16.12.1948
Neðri deild: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1756)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Máltækið segir, að fjarlægðin geri fjöllin blá. Ég þarf ekki að endurtaka það, að skoðanamunur er eðlilegur innan samsteypustjórnar. Ég held og núv. ríkisstj. þoli enn þá samanburð við hina, a.m.k. hefur enginn flokkur í núv. ríkisstj. neitað að mæta á fundum ríkisstj., en það hygg ég, að flokkur hv. 2. þm. Reykv. hafi gert og hafi neitað að tala við sína félaga í ríkisstj. um nokkur mál. Að öðru leyti ætti það að vera skýrara fyrir augum hv. 2. þm. Reykv. og hans manna, en margra annarra, að eins og hér er stefnt með sífellt vaxandi afskiptum ríkisins af atvinnuvegunum, þá hljóta verk ríkisstj. og Alþ. að fara vaxandi, því að ekki fer saman, að afköstin aukast ekki í hlutfalli við það, hvað mikið er færzt í fang. Það er því skiljanlegt, að störf þings og stjórnar krefjist meiri tíma en áður, þegar afskipti hins opinbera af atvinnuvegunum síaukast. Ég veit enga heitari boðbera þeirrar stefnu, en flokksmenn hv. 2. þm. Reykv., og þessir menn ættu að gera sér ljóst, að með þessu er stefnt að því, að ríkisstj. sé með nefið ofan í hvers manns dalli. Afskipti ríkisvaldsins flýta ekki fyrir afgreiðslu mála, enda eru þau fyrst og fremst áhugamál hv. 2. þm. Reykv. og hans fylgifiska.