14.12.1948
Efri deild: 32. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1373 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

80. mál, aðstoð til síldarútvegsmanna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umr. lengi, en vil gera nokkrar athugasemdir út af síðustu ræðum. — Hv. þm. N-Þ. hélt því fram, að till. okkar þm. Barð. væri fram komin af misskilningi, og fullyrti, að mönnum væri ekki bannað að greiða lausaskuldir, þó að greiðslufresturinn væri lögfestur á þennan hátt. Út af þessu spurði þm. Barð., hvort greiða mætti lausaskuldir af rekstrarfé, en því skaut hæstv. ráðh. sér undan að svara og sagðist líta á það sem samningsatriði milli viðkomandi lántakanda og bankastjórans, sem lánið veitti. Ég tel, að með þessum orðum ráðh. sé komið skýrt fram, hvers vegna þetta er sett í frv., en það er sýnilega að tilhlutun Landsbankans, svo að hann geti sagt án þess að hika: Þið fáið ekki lán til þess að greiða þessar skuldir. — Af þessu verður ráðið, að menn fá ekki leyfi til að greiða lausaskuldir eða samningsbundin lán fyrr en aðstæðurnar knýja svo á, að ekki verður undankomu auðið og að því rekur, en hins vegar gerir þetta útvegsmönnum erfiðar um vik, um leið og það skapar bönkunum aðstöðu til að neita um lán til að greiða skuldir. — Þá sagði þm. N-Þ. að þessi till. okkar breytti engu. Þetta er alger misskilningur, því að í 4. gr. er það meginregla að greiða ekki þær skuldir, sem brtt. fjallar um, en hjá okkur er meginreglan að greiða þessar skuldir. Till. okkar grundvallast á því, að ekki verði lögfest ákvæði, sem torveldi áframhaldandi útgerð, en það gerir þetta ákvæði frv., ef því verður ekki breytt.