06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

83. mál, almannatryggingar

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt athugasemd eða leiðrétting, sem ég vildi koma á framfæri, leiðrétting á slæmri missögn, sem hv. 1. þm. Rang. varð á að grípa til sem varnarraka fyrir frestun heilsugæzlulaganna. Í fyrri ræðu sinni sagði hv. þm. það, sem rétt var, að frv. væri flutt skv. ósk félmrn., en gaf ekki frekari skýringar á því, hvað þeirri ósk ylli. En í síðari ræðu hv. þm. kom það á daginn, að það var Tryggingastofnun ríkisins, sem þar stóð á bak við, og ástæðan til þess, að ekki væri hægt að hefja framkvæmd heilsugæzlulaganna, átti að vera sú, að ekki hefðu náðst samningar milli Tryggingastofnunarinnar annars vegar og mín og minna stéttarbræðra hins vegar. Hv. þm. hefur víst í svipinn gleymt, að hann var sjálfur meðlimur í þessum félagsskap. Hann hefur aðeins munað, að hann varð að finna einhverja frambærilega ástæðu til frestunar á framkvæmd þeirra l., sem hann að vísu sagði, að mundu koma ýmsu góðu til leiðar, þótt þau væru flausturslega samin og sett, og er ég honum sammála um það atriði. En það er ekki til fyrirmyndar að setja góð lög og fresta svo framkvæmd þeirra að ástæðulausu, því að ástæður hv. þm. eru ekki til. En þeir misstíga sig oft, sem aftur á bak ganga, og ef til vill er það ástæðan til skrökvarna hv. þm. Tryggingastofnunin hefur ekkert við okkur lækna talað, og það var hv. þm. fullkunnugt um, en þegar líða tók að því, að framkvæmdir skyldu hefjast skv. heilsugæzlulögunum, þá skrifuðu læknar tryggingaráði og sendu því uppkast að samningstilboði. Því bréfi hefur ekki verið svarað, og yfirleitt hefur tryggingaráð ekki viljað við lækna tala. Heimild í l. frá 1946 um, að heilbrmrh. geti sett læknum gjaldskrá, ef ekki næst samkomulag, hefur heldur ekki verið notuð, og það var að heyra á hv. þm., að það væri ekki heldur áformað að nota þá heimild, og skýringin á því var sú, að nú hefði Sigurður Sigurðsson verið skipaður heilsugæzlustjóri, svo að hann með vinsældum sínum gæti unnið bug á óbilgirni stéttarbræðra okkar. Mér er nú nær að halda, að Sigurður Sigurðsson hafi fremur verið skipaður í þetta embætti vegna áhuga síns og kunnáttu á þessum málum, og ég held enn fremur, að hann líti á heilsugæzluna sem sitt aðalviðfangsefni, og ég efast ekki um, að Sigurður Sigurðsson gangi með lipurð og kurteisi til samninga við hvern sem er, en það er meira en hægt er að segja um tryggingaráð. Ég áfellist ekki tryggingaráð sem heild, þótt einn meðlimur þess skýri rangt frá staðreyndum, en ég áfellist það fyrir að svara ekki skrifum, sem miða að því, að góð samvinna náist milli þess og lækna, þegar heiIsugæzlulögin taka gildi. Reyndar var á hv. 1. þm. Rang. að heyra, að engar líkur væru á því í bráð. Hann taldi upp fjölda atriða, sem skorti, til þess að svo mætti verða, svo sem skort á sjúkrahúsum, heilsugæzlustöðvum og hjúkrunarliði. Og það er rétt, að l. verða ekki framkvæmd, svo að í lagi sé, ef þetta vantar, en það er hægt að hefja framkvæmdirnar nú þegar, og það er spor áfram, en hitt er spor aftur á bak að hika og ganga á gefin loforð um framkvæmd laganna.