11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að mig undrar þetta frv. Mig undrar, að hæstv. ríkisstj. skuli viljandi og vísvitandi langa til að viðhalda því ófremdarástandi, sem við höfum búið við undanfarin ár, sem sé því að láta landið vera fjárlagalaust nokkurn hluta úr árinu. Með þessu frv. er, eins og öllum hv. þm. er vitanlegt, lagt til, að Alþingi komi saman 11. okt., en áður hafði ríkisstj. lagt til, að samkomudagurinn yrði 1. okt. Við atkvgr. um málið í hv. Nd. sat hæstv. forsrh. hjá, og finnst mér það ekki sýna mikinn áhuga hæstv. ríkisstj., en ég tel með öllu óviðeigandi, að landið sé fjárlagalaust hluta úr árinu, en að því tel ég stefnt með þessu frv. Það er sem sagt enn lagt til, að þingið komi saman að haustinu, en slíkt hefur undanfarið orðið til þess, að fjárlög hafa ekki verið afgr. fyrir nýár. Hugsanlegt er náttúrlega, að fjárlög verði afgreidd frá 1. okt. til áramóta, en þá þarf ríkisstj. að hafa undirbúið fjárl. rækilega að sumrinu, hvað ekki hefur verið gert undanfarið, og samstæður þingvilji að vera til staðar. Haustið er þó yfirleitt ekki hentugur tími til þinghalds. Ef þá slitnar upp úr stjórnarsamvinnu, verða vetrarkosningar, og er þá allra veðra von, og hygg ég, að allir vilji losna við þær, en vetrarkosningar eru alltaf yfirvofandi, þegar þingið situr að hausti og fyrri part vetrar. Það er vandræðatími, sem þarf að losna við sem þingtíma, en ég býst við, að horfið hafi verið að því að velja þennan tíma vegna þess, að menn hafi þótzt vita of lítið um reynslu síðustu ára og sjá of litið um gang málanna það ár, sem fjárl. áttu að gilda fyrir, 15. febr., þegar hinn reglulegi samkomudagur þingsins er að lögum. En leiðin til að koma þessum málum í rétt horf er að breyta fjárhagsárinu og miða ekki við áramót, heldur t.d. 1. júní, enda eru aðalframkvæmdir sumarsins þá ekki byrjaðar, eða þá að kveðja Alþingi saman svo snemma hausts, að nokkurn veginn sé tryggt, að fjárlög verði afgreidd fyrir áramót, og til þess hefur ríkisstj. vald, hvaða samkomudagur sem í þessu efni verður samþ. hér á Alþingi Varðandi það að miða fjárhagsárið við 1. júní, þá má náttúrlega benda á, að það geti verið erfitt og að undirbúningur hafnargerða og lendingabóta og annarra framkvæmda verði slæmur og afleitt að fá ekki að vita fyrr en rétt áður, í hvaða framkvæmdir fé er veitt. En ég geri ekki mikið úr þessu, því það liggur tiltölulega snemma fyrir, og fyrr en síðustu daga þingsins, hvaða höfuðframkvæmdir það eru, sem leggja á i, svo að undirbúningur þeirra ætti af þeim sökum að geta orðið sæmilegur. En mig langar til að heyra það hjá hæstv. forsrh., hvort ríkisstj. hafi hugsað sér að breyta til í þessum efnum og miða t.d. fjárhagsárið ekki við áramót, og ef svo er, þá skal ég ekki vera á móti frv. eins og það nú er. Ef ríkisstj. aftur á móti ætlar að hafa almanaksárið áfram sem fjárhagsár, þá tel ég það skyldu hennar að kveðja Alþingi svo snemma saman og undirbúa fjárlög það vel, að nokkurn veginn sé tryggt, að þau séu afgreidd fyrir nýár, og losa okkur þannig við það ófremdarástand, sem verið hefur, er landið hefur verið fjárlagalaust tímum saman, en það krefst þess, að hún verji ekki sumrinu í frí, heldur undirbúi setningu nytsamra laga og þá einkum fjári., þannig að á þeim undirbúningi megi byggja. Með samkomudegi um miðjan september og mikilli vinnu ríkisstj. að sumrinu er hægt að afgreiða fjárlög fyrir áramót, en að því er sýnilega ekki stefnt með því að leggja til, að samkomudagurinn verði 11. okt. Og mig langar til að heyra hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún muni ætla að breyta fjárhagsárinu, og ef það er, þá get ég sætt mig við frv., en ef á að hafa sama fjárhagsár og áður, þá er frv. óverjandi og til skammar að samþ. það.