06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1411 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

83. mál, almannatryggingar

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Mér þykir ástæða til að taka til máls, þar eð ég er fulltrúi hv. þm. í tryggingaráði og hef fjallað um þetta mál. Ég vil í fyrsta lagi geta þess, að málið var fyrst rætt á 278. fundi tryggingaráðs, sem haldinn var þ. 13. okt. 1948. Vil ég með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa upp bókunina:

„Forstjóri skýrði frá því, að hann ásamt formanni tryggingaráðs og Sigurði Sigurðssyni hefði þ. 8. okt. 1948 átt viðræður við ríkisstjórnina um framkvæmd heilsugæzlukafla laganna og ríkisstjórnin hefði tjáð þeim, að hún mundi leggja til við Alþingi, að viðaukalögin frá 1947 yrðu framkvæmd í aðalatriðum, og hún óskaði þess, að tryggingaráð tæki til athugunar, hverjar breytingar það telur að þurfi að gera á þeim lögum.

Af því tilefni samþykkti tryggingaráð eftirfarandi:

„Enda þótt tryggingaráð hefði talið æskilegt, að unnt hefði verið að láta Ill. kafla almannatryggingalaganna koma til framkvæmda um næstu áramót, fellst ráðið á að framkvæma athugun þá á viðaukalögunum, sem um var rætt.“

Tryggingaráð samþykkti að skýra stjórnum sjúkrasamlaga frá þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“

Þetta var nú þ. 13. okt., og eins og samþykktin ber með sér, hefur hæstv. ríkisstj. tjáð forstjóranum, formanni tryggingaráðs og Sigurði Sigurðssyni, að hún mundi leggja til við hið virðulega Alþ., að viðaukalögin yrðu, framlengd í aðalatriðum. En tryggingaráð telur æskilegt, að III. kaflinn verði látinn koma til framkvæmda. Um það var enginn ágreiningur fyrir hendi. Hér er því um það eitt að ræða, hvort hið æskilega sé framkvæmanlegt. En sú staðreynd lá fyrir tryggingaráði, að hæstv. ríkisstj. hefði tekið ákvörðun um að leggja til, að III. kafli l. yrði ekki framkvæmdur. Næsti fundur ráðsins, þar sem þetta var tekið fyrir, er svo haldinn þ. 3. nóv. 1948. Er þá gerð svohljóðandi bókun:

„Forstjóri lagði fram uppkast að frumvarpi til viðaukalaga við almannatryggingalögin, og er fyrsta grein frumvarpsins í 15 liðum.

Liðirnir samþykktir með samhljóða atkvæðum, nema 2. liður var samþykktur með 2 atkvæðum gegn 1. (Sigf. Sigurhjartarson.)“ Ég vil taka það fram til skýringar, að þessi liður liggur nú eigi fyrir Alþ. Taldi hæstv. ríkisstjórn, að ekki væri rétt að leggja hann fyrir það. Síðan heldur áfram: „Helgi Jónasson skýrði frá því í síma, að hann einnig væri samþykkur liðunum. Frumvarpið í heild samþykkt með 3 samhljóða atkvæðum.

Helgi Jónasson lýsti sig samþykkan frumvarpinu í heild.

Sigfús Sigurhjartarson ítrekaði þá fyrri afstöðu sína, að ástæðulaust sé að fresta framkvæmd á III. kafla laga um almannatryggingar, þó að hann efnislega geti fallizt á frumvarpið, ef um frestun verður að ræða.“

