15.12.1948
Efri deild: 35. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1377 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

103. mál, bráðabirgðarfjárgreiðslur úr ríkissjóði 1949

Gísli Jónsson:

Það er aðeins stutt aths. — Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að þegar fjárlfrv. kom eftir miðjan okt., þá var það óvenjulega vel undirbúið. Hins vegar hafa komið upp mörg vandamál, sem ekki hefði verið hægt að undirbúa, þó að þingið hefði verið kallað saman fyrr. Þetta eru vandamál, sem hæstv. stj. á enga sök á, og það hefur ekki unnizt tími til að leysa þau fram að þessu. Að lokum vil ég benda hv. þm. á það, að hæstv. stj. hefði vitanlega enn síður haft tíma til að undirbúa fjárlfrv., ef þing hefði verið kallað saman í ágúst eða september, eins og hann vildi.