11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Þetta frv. var flutt af hv. allshn. Nd., eftir minni beiðni og er á þá leið, eins og það ber með sér, að reglulegt Alþ. 1949 komi saman 11. okt., eins og nú stendur í frv. Eftir stjskr. á Alþ. að koma saman 15. febr. ár hvert, en þessu má breyta með l. Það er sýnilegt, að Alþ. verður ekki lokið fyrir miðjan þennan mánuð, og þótti því einsýnt, að breyta þyrfti ákvæðunum um samkomudag Alþ. Ríkisstj. lagði til, að samkomudagurinn yrði 1. okt., en því var breytt í 11. okt. í meðferð hv. Nd. Ég lýsti því þá yfir, að ég áliti mig það engu skipta, hvor þessara daga yrði valinn, enda er það eðlilegt, að þm. sjálfir ákveði samkomudaginn eftir því, sem þeim þykir bezt henta. Hins vegar gildir það, að Alþingi má kalla fyrr saman, ef ríkisstj. óskar þess. En þar sem l. um þetta efni þurfa að verða samþ. fyrir miðjan mánuð, geri ég ráð fyrir, að málið fái greiða göngu gegnum hv. d., og flyt ég þá ósk til hæstv. forseta, að meðferð málsins verði hér lokið á þessum degi.