16.12.1948
Neðri deild: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1752)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi taka það fram út af ræðu hv. 2. þm. Reykv., að það er vissulega slæmt, að afgreiðsla fjárlaganna dragist, og er ástæða til að kvarta yfir því, þótt það sé varla tímabært enn. Fjárlagaafgreiðslan verður þeim mun erfiðari, sem um hærri tölur er að ræða, og er því mjög erfið nú. Þessi heimild, sem hér um ræðir, hefur verið í lögum síðan 1941 og alltaf framlengd, og er hægurinn hjá fyrir alla að slá upp í stjórnartíðindunum og sjá, hvað um er að vera. Hér er ekki á ferðinni neitt nýtt eða óþekkt mál. Það er náttúrlega ákaflega æskilegt að hafa fjárlög afgreidd í ársbyrjun, en það virðist vera hart að því ómögulegt. Ekki svo að skilja, að ég hafi um að hælast í þessu sambandi, því að afgreiðsla fjárlaga dróst mikið á síðasta þingi, en menn verða að líta með sanngirni á erfiðleikana, sem á því eru að koma fjárlögunum saman, og þeir erfiðleikar eru nú meiri, en nokkru sinni fyrr, eins og ég benti á í upphafi.