10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1898)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Finnur Jónsson:

Ég get verið ánægður með þær undirtektir, sem aths. mín um afgreiðslu fjárl. hefur fengið, bæði hjá hv. 1. þm. Skagf. og eins hjá hæstv. forsrh. Ég vildi þó láta í ljós í sambandi við þau ummæli, sem fram hafa komið í sambandi við breyt. fjárhagsársins, að ég tel, að slík breyt. mundi varla verða til bóta. Ef við tækjum til dæmis, að fjárhagsárið yrði sett frá 1. apríl, mundi verða það sama upp á teningnum og nú, að þeir, sem þurfa að standa fyrir framkvæmdum ríkissjóðs, hefðu enga vitneskju um, hvað þeir ættu að framkvæma á þeim tíma, sem aðalframkvæmdir ríkissjóðs ættu að fara fram á, fyrr en svo seint, að þeir gætu ekki komið við nauðsynlegum undirbúningi. Ég held þess vegna, að við verðum að gera ráð fyrir, að við höldum áfram að hafa fjárlagaárið þannig, að það fylgi með almanaksárinu, en verðum að leggja alla áherzlu á að afgreiða fjárlög fyrir áramót á hverju ári vegna þess, sem ég hef áður minnzt á, að undirbúningur undir verklegar framkvæmdir ríkissjóðs getur áreiðanlega ekki verið minni, en sem svarar tímanum frá því um áramót og þangað til fram í maí eða júní, er verklegar framkvæmdir þurfa að hefjast.