10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Hv. þm. ýmsir hafa talað um það hér, að svo geti það ekki lengur til gengið, að það sé langt komið fram á fjárhagsárið áður en fjárlög fyrir það ár eru afgreidd, og er ég þeim sammála um, að það sé slæmt, að svona gangi þetta til. Og þessi háttur hefur verið á þessu af illri nauðsyn á undanförnum árum. Og ég er sammála um það einnig, að um annað tveggja sé að ræða í þessu efni, annars vegar að þingið komi saman það snemma og sé búið að undirbúa fjárlög í það tækan tíma, að unnt sé að afgreiða fjárl. fyrir áramót, eða þá hins vegar að breyta til um fjárhagsárið. En sérstaklega út af ummælum hv. 1. þm. Skagf. vil ég taka það fram, að ég álit það skyldu ríkisstj. að athuga það, að svo miklu leyti sem hún kynni með þau og önnur málefni að fara, hvort möguleikar væru á að undirbúa fjárlög á þennan hátt og kalla saman þingið svo snemma, að skynsamlegar líkur væru til þess, að fjárlög yrðu afgreidd fyrir áramót. Hins vegar hefur það verið svo undanfarin ár, að atburðir ýmsir og atvinnuhættir og fjármálin og allt ástand í fjármálunum hefur verið í svo mikilli óvissu, að örðugt hefur þótt að undirbúa fjárlög til afgreiðslu í tækan tíma, áður en nýtt fjárlagaár hefur byrjað. Hvort eitthvað breytist um ástandið innanlands að þessu leyti, læt ég ekkert um sagt nú, þó að ég telji það óvíst. En ég álít það skyldu ríkisstj. að reyna eftir mætti, hvort hægt verði að koma því til leiðar, að fjárlög verði afgreidd fyrir nýár, að óbreyttu fjárhagsári, eða að fjárhagsárinu verði breytt.