14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir rétt að svara nokkrum aths., sem hér hafa komið fram við frv. þetta, og einkum í sambandi við brtt., sem ég og hv. 6. landsk. þm. berum hér fram við það. Hæstv. ráðh. gat þess fyrst, að þetta frv. væri í raun og veru komið fram til þess, að sjómennirnir þyrftu ekki að bíða lengur eða of lengi eftir sínum greiðslum, og hv. 1. landsk. þm. undirstrikaði þetta mjög í sinni ræðu. Eftir þeim upplýsingum, sem hér hafa komið fram, er mér það ljóst, sem ég ekki vissi fyrr og ekki kom fram í sjútvn., að frv. er fram komið til þess eins, að hægt sé að greiða sjóveðskröfurnar þeim mönnum, sem hafa haft litlar tekjur og hafa orðið að bíða svo lengi eftir þessu. Það er sjónarmið út af fyrir sig. Ég er ekki á móti því, að það sé gert, en því verður þá heldur ekki neitað, að þá hefði þetta átt að koma miklu fyrr — og segi ég það ekki sem ásökun — og hins vegar hefði frv. þá ekki átt að hafa þá fyrirsögn, sem það nú hefur. Þá er það ekki lengur frv. til l. um aðstoð við útvegsmenn o.s.frv., heldur hjálp til þeirra manna, sem bíða eftir þessum greiðslum, sem þeir eiga fulla tryggingu fyrir. Ég hygg, að hægt hefði verið að koma þessu fyrir á annan hátt, að hægt hefði verið að taka þetta atriði út úr frv., ef þetta eitt hefur vakað fyrir ríkisstj., og mér skilst, að engin önnur rök séu til fyrir því, að þetta frv. sé tekið út úr hinni almennu hjálp til sjávarútvegsins, en þau, sem ég hef hér nefnt. Ég tel það heldur illa farið, að mál þetta var ekki leyst á annan hátt. — Út af þeim ummælum hæstv. ráðh., að frv. yrði tafið, eins og frsm. hefði ætlazt til, þá vil ég leiðrétta það, þar sem ég gaf ekkert tilefni til þeirra orða. Hinu hefði ég búizt við, að hæstv. ráðh., eftir að hafa heyrt þau rök, sem hér hafa fram komið, mundi telja það heppilegra að leysa þetta mál með öðrum vandamálum, sem væntanlega eiga að leysast hér nú næstu daga, en sé það hans skoðun, að það sé ekki heppilegra, þá er það síður en svo, að ég vilji gera tilraun til þess að tefja málið.

Hæstv. ráðh. upplýsti einnig, að hann teldi ekki rétt, þegar verið væri að gera kröfur til bankanna um frekari lán, að þessar kröfur væru settar til hliðar, þ.e. lausaskuldirnar, og þess vegna væri hann mótfallinn breyt. Ég vil út af þessu benda hæstv. ráðh. á það, að mér finnst tæplega ástæða til að óska eftir því, að bankarnir eða aðrar peningastofnanir, sem eiga tryggar kröfur með veðrétti, að þær setji til hliðar sínar kröfur, þegar ríkið tekur að sér 6 millj., sem eru fyrir framan þessar kröfur. Það eitt væri nægilegt til þess að komast að samkomulagi um greiðslufrestinn, sem verið er að gera, ekki eingöngu vegna útgerðarinnar, heldur sérstaklega vegna þjóðarinnar, og í öðru lagi til þess að koma bátunum af stað til þess að afla nýrra verðmæta fyrir þjóðina, nýrra tekna fyrir bankana. Mér finnst ekki þurfa að kaupa þá því verði að taka þá áhættu, sem því fylgdi að binda þá einnig lausaskuldirnar. Og nú má vel segja, að betra sé að krefja lausaskuldirnar vegna þeirrar aðgerðar, að það hvíli 6 millj. krónum minna á fyrirtækjunum, og þess vegna verði þær einnig færðar um þær upphæðir fram móts við það sem þær eru í dag. Þá er því til að svara, að ef til vill mætir útvegurinn þeim skakkaföllum, að þær verði engu betur settar 1. júlí en í dag, þó að þessar 6 millj. væru greiddar. — Eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni, eru þessar skuldir ekki tryggðar með neinum veðrétti og eru því í alveg lausu lofti í sambandi við þessi mál gagnstætt því, sem er með veðbundnu skuldirnar. En það er ekki þetta sérstaklega, sem vakir fyrir mér, en hitt miklu frekar, að ekki sé stofnað til vandræða fyrir útveginn sjálfan, að hann fái ekki með þessari lagasetningu enn meiri erfiðleika af þessum málum en hann hefur í dag. Hæstv. ráðh. vildi ekki gera neitt úr þessu atriði. Í sambandi við það vil ég leyfa mér að lesa upp erindi til sjútvn., sem n. hefur rætt. Með leyfi hæstv. forseta segir svo:

