07.12.1948
Efri deild: 26. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

93. mál, tollskrá o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil benda á það, að í a-lið þessa frv. undir A er áætlað, að tollur af benzíni hækki í 20 aura, og undrast ég, að hækkunin skuli ekki vera meiri. Benzíntollurinn er ekki meiri en svo, að það borgar sig að flytja þungavöru á bílum norður á Sauðárkrók, Skagaströnd, Blönduós og vestur í Dali og Barðaströnd í stað þess að flytja hana með skipum. Skip Skipaútgerðar ríkisins verða að sigla hálftóm, svo að gefa verður með þeim úr ríkissjóði, en kastað frá sér tekjum í þess stað með of lágum benzínskatti. Ég tel því nauðsynlegt að hækka þennan skatt verulega. Ég er hissa á hæstv. ráðh., þegar hann leggur þetta frv. fyrir þingið og finnur vanmátt ríkissjóðs til að standa í skilum, að hann skuli ekki reyna að koma í veg fyrir, að Ríkisskip gangi tóm, en það sé hagnaður í því að flytja vörurnar með bílum í stað skipa. Ég vænti þess, að n. taki þetta til athugunar, því að þetta er ranghverfa í þessu máli, en auk þess verður að taka með í reikninginn hinar stórkostlegu fjárhæðir, sem fara til vegaviðhalds. En aðalatriðið er það, að benzínskatturinn er svo lágur, að ódýrara er að flytja með bílum en skipum.