10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Finnur Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki sem meðlimur allshn. viljað skorast undan að vera meðflm. að þessu frv., enda þótt komið sé í óefni með, hve seint Alþingi afgreiðir fjárlög. Ég viðurkenni, að það séu óþægindi hjá sumum þm. að koma til þings 1. okt. og nokkur þægindi að fá frest til 11. okt., en hins vegar má slíkt ekki ráða, ef hagsmunir almennings líða tjón við það. Öllum er ljóst, að það hlýtur að vera mjög óheppilegt fyrir allan rekstur ríkisins, að fjárl. séu ekki afgr. fyrr en komið er fram í marz eða apríl það ár, sem þau eiga að gilda fyrir. Einkum veldur þetta erfiðleikum í sambandi við allar framkvæmdir ríkisins og gerir þær í mörgum tilfellum miklu dýrari. Að vísu er stj. heimilt að kveðja saman þing, en reynslan hefur sýnt, að það er aldrei gert fyrr, en í síðustu lög. Ég álít, að Alþ. þyrfti að setja sér það mark að afgreiða fjárl. fyrir áramót og snúa með því af þeirri óheillabraut, sem farin hefur verið nú undanfarið.