16.12.1948
Neðri deild: 38. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

104. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. sagði, að ráðherrar sósíalista í fyrrv. ríkisstj. hefðu neitað að mæta á fundum ríkisstj. Ég lýsi þetta hrein og helber ósannindi og vænti þess, að fyrrv. forsrh. leiðrétti þetta. Það er aumingjalegt af hæstv. fjmrh. að grípa til slíkra ósanninda. En það er von, að hann verði aumingjalegur. Tvisvar sinnum hefur hann lagt fram fjárlög, og í bæði skiptin var ekki hægt að afgreiða þau á réttum tíma, og finnst engin haldbær afsökun fyrir því. Við skulum bara bíða og sjá, hvað samráðherrar hans segja, þegar núv. hæstv. ríkisstj. rofnar. Þá mun koma í ljós, að hann er einhver sá mesti slóði, sem nokkurn tíma hefur setið í sæti fjármálaráðherra á Íslandi. Það er fyrst og fremst sök fjmrh., að svo seint gengur með afgreiðslu fjárl. Það er ekki hægt að ásaka fjmrh., sem situr meðan stjórnarkreppa er og tekur við, þegar sá tími er útrunninn, sem fer venjulega til þess að afgreiða fjárlfrv. En fjmrh., sem hefur 42 þm. af 52 að baki sér, hefur enga afsökun fyrir því að hafa ekki fjárlfrv. fyrr til. Ég sé ekki, að neitt hafi komið fram frá í haust og fram að þessum tíma, sem geti verið rök fyrir því að tefja svo mjög og draga afgreiðslu fjárl., svo sem þessi ríkisstj. hefur gert. Fjmrh. kemur svo með ósannindi um fyrrv. ríkisstj., til þess að afsaka sinn eigin slóðaskap.