„Mótmælum þeim hluta frumvarps, sem fjallar um festingu viðskiptaskulda, og viljum benda á afleiðingar, ef samþykkt verður. Fyrirtæki, sem hafa lánað útgerðinni í góðri trú um endurgreiðslu á vanalegan hátt, verða útilokuð að standa í skilum við sína lánardrottna og mundu verða gjaldþrota, ef ekki kemur fullkomin trygging á greiðslu skuldanna.

Samvinnufélag útgerðarmanna, Olíusamlag útvegsmanna, Dráttarbrautin h.f.“

Það má segja, að þetta sé ekki nein yfirlýsing um það, hvað koma skal. Þetta er snertandi álit útvegsmanna sjálfra. Eins og hv. 6. landsk. þm. benti á, eru það hér þeirra eigin skuldir, sem skapa þeim þá erfiðleika, sem hann hefur lýst. Það er komið hér inn annað erindi, sem sýnir líka, að erfiðleikarnir geta af þessu stafað, og ég tel sjálfsagt að lesa hér upp. Erindi það, sem áðan var lesið upp, er aðeins frá einum aðila, mismunandi fyrirtækjum útgerðarmanna á einum stað. Hér er svo erindi frá miklu sterkari aðilum, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta.

„Vér undirrituð vátryggingafélög viljum harðlega mótmæla 4. gr. frumvarps til laga nr. 197 um aðstoð til útvegsmanna, er síldveiðar stunduðu sumarið 1948. Teljum vér vafasamt, að Alþingi hafi heimild til með venjulegum lögum að meina mönnum að innheimta venjulegar skuldir, sem stofnað er til á löglegan hátt. Vátryggingafélögin hafa oft veitt útgerðarmönnum gjaldfrest á vátryggingariðgjöldum yfir lengri eða skemmri tíma, og þar með aðstoðað þá til að geta stundað veiðar. Ef lög þessi öðlast gildi, verður að sjálfsögðu að taka fyrir alla slíka starfsemi, og teljum vér vafasamt, að útvegsmönnum sé þá gerður greiði með samþykki þessarar lagagreinar.

Sjóvátryggingafélag Íslands, Almennar Tryggingar.

