15.12.1948
Efri deild: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1727)

103. mál, bráðabirgðarfjárgreiðslur úr ríkissjóði 1949

Gísli Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að ræða þetta mál, en vegna ummæla hv. þm. N-M. í sambandi við afgreiðslu fjárl. finnst mér rétt að taka það fram, að fjárl. voru send til fjvn. að mig minnir eftir miðjan okt. í haust, og hefur fjvn. unnið að þeim eins og venja er til. En vegna upplýsinga frá hæstv. ríkisstj. um það, að ekki verði hægt fyrir áramót að koma sér að fullu saman um úrlausnir ýmissa mikilsverðra vandamála, sem hljóta að kosta ekki aðeins smáupphæðir, heldur tugi millj. kr. fyrir ríkissjóð, þá er ekki hægt fyrir n. að lúka störfum. Ég vil því mótmæla þeim ummælum, sem fram hafa komið um, að fjvn. eigi sök á þessum drætti, enda vita hv. þm., að ýmsar utanaðkomandi ástæður hafa valdið því, að þetta mál hefur dregizt.