06.12.1948
Neðri deild: 27. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1814)

83. mál, almannatryggingar

Katrín Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. 6. þm. Reykv. hefur nú tekið alveg af mér ómakið með sinni ýtarlegu ræðu og tilvitnunum í gerðir tryggingaráðs, bæði viljayfirlýsingu þess, að tryggingaráð hefði helzt kosið, að III. kafli laganna yrði framkvæmdur, og að það er fyrir tilmæli ríkisstj., að svo er ekki gert, og hann hefur einnig skýrt það mjög glöggt með tilvitnunum, að það, sem ég hélt áðan fram um samningagerðir milli lækna og tryggingaráðs, var rétt. Samningar þessir voru ekki reyndir til hlítar árið 1947 og alls ekki 1948. Það kemur því dálítið undarlega fyrir að heyra bæði hæstv. forsrh. og hv. frsm. vera að biðja mig um að hafa áhrif á stéttarbræður mína, þannig að þeir séu ekki óbilgjarnir í samningum. Þeir, sem fram á þetta hafa farið, ætlast líklega til þess, að læknar selji tryggingunum sjálfdæmi. Það ætti að vera óþarfi, þar sem lögin eru þannig, að þær geta haft það, ef samningar takast ekki.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það væri rangt, að hann væri vondur við stéttarbræður sína. — Ég veit ekki til, að það séu sérstaklega merki um gæði að bera á menn ósannar sakir og halda þeim til streitu. — Þá fóru þeir báðir fram á, þessi hv. þm. og hæstv. ráðh., að ég beitti mér fyrir því, að læknar sýndu kurteisi. Þeir hafa sýnt kurteisi, en það er tryggingaráð, sem sýndi ókurteisi með því að svara ekki. — Hæstv. forsrh. er ekki viðstaddur, og var það ekki heldur við fyrri hluta þessarar umr. Hann vissi því ekki, að ég hafði lýst yfir, að ég væri fylgjandi öllum liðum 1. gr. nema 1. tölul. og svo 8. liðnum, sem felur í sér ákvæði um, að iðgjöld skuli greidd með 310 stiga vísitöluálagi. Það fannst mér óeðlilegt og get ekki fallizt á það. Hæstv. ráðh. heyrði þess vegna ekki, því að hann var ekki viðstaddur, að ég gerði grein fyrir því, að ég var ekki andvíg sams konar ákvæðum í fyrra, og það var af því, að ég bjóst við, að endurskoðun sú, sem ákvæði um felst í 12. lið bráðabirgðaákvæða laganna, mundi leiða til bóta á III. kafla laganna. Hins vegar veit ég ekki, hvaðan hann hefur það, að ég hafi verið hlynnt þessu frv. fyrst í haust. Þetta frv. kom í haust til nefndarinnar. Ég fékk þá varla að sjá það, en lýsti yfir, að ég væri algerlega á móti frestuninni á heilsugæzlukafla laganna. En af því að ég hafði ekki séð frv., orðaði ég það svo, að ég væri á móti frv. í heild.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða meira um þetta, og sérstaklega sé ég ekki ástæðu til þess, par sem hæstv. forsrh. er hér ekki viðstaddur. En það var á honum að heyra, að það væru mikil hlunnindi fyrir fólkið, að þessi heilsugæzlukafli kæmi ekki til framkvæmda, sem hann þó sagði í öðru orðinu, að hefði verið settur sem stórt spor fram á við, ef hrundið hefði verið í framkvæmd. Átti hann þar víst við fjórðungsgjaldið vegna sérfræðinga, næturlækna og helgidagalækna. Það munar lítið um, þótt fjórðungsgjaldið sé innheimt, og hv. 1. þm. Rang. veit, að það er ekki gengið eftir því, en tekið, þegar það er boðið fram. En þeir segja það, hv. þm., að það sé nauðsynlegur hemill, til þess að fólk sé ekki með of mikla rellu við læknana. En fólkið á að rella við læknana, vegna þess að það eru læknarnir, sem eiga að skera úr um það, hvort eitthvað sé að heilsu manna, sem óttast beri.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta lengur. Hv. 6. þm. Reykv. hefur hrakið allar þær óhróðurslegu staðhæfingar, sem hv. þm. hafa hér haft um læknastéttina.