Ég tel, að þegar sé komin á daginn sú spá mín, að þessi grein, eins og hún er orðuð, muni valda margvíslegum erfiðleikum, sem ríkisstj. verður að mæta, ef frv. verður samþ. svona óbreytt. Hæstv. ráðh. hélt því fram, að ég hefði sagt í framsöguræðu minni, að bankarnir hefðu lánað bátunum öll nauðsynleg lán. Það er fjarri því, að ég hafi sagt það. Hæstv. ráðh. hefur misskilið það, sem ég sagði, en það var þetta, að öll nauðsynleg lán, sem bankarnir hefðu lánað til útvegsins og rekstrarlán, hefðu verið lánuð með 4% vöxtum. Bankarnir hafa ekki lánað bátunum öll nauðsynleg lán, því að ef þeir hefðu gert það, þá væri ástæðulaust að bera fram þetta frv., sem hér er til umr. Það er einmitt vegna þess, að bankarnir hafa ekki talið sér fært að lána bátunum nauðsynleg lán, að svo er komið sem komið er. Þá segir hæstv. ráðh., að ríkisstj, muni breyta þessu ákvæði með brbl., þannig, að í staðinn fyrir 1. júlí komi eitthvað annað, ef það þætti nauðsynlegt á þeim tíma. Ég hygg, að þessi yfirlýsing hæstv. ráðh. bendi til þess, að hann sé í raun og veru á sama máli og ég, að ekki sé skynsamlegt að miða við 1. júlí. Ég vil svara því til, að ég tel mjög óheppilegt, að það sé verið að setja l. á Alþ., sem má svo búast við, að ráðun. sjálft þurfi að gefa út brbl. um breyt. á jafnskjótt og Alþ. er hætt störfum. Ég tel, að það leiki svo mikill vafi á um lagasetningu þá, sem hér um ræðir, og hvort hún fái staðizt yfirleitt í sambandi við okkar stjórnarskrá, að eðlilegt sé, að ríkisstj. láti þá ábyrgð hvíla á Alþ., en taki hana ekki á sig. Það er sannarlega þörf á því, að Alþ. allt standi sameiginlega bak við slíka löggjöf, sem hér er verið að setja og er alveg óvenjuleg. Hæstv. ráðh. sagði einnig, að þetta tímamark væri sett með það fyrir augum að semja nú þegar um skuldirnar. Þá er komið að kjarna málsins. Þetta frv. er ekki fram komið til þess eingöngu að hjálpa útgerðinni til þess að halda áfram að starfa og sem hjálp til sjómanna, að þeir geti fengið sína peninga, heldur spor í áttina til þess að gera hér alger skuldaskil. Og eftir að heyra þá yfirlýsingu, þá verð ég að segja það, að minn hugur stendur miklu minna til fylgis við þetta frv. en áður var. Ég tel gersamlega óframbærilegt að vera að kasta út í dag 6 millj. kr. og segja þjóðinni, að það sé gert til þess að koma bátaflotanum á stað, en viðurkenna á sama tíma að það er ekki markmiðið, heldur gera bátaflotann upp, ná samkomulagi um skuldir og eftirgjöf á skuldum og þá væntanlega bæði lausaskuldum og veðbundnum skuldum. Ég vil benda á, að þegar aðili er kominn í greiðsluþrot, verður hann að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta. Svo er nú komið, að 25 menn eiga minna en eign, og ætti að vera búið að gefa þá upp sem gjaldþrota. En hér gripur Alþ. fram fyrir hendur mönnum. Þeim er gefin syndakvittun og síðan hvattir til að halda áfram, en styrktir til þess gegn gildandi l. Til hvers er verið að gera þetta? Ég hélt, að það væri réttlætt með því að fá fiskinn á land og meiri tolla inn. Aðalmarkmiðið mun vera að semja um eftirgjöf á skuldunum, og það er eigi frambærilegt. Það er bezt að gera bátana bara strax upp, en það á að hjálpa þeim til að gera sig út áfram og hjálpa þeim eina þorskvertíð enn og aðra á síld — til 1. okt. 1949. Það er engan veginn stætt að kasta til þess 6 millj. kr. og segja síðan, að nú eigi að knýja fram eftirgjöf á skuldum, en láta hitt e.t.v. óleyst að koma bátaútveginum á hagstæðan rekstrargrundvöll.

Hæstv. fjmrh. gat þess, að hann hefði ekki lengur lánstraust hjá Pétri og Páli. Hversu margir ætli þeir verði, Pétrarnir og Pálarnir, sem munu koma? Það verður eigi um auðugan garð að gresja. Er það sannarlega margra milljóna króna virði að eyðileggja tryggingar þeirra manna, sem Pétur og Páll hafa fengið lán hjá. Bankarnir hafa eigi talið rétt að hjálpa útvegsmönnum um lán til alls, og allir hafa oft orðið að leita til Péturs og Páls. Þessari leið er nú lokað með þessu frv., ef till. okkar verða felldar. Hæstv. fjmrh. hefur sagt og hv. 1. landsk. líka, að þessum mönnum sé eigi bannað að greiða skuldir sínar. En skýrt hefur og veríð frá því, að ætlazt er til, að sett verði „moratorium,“ gjaldfrestur. En ef svo er, þá varðar við l., ef greiða á sumum aðilum fremur en öðrum. Hér ber og að gæta annars: að hæstv. ríkisstj. verður þá að setja hreina skilanefnd yfir allan reksturinn. Þá má vitanlega eigi reka útgerðina á núverandi grundvelli, heldur af þessari skilanefnd. Allt annað er brot á landslögum. Það á þá að setja þessa skilanefnd yfir útgerðina til að reka hana eða selja eignir hennar. Getur ekki staðizt að leyfa mönnum að galsa og valsa með eignirnar. Það verður að setja reksturinn undir allsherjarstjórn, þar til er málin hafa verið gerð upp. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að vera það ljóst, að hvort sem um er að tala þrotabú eða nauðasamninga, þá verður að fara að l., en eigi þessa leið, sem getið er í frv. Hér er hugsað að gefa eftir um 100% af fé ríkissjóðs, en það fer ekki eftir l. um skuldaskil. Því er ekki unnt að segja, að hér sé um gjaldþrotabú að ræða, og er eigi rétt að láta lausaskuldirnar fylgja með eins og fram kemur í ráðleggingum hæstv. sjútvmrh. og tveggja hv. nm. í sjútvn.

