10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég er ekki vanur að gera grein fyrir atkv. mínu um einstök mál, en ég vil gera það nú.

Ég geri ekkert upp á milli þess, hvort lögskipað verður, að samkomudagur Alþ. verði í síðasta lagi 1. eða 11. okt. Ég get mjög vel fallizt á þá brtt., sem fyrir liggur, um að samkomudagurinn þurfi ekki að vera fyrr en 11. október, og það aðeins af þeirri ástæðu, að ég hygg, að það hafi engin áhrif á það, hvort hægt er að afgr. fjárl. fyrir áramót, hvor dagurinn er ákveðinn af þessum tveimur. En í sambandi við þetta er ekki hægt að ganga fram hjá því, sem hv. þm. Ísaf. drap á, að Alþ. er komið út á alveg óhæfa braut með því að afgreiða aldrei fjárlög fyrr en komið er verulega fram á fjárlagaárið. Og ég álít, að ekki verði hjá komizt að gera eitthvað til þess að reyna að kippa þessu í lag aftur. Og þá er um tvær leiðir að ræða, virðist mér, annaðhvort að ákveða samkomudag Alþ. fyrr en 1. okt., t.d. 1. sept. eða 15. ágúst, og þá sé helzt gengið að því eins og sjálfsögðu, að fjárl. verði afgr. fyrir áramót, eða í öðru lagi verði reynt að ráða bót á þessu ólagi með því, að fjárlagaárinu, verði breytt þannig, að það sé ekki almanaksárið, heldur miðað við annan dag og þá að vorinu, með það fyrir augum að kalla þá Alþ. saman upp úr áramótunum, til þess að hægt væri þá að afgr. fjárl. áður en fjárhagsárið ætti að byrja, sem þau fjárl. giltu fyrir. Og ég vil beina því ákveðið til hæstv. ríkisstj., að þó að hún fái þessi lög samþ., og mér er sama, hvort í þeim er gert ráð fyrir 1. eða 11. okt. sem samkomudegi Alþ., — þá taki hæstv. ríkisstj. það mjög til athugunar, hvort ekki væru líkur til þess, að hægt væri að afgreiða fjárl. fyrir næstu áramót með því að kalla þingið saman fyrr til starfa, til þess þá að vinna að því ákveðið, að fjárl. fyrir 1950 gætu orðið afgreidd fyrir 1. janúar það ár. Og ég greiði þessu frv. atkv. mitt í því trausti, að ríkisstj. athugi þetta eða undirbúi beinlínis, að breytt verði um fjárhagsárið þannig, að það fari ekki saman við almanaksárið, og að sá háttur verði tekinn upp sem allra fyrst, að fjárlög verði afgreidd áður en fjárhagsárið er liðið hið næsta á undan því, er viðkomandi fjárlög eiga að gilda fyrir.