10.02.1949
Neðri deild: 61. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1441 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil taka fram út af ræðum, sem hér hafa komið fram um það, hvenær þingið komi saman og þýðingu samkomudags þingsins, að sú hliðin, sem snýr að Alþ., er að ákveða í l., hvenær þingið skuli koma saman. En það, að ríkisstj. getur kvatt þingið saman fyrr en Alþ. tiltekur, er ekki frá okkur þm. Það er ekki rétt af okkur þm. að kasta þessu lagaatriði og þessu valdi upp á ríkisstj. og segja: Þið getið kallað þingið saman fyrr en l. ákveða. — Ég álít því, að við með því að taka ákvörðun um samkomudaginn í þessum lögum 1. eða 11. okt., séum að taka ákvörðun um, hvort við viljum hraða störfum um þetta, sem liggur á milli þessara daga. Ég álít því, að við eigum að óska þess frekar, að þ. komi saman 1. okt. Og þegar ríkisstj. leggur til, að þingið verði kallað saman í síðasta lagi 1. okt., þá álít ég, að það sé ekki okkar þm. að segja: Við viljum, að það komi ekki saman fyrr en 11. okt.

Það hefur verið regla, sem hefur verið samkv. lagafyrirmælum, að fjárlfrv. hafi verið fyrsta þskj., sem útbýtt hefur verið á þingi. Og þetta er regla, sem ég trúi, að við álítum þm., að eigi að hafa í gildi. Og ef Alþ. vildi ákveða að Alþ. kæmi saman 1. okt., þá eru þm. að leggja til, að fjárlfrv. eigi að koma fram á þ. heldur fyrr en seinna, eða 3. til 4. okt. Hitt er annað mál, hvort þessi lög eru haldin. Það er ekki hlutverk Alþ. sem stofnunar að gera annað, en að setja lög viðvíkjandi þessu. Alþ. gerir þannig ráð fyrir, með því að ákveða, að þing komi saman 1. okt., að fjárlfrv. verði lagt fram þá rétt á eftir. En það er á ábyrgð stuðningsflokka ríkisstj., hvort ríkisstj. stenzt gagnvart þessu lagafyrirmæli, hvernig hún sem framkvæmdastjórn vinnur þessi verk. Það er mál, sem stjórnarflokkarnir geta deilt um innbyrðis. Ég álít fjarri lagi, þegar ríkisstj. leggur til, að Alþ. verði kallað saman ekki síðar en 1. okt. og vill skapa sér aðhald um að leggja fjárlög fram ekki síðar en á fyrstu dögum októbermánaðar, að alþm. fari að segja: Við viljum ekki, að Alþ. verði kallað saman fyrr en 11. okt. Ég held, að þetta sé mjög fjarri lagi.