Er ég nú hef haft þennan formála og skýrt frá þessu, þykir mér rétt að meta það og vega, hvort auðið megi telja að láta III. kafia l. koma nú þegar til framkvæmda eða nauðsyn knýi hið virðulega Alþ. til að slá framkvæmd hans á frest um sinn. Hver eru þá helztu rökin, sem færð eru fyrir frestinum? Í fyrsta lagi er haldið fram. að þunglega hafi sótzt að semja við læknana á grundvelli III. kaflans. Furðar mig stórlega á því að heyra þetta hér á Alþ. Fyrir ári, þ.e. 1947, var leitað samninga við lækna á grundvelli þessa kafla l., en í ljós kom, að þeir stóðu fast við kröfur sínar. Kom þetta engan veginn á óvart, enda hef ég ekki vitað til annars, en bæði launþegar og vinnuveitendur reyndu, að standa sem fastast við sitt mál. En það, sem ágreiningnum olli, var furðulegt atriði. Eins og kunnugt er, er það ákvæði tekið upp í III. kafla l., að sjúklingar skuli greiða læknishjálp, er þeir fá utan sjúkrahúss við læknisvitjanir, eftir gjaldskrá heilbrigðisstjórnarinnar, er miðuð sé við það, að hún svari til að meðaltali 1/4 af hæfilegri greiðslu. Komst þetta inn sökum óskar læknanna. Töldu þeir, að þetta mundi leiða til verulegs sparnaðar. Enn fremur litu þeir svo á, að það hefði töluverð áhrif á tekjur sínar. Við samningaborðið vildu þeir ekki taka tillit til fjórðungsgjaldanna. Þetta var ágreiningsefnið, og var aldrei reynt til þrautar að ná samkomulagi, heldur voru samningarnir látnir renna út í sandinn, án þess að fullreynt væri, hvort unnt væri að ná þeim eður eigi. Það er líka ástæða til þess að minna á, að svo er ráð fyrir gert í l., að verða megi, að samningar takist ekki. En þá mælir löggjafinn fyrir um, hvernig á skuli haldið. Nú, þess ber að gæta, að þetta var árið 1947. En samningar hafa alls eigi verið reyndir á árinu 1948. Því er það helber bábilja, að af þessari ástæðu þurfi að slá framkvæmd HI. kaflans á frest. Þá er það 2. atriðið. Sagt er og með réttu, að enn sé ekki búið að reisa heilsuverndarstöðvar þær, sjúkrahús og lækningastöðvar, er ráðgerðar eru í III. kaflanum, og er langt frá, að svo sé. En staðreyndin er sú, að aldrei var gert ráð fyrir að stöðvarnar stæðu þegar tilbúnar, er til lagaframkvæmda drægi, heldur var algerlega gagnstætt ætlað, að þær yrðu reistar eftir efnum og ástæðum. Hér er því síður en svo neitt nýtt á ferðinni. Munu stöðvarnar reistar síðar smám saman. Ég er sannfærður um, að við færðumst ekki hóti nær markinu, þó að frestað væri framkvæmd III. kaflans um 1 ár, og mun svo ganga koll af kolli. Er átaksins fyrst að vænta, þegar komið er að því að framkvæma gildandi lög. Og þetta eru reyndar ekki raunverulegar ástæður. Finnst mér kynlegt, að eigi skuli hreinlega vera spurzt fyrir um ástæður fyrir frestuninni. Þær eru fjárhagslegs eðlis, og þá staðreynd verður að viðurkenna og meta, hvort hún sé réttmæt. Tryggingaráði var falið að gera tvenns konar fjárhagsáætlun: a. á grundvelli laganna í heild og b. á þeim grundvelli, að frestað yrði framkvæmd III. kaflans, heilsugæzlunnar. Innti ráðið af hendi þessa skyldu sína, og eru, niðurstöður þess raktar í höfuðdráttum í þessum skjölum, er ég hef með höndum. Þykir mér ástæða til að gera þessa frásögn enn fyllri með því að lesa upp úr grg. tryggingaráðs fyrir ályktunum sínum til ríkisstjórnarinnar með leyfi hæstv. forseta:

„Framlög ríkissjóðs vegna almannatryggingalaganna eru samkvæmt fyrri áætluninni samtals áætluð kr. 30.5 millj., en samkvæmt hinni síðari kr. 17.3 míllj. til tryggingasjóðs og kr. 3.4 millj. til sjúkrasamlaga, samtals 20.7 millj. eða kr. 9.8 millj. lægri. Frá þeirri upphæð má draga kr. 6.3 millj., sem er áætlaður kostnaður ríkissjóðs á árinu 1949 vegna hælisvistar berklasjúklinga og annarra sjúkra manna og örkumla samkvæmt áætlun ríkisframfærslunnar 11. þ. m. Mismunurinn er því kr. 3.5 millj.“ Þetta er mergurinn málsins. Fleira þarf þó að athuga. Þessi 31/2 milljón er ekki ný útgjöld, heldur tilfærsla á gjöldum, því að síðar segir: „Stafar hann (þ.e. mismunurinn) fyrst og fremst af því, að framlög sveitarfélaganna í heild lækka mjög verulega frá því, sem þau eru nú, (Ég bið hv. þm. að taka eftir þessu: lækka mjög verulega. Því næst sjáum við, hverju miklu lækkunin nemur.) ef heilsugæzlan kemur til framkvæmda, þar sem áætluð framlög þeirra til sjúkrasamlaga, kr. 3.4 millj., og til ríkisframfærslu, ca. kr. 1.6 millj., falla þá niður, en framlag þeirra til tryggingasjóðs hækkar aðeins um kr. 2.7 millj. Nemur því þessi lækkun um kr. 2.3 millj.“ M.ö.o. lækka framlög sveitarfélaganna sem þessu nemur, þegar ríkissjóður tekur á sig hækkun útgjaldanna, um kr. 1.2 millj. Eru þetta þá ný útgjöld? Nei, fjarri fer því, því að útgjöld hinna tryggðu, lækka. Það er vissulega rétt, sem fram kom hjá hæstv. forsrh., að þessar lækkanir eru eigi bundið fé. Réttindi þeirra verða að vissu leyti minni, en vera ættu samkvæmt l. Hins vegar er ég sannfærður um, að hin sérstöku réttindi manna samkvæmt heilsugæzlukaflanum koma ekki til með að svara til þess, sem lagt er á einstaklinginn. Ég hef og ástæðu til að ætla, að lækkunin á einstaklingunum muni nema meira fé en hækkunin á ríkinu. Hér er því um það að ræða, að ríkið taki á sig hallann, þessa 31/2 milljón. En þessi útgjöld vill það ekki taka á sig. Og svo er borið í vænginn, að eigi sé unnt að komast að samkomulagi við læknana og stöðvarnar og sjúkrahúsin séu eigi komin upp enn og erfitt sé að reisa þau! Við skulum athuga þetta ofurlitið nánar. Allir vita, að þegar alþýðutrygginga- og sjúkratryggingalögin féllu úr gildi við samþykkt og gildistöku núgildandi l. um almannatryggingar, þá átti Tryggingastofnunin kr. 50 millj. í sjóði, og við þessu fé tóku almannatryggingarnar. Er ætlazt til, að sjóði þessum verði varið til að greiða fyrir byggingu þeirra stofnana, er getið er í kaflanum um heilsugæzlu. Tryggingastofnunin veltir árlega um 70 millj. króna, en hefur auk þess um 30 millj. króna í reiðufé. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn komið auga á þessa sjóði — auk lausafjárins, og er bezt að segja hverja sögu eins og hún gengur, að aldrei er svo fundur haldinn í tryggingaráði, að eigi berist bænakvak frá ríkisstjórninni um fé til láns. Hefur hæstv. fjmrh. upplýst það, að Tryggingastofnunin hefur lánað ríkinu um 9 milljónir króna, — og ævinlega er beðið um meira. Það fylgir einnig með, að ríkisstjórnin segir sem svo, þegar stofnunin kveðst fjárþurfi til þeirra framkvæmda, sem getur í III. kaflanum: Það verður ekki gert á þessu ári. Þetta er dálagleg svikamylla. Stj. heimtar frestun á löggjöf, sem er til hagsbóta öllum almenningi. Hún færir það sér til afsökunar, að fé vanti til framkvæmdanna. Hins vegar fer hún fram á fé til láns æ ofan í æ og segir, að eigi verði byggt á þessu ári hvort eð er. Leiðinlegt er, að mál skuli ekki vera hægt að ræða á réttum forsendum. Stj. þarf að halda á bæði sjóðum og reiðufé. En þannig er því einnig farið um heilsugæzluframkvæmdirnar.

