16.12.1948
Neðri deild: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. veit, að það er ekki nýtt, að ríkisstj. sé saman sett af mönnum með ólíkar skoðanir. Það er stundum erfitt að ná samkomulagi, en það verður þó að reyna hér og annars staðar, þar sem lýðræðisfyrirkomulag er, að menn með ólík sjónarmið leitist við að leysa vandamálin sameiginlega. Þetta er svo sem ekki nýtilkomið. Í síðustu ríkisstj. voru menn með ekki síður ólík sjónarmið, og þennan ágalla, ef ágalla skyldi kalla, verða lýðræðisþjóðirnar að sætta sig við. Hitt er svo líka til, að einn flokkur, einn vilji ræður öllu, þar sem einræði er, og þar er hægt að gera hlutina hraðar, og þarf ekki að skýra þetta fyrir hv. 2. þm. Reykv., því að hann er fróður maður um þjóðfélagsmál.

Höfuðvandinn varðandi afgreiðslu fjárlaga er nú allt það, sem snertir dýrtíðar- og verðbólgumálin, en slíkt þekktist ekki fyrir nokkrum árum, að ég tali nú ekki um hitt að reyna að tryggja gang atvinnuveganna. Alþ. og ríkisstj. hafa ekki fyrr, en fyrir stuttu þurft að glíma á þann hátt við þau mál sem nú. Ég skal ekki lýsa því, hve mikill tími fer í þessi afskipti, því að hv. samþingismenn mínir vita það vel.