15.12.1948
Efri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta er eins og málið næst á undan flutt af fjhn. að beiðni fjmrh. Þessi beiðni hefur verið endurtekin ár eftir ár síðan löggjöfin var sett 1941 um heimild til ýmissa ráðstafana vegna. erfiðleika atvinnuveganna. Þarna er ríkisstj. heimilað að lækka um vissan tíma toll á kornvöru. Þótti rétt að halda þessari heimild við, og þar sem þarf að endurnýja þessa heimild árlega, fór ríkisstj. fram á endurnýjun einu sinni enn þá. Málið var flutt af fjhn. og getur því gengið nefndarlaust áfram.