15.12.1948
Efri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

83. mál, almannatryggingar

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það var ætlun mín að beina fyrirspurn til hæstv. félmrh., ef hann væri viðstaddur. Þetta frv. er satt að segja nokkuð óákveðið um endurskoðunina. Þar stendur, að hæstv. ríkisstj. sé heimilt að hraða endurskoðun laganna svo, að henni verði lokið fyrir 1. okt. 1949. Það er heimild fyrir því, að henni verði lokið þá, og nú vil ég spyrja hæstv. félmrh., hvort ekki megi treysta því, ef frv. verður að lögum, að þá hraði hæstv. ríkisstj. svo endurskoðuninni, að frv. geti legið fyrir næsta haustþingi. Það væri mjög æskilegt, að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu hér í þinginu. Ég hafði ætlað mér að koma fram með brtt. við það, en til þess að trufla ekki gang málsins, mun ég falla frá því, ef tryggt er, að endurskoðun verði hraðað. En annars mun ég koma fram með brtt. við það eða nýtt frv., sérstaklega við 109. gr. og víðar, og er mjög óskað eftir því af okkur þm., að við komum fram breyt. á l. — Ég vildi svo heyra frá hæstv. ríkisstj., hvort hún muni ekki nota sér heimildina, svo að endurskoðun verði lokið næsta haust.