, sem felst í þessu, annars vegar það, að greiðslufresturinn verði að gilda fyrir hvorar tveggja skuldirnar, jafnt fyrir allar skuldir, að það sé almennur skilningur um þetta efni, sem menn verði að halda sig við, og hins vegar, að þó að gjaldfresturinn sé veittur einnig fyrir lausaskuldum, þá megi samt sem áður greiða þær? Í löggjöfinni verður sama ákvæðið að gilda um hvorar tveggja skuldirnar, en í framkvæmdinni þarf það ekki að gilda þrátt fyrir ákvæði laganna. Þetta er alger mótsögn. Auk þess er verið af formælendum þessa ákvæðis að halda því að viðkomandi mönnum, að þeir þurfi ekki að telja sig bundna af ákvæðum l. og að þeir geti haft þetta eftir eigin geðþótta, sem mundi leiða til þess, ef menn færu eftir þessum ráðleggingum — og ég geri ráð fyrir því, að í framkvæmdinni leiði til þess, að menn verði að fara eftir þeim —, að þeir kölluðu yfir sig mjög ströng viðurlög, ef svo færi fyrir þeim, sem vel gæti orðið, meðan þetta uppgjör allt er óbundið, að þeir yrðu gjaldþrota, þá hefðu þeir með því að fara eftir þessum ráðleggingum leitt yfir sig þung viðurlög fyrir að hafa mismunað sínum kreditorum. Ég held, að þetta ákvæði sé algerlega rangt í frv. og ætti ekki í því að vera. Það mun koma að því, að ríkisstj. og aðrir, sem eru formælendur þessa ákvæðis, munu reka sig á, að þeir munu ekki geta framkvæmt það, þegar til kastanna kemur. Eins og ég sagði áðan, að vegna þess að af hálfu þeirra, sem eru andvígir okkar brtt., hafa engar röksemdir aðrar en þessi, sem ég hef hér rætt um, komið fram, hef ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar eins og sakir standa.