15.12.1948
Efri deild: 33. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1422 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

83. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti. Þetta er í rauninni í þriðja skiptíð, sem lagt er til, að framkvæmd III. kafla, heilsugæzlukaflans, verði frestað. Það var í fyrsta skipti, þegar l. voru sett, þar sem ákveðið er í l. sjálfum, að þessi kafli skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en ári síðar en l. gengu í gildi, 1. jan. 1948. Í annað skiptið var framkvæmdinni frestað með sérstökum l. í fyrra enn um eitt ár, eða til 1. jan. 1949, og loks er nú lagt til, að enn verði þessum kafla frestað um eitt ár, eða til 1. jan. 1950. Þegar þessi frestun var samþ. í fyrsta skipti, þá má segja, að það hafi ekki verið óeðlilegt, að frestur var gefinn til nauðsynlegs undirbúnings, og í fyrra mátti telja það afsakanlegt að taka gilda þessa röksemd um frekari undirbúning, áður en kaflinn gengi í gildi. En þegar slík till. er komin fram í þriðja skipti, þá er ekki lengur hægt að fallast á, að ekki hafi gefizt nægur tími til undirbúnings.

Rökin fyrir því, að hæstv. ríkisstj. leggur þetta frv. fram, komu nú fram í ræðu hæstv. forsrh., og þau voru tvenn. Í fyrsta lagl, að það hafi engir samningar verið gerðir við læknana. Við skulum taka þetta til athugunar. Það hefur iðulega komið fyrir áður, að það hefur gengið mjög treglega að ná samkomulagi við læknana. Samkvæmt því, ef þessi röksemd hæstv. forsrh. er tekin gild, hefði átt að draga af því þá ályktun, að nauðsynlegt væri að fresta tryggingal. sjálfum, þ.e.a.s. sjúkratryggingunum, fella þær úr gildi, þangað til samkomulag hefði náðst við læknana. En það hefur engum dottið þessi lausn í hug fyrr. Þegar um það hefur verið að ræða, að treglega hefur gengið að ná samkomulagi við læknana, þá hefur aldrei komið annað til greina en það yrði látið koma til framkvæmda það ákvæði l., sem kveður á um það, hvernig að skuli farið, þegar slíkt samkomulag ekki næst. Það hafa báðir aðilar reynt að ná samkomulagi, og hefur því aldrei komið til greina, að þurft hafi að grípa til slíkra neyðarráðstafana, og ég held, að engin ástæða sé til að ætla, ef gengið hefði verið að því með fullri alúð að ná þessu samkomulagi, að slíkt samkomulag hefði ekki einnig náðst í þetta skipti. En sannleikurinn er sá, að á þessu ári hefur ekkert samkomulag verið reynt við læknana, það var reynt í fyrra og gekk treglega, og það var einmitt ein af höfuðástæðunum fyrir því, að sams konar frv. um að fresta framkvæmd heilsugæzlukaflans kom fram og var samþ. í fyrra. En á þessu ári er engin tilraun gerð til að ná samkomulagi, þannig að hér er um hreina tylliástæðu að ræða. Ef það hefði verið unnið að því allt þetta ár að ná slíku samkomulagi, þá er í fyrsta lagi mjög sennilegt, að náðst hefði árangur, og í öðru lagi, ef enginn árangur hefði náðst, þá eru líkur til, að slíkt samkomulag mundi frekar nást á næsta ári. Þessari röksemd er því ekki hægt að halda fram.