Að endingu vil ég svo benda hinu virðulega Alþ. á alvarlega staðreynd. Í ársbyrjun 1946 eru sett l. um almannatryggingar (l. nr. 50 7. maí 1946). Því er eigi að leyna, að löggjafinn hefur státað af þessari löggjöf, og að vísu er hún merk. Kerfið er mjög skynsamlegt, svo að telja má það á meðal hins bezta í heimi sinnar tegundar. Vel má vera, að ýmsa agnúa megi finna á l., en jafnljóst er hitt, að árið 1946 var sett geysimerk löggjöf, sem lofaði miklu og var enda mikils af vænzt. Er vonandi, að agnúana megi sniða af, eftir því sem reynslan segir til um. En hæstv. Alþ. ber að vita, hvað það er að gera. Í þessu máli virðist alvöruna hafa skort. Sömu mennirnir, sem samþykktu þennan mikla lagabálk, vilja nú fresta mesta og merkasta nýmælinu. Því var frestað í fyrra. Var ég á meðal þeirra, sem álitu, að eðlilegt væri, að tvö ár þyrfti til undirbúningsins. Nú á enn að auka frestinn. Er það bundið við, að endurskoðun l. skuli lokið á næsta hausti. Það er ekki meiningin að skera alla smáagnúa af löggjöfinni, heldur er það meining mjög margra hv. þm. að gerbreyta lögunum á þann veg að létta þessum þremur og hálfri millj. kr. af herðum ríkisins, sem ríkið á lögum samkv. að greiða vegna III. kafla laganna, og sennilega létta meiru, af ríkinu í sambandi við þessa löggjöf. Það mun vera meiningin að hefja árás á þessi merku lög, sem hæstv. Alþ. setti árið 1946, nefnilega að ganga aftur á bak. Þess vegna segi ég það, að það er meir en hæpið fyrir hv. þm.samþ. fyrst stórmerka löggjöf og samþ. síðan ár eftir ár frestun á framkvæmd hennar að verulegu leyti og ætla sér að endurskoða hana með gerbreytingar í huga, áður en framkvæmd eru merkustu ákvæði laganna. Mér er ekki launung á því, að sú hugsun er mjög hátt á lofti hjá ýmsum, sem fjalla um endurskoðun þessara laga, að gerbreyta III. kafla þeirra um heilsugæzlu og leggja til, að sjúkrasamlögin verði látin starfa áfram. Nú má segja, að þetta væri kannske ekki svo alvarlegt fyrir Alþ., ef þetta væri eins dæmi — enda þótt einsdæmin séu stundum verst en þetta er, því miður, ekki einsdæmi. Á sama þingi sem lögin um almannatryggingar voru sett, voru sett önnur mjög merk lög, um opinbera aðstoð til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Þar var safnað saman í einn lagabálk öllum ákvæðum, sem áður giltu um verkamannabústaði,og samvinnubyggingar, og þau voru að mörgu leyti endurskoðuð og endurbætt. En það var þá líka III. kafli í þeim lögum, eins og þessum, sem hér er frv. um að fresta framkvæmd á, og var merkasti kafli laganna um þessa opinberu aðstoð við byggingar íbúðarhúsa. Þar var um nýmæli að ræða, og það var kaflinn um það að ganga að því á skipulagsbundinn hátt að útrýma heilsuspillandi íbúðum í kaupstöðum og kauptúnum, og þar hét ríkið ákveðinni aðstoð til handa kaupstöðum og kauptúnum til þess að framkvæma þennan vilja löggjafans að útrýma þessu heilsuspillandi húsnæði á fjórum árum. Þetta er hið glæsilegasta loforð,, sem gefið hefur verið í húsnæðismálum Íslendinga og af ekki ómerkari aðila en löggjafanum á Íslandi. Þetta hátíðlega loforð er svo tekið aftur á síðasta þingi. III. kafla þeirra laga er frestað, eins og III. kafla laganna um almannatryggingar, kaflanum um heilsugæzlu. — Ég vildi biðja hv. þingmenn að hugsa um þetta mál fyrir alvöru, hugsa um það, hvort þeir vilja höggva þannig nokkuð nærri gerðum hæstv. Alþ. með því að samþ. hvern geysimerka lagabálkinn eftir öðrum, sem lofa þegnunum miklu, og rjúka svo til að ári liðnu og segja: Þetta var til að sýnast, bara til að glamra um það í þingsölunum, en nú ætlum við að sjá um, að ekkert verði framkvæmt af því.

Nú vil ég taka það fram, út af því frv., sem fyrir liggur, að í tryggingaráði var ég samþykkur öðrum liðum í 1. gr. en fyrsta liðnum, ef um frestun væri að ræða og fyrsti liðurinn samþ. Og einn liðurinn, sem fjallar um sjúkrapeningagreiðslur til húsmæðra, er til verulegra bóta. En hins vegar greiði ég hér eins og í tryggingaráði atkv. gegn 1. lið, gegn frestuninni. Og ég vil benda á það að gefnu tilefni í blaðaskrifum, að það er hægt að rétta hlut húsmæðranna án þess að fresta framkvæmd III. kafla laganna. Til þess þarf aðeins einnar línu breytingu á einni gr. laganna, og því er auðvelt að koma í gegn, þó að ekki sé farið að fresta III. kafla laganna. Ég vil vænta þess, þegar til atkvgr. kemur, að borinn verði upp 1. liður 1. gr. sérstaklega, þannig að það komi greinilega fram, hverjir það eru, sem vilja fresta framkvæmd þessa kafla laganna, og hverjir vilja, að staðið sé við gefin loforð Alþ. í þessu efni og öðrum frá árunum 1945 og 1946.