14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. 1. landsk. hefur skýrt málið frá sjónarhóli okkar tveggja nm., sem höfum eigi orðið samþykkir nefndarfélögum okkar um afgreiðslu málsins. Hef ég litlu við orð hans að auka. En vegna tveggja síðast haldinna ræðna og þar eð fram kom í þeim höfuðmisskilningur á þessu máli, þá sé ég ekki annað en ég verði að leggja hér orð í belg. Þessir hv. þm. hafa margsinnis talað um brtt. sína við 4. gr. frv. og talið voða hreinan fyrir útgerðina, ef sú gr. verður samþ. óbreytt. Hafa þeir flutt þessa brtt. sína til að bæta úr því tjóni, er að öðrum kosti mundi orsakast af núverandi ákvæðum 4. gr. Þetta álit sitt styðja þeir þeirri röksemd, að með gr. sé útgerðarmönnum bannað að greiða lausaskuldir sínar. En ég held, að þetta sé nú misskilningur. Í 4. gr. segir, að þeir, sem aðstoðar njóti, skuli hafa greiðslufrest til 1. júlí 1949 á öllum skuldum og vöxtum af þeim, sem stofnaðar hafi verið vegna útgerðarinnar. Þarna er þeim veittur réttur til að fá gjaldfrest til þessa tiltekna dags. Hins vegar er þeim síður en svo bannað að borga, ef þeir geta. Á þessum misskilningi byggja þeir hv. þm. Barð. og hv. 6. landsk. rök sin. Get ég trúað, að eitthvað af því, sem þeir hafa látið uppi um öll vandræðin, sé rétt, ef skilningur þeirra er réttur. En m.ö.o. álít ég þetta misskilning hjá þeim. Þeir blanda þessu hér saman við það, ef maður tekur að greiða „kreditorum“ sínum, en eigi öllum jafnt. Og rétt er, að þung viðurlög liggja við þessu. Ef maður rýrir rétt kröfuhafa á einhvern veg, þá varðar það við lög. En á hinn bóginn gegnir það allt öðru máli, ef „moratorium“ er veitt. Liggur engin refsing við því, ef ekkert það er fyrir hendi, sem sýni, að hlutaðeigandi aðili eigi ekki fyrir skuldum. Ég held því, þegar litið er á málið út frá mínum rökum, að þá sé brtt. á þskj. 206 við 4. gr. frv. algerlega óþörf og í henni komi ekki annað fram, en er í frv. sjálfu. Hún tekur ekki til 1. mgr., og í henni stendur svo: „Þetta ákvæði nær þó ekki til lausaskulda. Hins vegar má ekki gera fjárnám í eignum útgerðar til 1. október 1949 til tryggingar þeim skuldum, þótt ekki hafi náðst samkomulag um greiðslu.“ Í þessu er ekkert annað sagt, en er í frvgr. Því álít ég, að hv. flm. hljóti að sannfærast. Lögfræðingar segja, að moratorium sé elgi fólgið í neinu banni við að greiða skuldir sínar. Það er leið, sem er alltaf opin, ef maður á ekki fyrir skuldum. Hins vegar má aðili ekki mismuna kröfuhöfum. — Þessir hv. þm. hafa nú haldið langar ræður og alið á svartsýninni. Þess vegna ættu þeir að athuga, hvort þeir muni ekki geta fallizt á þetta. Ættu þeir og að spyrja lögfræðingana, og síðan ættu þeir að geta tekið brtt. sína aftur og látið vera að berjast fyrir henni. — Ég mun nú annars eigi orðlengja frekar um mál þetta, því að mörg ummæli hafa verið viðhöfð um það, bæði með og á móti. Ég tel frv. vera mikla hjálp fyrir útveginn, en ekki geta orðið útgerðarmönnum að tjóni.