Þá er hin ástæðan, sem hæstv. forsrh. minntist á í sinni ræðu, það var það, að gróðinn af því að framkvæma heilsugæzlukaflann væri ekki einsýnn, eins og hann orðaði það, þar sem ekki væri komið neitt áleiðis um að tryggja þær heilsuverndarstöðvar, sem þó væri gert ráð fyrir í þessum kafla. Þar til er því að svara, að hér er ekki aðeins um að ræða heilsuverndarstöðvar, heldur mjög mikilvægt skipulagsatriði. Það var alls ekki gert ráð fyrir því í upphafi, þegar þetta mál var lagt fyrir Alþ., að heilsugæzlukaflinn skyldi ekki koma til framkvæmda fyrr en svo og svo margar heilsuverndarstöðvar og lækningastöðvar yrðu byggðar víðs vegar um landið. Það er gert ráð fyrir því, að þessar stofnanir skuli reisa samkvæmt ákvæðum þeim, sem í III. kafla l. felst. En svo er að athuga það, hvernig stendur á því, að ekkert þokast áleiðis með að koma slíkum stofnunum upp. Hver er ástæðan? Ástæðan er sú, að ríkisstj. hefur ekki aðeins látið undir höfuð leggjast allar framkvæmdir, heldur hefur hún beinlínis hindrað þær. Það vita allir, að það er ekki auðvelt að fá fjárfestingarleyfi fyrir neinum slíkum stofnunum, og það er ekki auðvelt að fá fjárfestingarleyfi fyrir sjúkrahúsum, og ekki nóg með það, heldur hefur ríkisstj. lagt allt kapp á að tæma sjóði Tryggingastofnunarinnar. Það hefur varla verið haldinn sá fundur í tryggingaráði, að ekki hafi verið til meðferðar tilmæli frá ríkisstj. um lán, sem sé tilmæli í þá átt að tæma sjóði Tryggingastofnunarinnar, sem til þess eru ætlaðir að byggja þessar stöðvar. Það er þess vegna ekki hægt að gera hvort tveggja í senn, að koma í veg fyrir, að þessum stofnunum sé komið upp, og nota það síðan sem röksemd fyrir því, að heilsugæzlukaflinn er ekki framkvæmdur. Það er heldur ekki hægt að koma fram fyrir Alþ. og segja eins og hæstv. ráðh. sagði áðan, að það sé eins hægt að vinna að því að koma upp þessum stofnunum á næsta ári, enda þótt framkvæmd III. kaflans verði frestað. Þetta er ekki annað en innantóm orð, og það á sama tíma sem ríkisstj. leggur alla stund á að tæma þá sjóði, sem til þess eru ætlaðir að koma þessum stofnunum upp, þannig að því miður er ekki hægt að gera neitt við þetta fyrirheit hæstv. forsrh.

Við höfum þá séð, að þessar röksemdir, sem fram hafa verið bornar af ríkisstj. fyrir því að fresta framkvæmd þessa kafla l., þær duga ekki og það hlýtur ríkisstj. að vera ljóst. Það hljóta þess vegna að vera einhverjar aðrar ástæður, sem valda því, að þetta frv. er fram borið. Í grg. eru engin rök færð fyrir nauðsyn þessara ráðstafana, en það er í rauninni auðskilið, hver tilgangurinn er. Tilgangurinn er í fyrsta lagi sá að spara ríkinu fé og í öðru lagi að bíða eftir endurskoðun l., sem ákveðið er, að fram skuli fara, og til ætlazt samkvæmt frv., að lokið verði fyrir 1. okt. 1949. Hvort tveggja þetta kom líka fram í ræðu hæstv. forsrh., og ég hygg, að það sé rétt, að hér sé að finna ástæðurnar fyrir því, að frv. er fram borið, og þess vegna er rétt að taka einmitt þessar ástæður, sem eru áreiðanlega hinar raunverulegu ástæður, til nokkurrar athugunar. Tryggingastofnunin hefur samið 2 áætlanir fyrir árið 1949. Í annarri er gert ráð fyrir framkvæmd heilsugæzlukaflans, en í hinni, að hann komi ekki til framkvæmda, og þessar áætlanir báðar eru í bréfi, sem Tryggingastofnunin hefur skrifað ríkisstj. Þessar tvær áætlanir eru, gerðar vegna þess, að þá hafði þegar komið fram frá ríkisstj. till. um það, að kaflanum um heilsugæzlu yrði frestað á ný, og Tryggingastofnunin vissi ekki, hvort hún gæti gert ráð fyrir því, að hann yrði framkvæmdur eða ekki, og þurfti þess vegna að gera tvenns konar áætlanir, í því tilfelli, að hann yrði framkvæmdur og einnig að honum yrði frestað. Og samkvæmt þeim