Í sambandi við ummæli hv. 1. landsk. vil ég benda á að gefnu tilefni, að aðeins sum fyrri orð mín voru sögð á ábyrgð n., og þóttist ég hafa tekið það fram, að ég ætlaði að ræða málið almennt, og hafði í huga, að ummæli mín yrðu sögð á mína eigin ábyrgð. Varðandi orð, er ég hafði við um reksturinn, og þau, sem ég sagði varðandi ráð til úrbóta, þá lýsti ég þessu í frumræðu minni og vildi ekki gera aðra hv. þdm. meðábyrga. En tækifæri gafst til að ræða þetta í sambandi við annað mál.

Hæstv. ráðh. sagði, að útvegurinn væri aðframkominn, — og þarf eigi að deila um það. En hann benti ekki á ástæðurnar fyrir þessu, og e.t.v. er ekki ástæða til að ræða það mál nú. Hann gat þess og, hversu ástatt hefði verið á fyrri árum í svipuðum efnum: að árin 1945 og 1947 hefðu lán verið veitt vegna fyrirliggjandi trygginga, en nú væru engar tryggingar. Ég hygg hann hafa mismælt sig hér. Þá voru 10 millj. kr. veittar á veikum tryggingum, en nú eru sterkar tryggingar fyrir hendi, því að þær eru nú forgangur fyrir framan alla veðrétti. Hið eina, sem fram kemur hér, eru hinar nýju sjóveðskröfur, og skýtur því nokkuð skökku við. — Ég hef í svari mínu til hæstv. ráðh. útskýrt það, hvers vegna hraða ætti greiðslum til sjómanna. En í sambandi við það, hvað væru lausaskuldir og hvað ekki, þá mun rétt að taka það fram, að lausaskuldir eru þær skuldir, sem stofnaðar eru án bindandi samninga. Víxlar eru það ekki, því að þeir eru samningsbundnir og búið að greiða þá skuld með nýrri skuldbindingu. Því er hér um að ræða ósamningsbundnar skuldir vegna veiðarfærakostnaðar, viðgerðakostnaðar o.fl. þess háttar, og hér er eigi um stórkostlegar fjárhæðir að ræða. Þessi Grýla er því öldungis ástæðulaus. Hann gat þess, að fæðisskuldirnar væru greiddar, en það getur ekki haft mikil áhrif á þetta mál.

Það eru miklu fleiri örðugleikar á varðandi samþ. frv. nú en menn gera sér almennt ljóst. Hæstv. ráðh. gat þess, að árin 1945 og 1947 hafi sá háttur verið á hafður, að lán þau voru greidd upp, er veitt voru til greiðslu á lausaskuldum. En í fyrsta lagi var ekkert ákvæði í 1. um það, til hvers féð skyldi renna. Voru lán veitt þeim til aðstoðar, sem eigi voru færir um að standa við skuldbindingar sínar. Nú á að vera aðalatriðið að koma bátunum af stað. Nú eru bátarnir tilbúnir að fara á veiðar. Þess vegna má ekki torvelda bátunum að komast af stað. Ég sé eigi ástæðu til að ræða frekar aths. frá hv. 1. landsk., mundi það verða endurtekning á því, er kom fram í svari mínu áðan. En ég vil geta þess varðandi fram komna brtt., að till. þessi kom ekki fram í n. Ég legg því á móti henni og get eigi heldur léð henni mitt fylgi.