áætlunum lítur dæmið þannig út: Miðað við, að heilsugæzlukaflinn hefði komið til framkvæmda, verða útgjöldin 31/2 millj. kr. hærri en ella. Hins vegar lækkar stofnkostnaður bæjar- og sveitarfélaga um 2,2 millj. kr. Hvorar tveggja þessar tölur nefndi hæstv. forsrh. í sinni ræðu, þannig að útkoman yrði þá útgjaldaaukning, sem nemur 1,3 millj. kr., af hálfu hins opinbera, ef kaflinn yrði framkvæmdur. En við þetta bætist svo það, að samkvæmt þessu frv. verða iðgjöld miklum mun hærri, en þau yrðu, ef heilsugæzlukaflinn yrði framkvæmdur, og ég hef hér tölur yfir það eins og það yrði í Reykjavik, ef l. kæmu til framkvæmda eins og þau voru samþ. 1946. En þetta gildir alls staðar þar, sem sjúkrasamlög með nokkuð almennum útgjöldum eru starfandi. Ég ætla að nefna tölurnar eins og þær eru í Reykjavík. Þær eru þannig samkvæmt þessu frv., ef heilsugæzlukaflinn er ekki framkvæmdur: Iðgjöldin fyrir hjón 210 kr. hærri á ári heldur en ella, þ.e. iðgjöldin mundu lækka um 210 kr., ef III. kaflinn yrði framkvæmdur. Fyrir einhleypan karlmann mundi iðgjaldið lækka um 98 kr., og fyrir einhleypar konur munar þetta 116 kr. á ári, svo að við sjáum, að hér er um að ræða geysilega hækkun á iðgjöldum, sem vissulega þóttu nægilega há og mönnum óx mjög í augum, þegar l. um alþýðutryggingar voru sett. Ég skal taka það fram, að það er rétt, sem hæstv. forsrh. tók fram, að samkvæmt l., sem nú gilda, fá hinir tryggðu nokkru meiri hlunnindi en þeir mundu fá, ef heilsugæzlukaflinn kæmi til framkvæmda og gömlu ákvæðin felld úr gildi. Þeir fá borgaðan stærri hluta af lyfjakostnaði og enn fremur alla sjúkrahjálp í staðinn fyrir 3/4 samkvæmt nýju l. Í hinum nýju l. felst því nokkur réttarskerðing gagnvart hinum tryggðu að þessu leyti. En þetta er á engan hátt hægt að leggja til jafns við þann mikla mun, sem er á iðgjaldagreiðslunum. Þegar við athugum þetta, þá lítur hin fjárhagslega hlið málsins þannig út: Ríkið sparar 31/2 millj. kr. á kostnað bæjar- og sveitarfélaga og iðgjaldagreiðenda, þ.e.a.s., það er lítilfjörlegur sparnaður fyrir ríkissjóð, en vissulega ekki fyrir þjóðina. Ríkissjóður er m.ö.o. að velta nokkurri fjárhagsbyrði yfir á aðra. Hvað hitt atriðið snertir, að rétt sé að bíða eftir heildarendurskoðun l. áður en kaflinn kemur til framkvæmda, þá tel ég það alveg fráleitt. Það nær ekki nokkurri átt að taka upp þau vinnubrögð, að Alþ. samþykki gagnmerka löggjöf og láti hana síðan aldrei koma til framkvæmda, og það með þeirri röksemd, að fyrst skuli gerbreyta henni, áður en hún kemur til framkvæmda, þ.e.a.s. áður en nokkur reynsla er fengin um hana, áður en nokkuð skeður, sem breytir viðhorfinu. Slíkt er ekkert annað en blekking gagnvart þjóðinni, enda þykist ég hafa nokkrar ástæður til þess að óttast, að uppi séu tlll. um að gera gagngerða breyt. einmitt á heilsugæzlukaflanum og það til hins verra, og ef það næði fram að ganga, þá komi heilsugæzlukaflinn aldrei til framkvæmda í þeirri mynd, sem hann var samþ. 1946, og ýmsir eru þeirrar skoðunar, að það sé einmitt þessi hugsun, sem felist á bak við hinar endurteknu frestunartillögur. — Ég tel heilsugæzlukafla alþýðutryggingal. eitt merkilegasta nýmæli í l. frá 1946, og þess vegna legg ég áherzlu á, að ekki sé dregið lengur, að hann komi til framkvæmda, og ég legg einnig áherzlu á, að staðið sé gegn öllum fyrirætlunum, sem stefnt er gegn honum eða miða að því að draga úr gildi hans. Þess vegna legg ég til, að frv. verði fellt. Hins vegar eru atriði í þessu frv., sem eru til bóta, og þar á ég við ákvæðið í 4. lið, um heimild til að greiða giftum konum sjúkrabætur, þó að þær vinni eigi utan heimilis. En þeirri réttarbót er hægt að koma fram, ef þingvilji er fyrir því, enda þótt þetta frv. verði fellt.