11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal játa það með 1. þm. N-M., að ástandið er óheppilegt, þegar nokkuð líður framan af fjárhagsárinu án þess að fjárlög séu afgreidd. En eftir svo hraðfara breytingar, sem orðið hafa í atvinnulífi okkar Íslendinga nú síðari árin, þá var sýnilegt, að ógerningur var að afgreiða fjárlög mörgum mánuðum áður en fjárhagsárið byrjaði, og því var horfið að því að afgreiða fjárlög á haustþingum. Nú má segja, að annað tveggja sé fyrir hendi, að nægur tími sé frá samkomudegi þingsins til áramóta, svo að fjárlög megi verði afgreidd á þeim tíma, eða breyta fjárhagsárinu. Út af spurningu hv. 1. þm. N-M., þá get ég ekki svarað henni á þessari stundu, því að ríkisstj. hefur ekki rætt málið, og þar yrði fyrst og fremst hæstv. fjmrh. að leggja á ráðin, en ég vil benda á, að hvort sem samkomudagurinn er ákveðinn 1. eða 11. okt., þá hefur ríkisstj. vald til að kalla Alþingi saman fyrr, ef hún sæi þá, að hægt væri að afgreiða fjárlög fyrir nýár. Nú hafði ríkisstj. lagt til, að samkomudagurinn yrði 1. okt. Mikill meiri hluti þm. vildi heldur hafa hann 11. okt. en 1. okt., og stóðu einkum að því bændaþm. og þm. utan af landi. Mér fannst eðlilegt, að þeir ákvörðuðu daginn sjálfir og að ríkisstj. ætti ekki að beita áhrifum sínum í þessu máli, einkum þar sem hún getur kallað þingið fyrr saman, ef þörf krefur. En þær almennu yfirlýsingar get ég gefið, að ég tel sjálfsagt, að annaðhvort verði að haga svo undirbúningi fjárl., að líkur — ég segi líkur — séu til, að þau verði afgr. fyrir áramót, þótt lögð séu fram á haustþingum, eða þá að breyta fjárhagsárinu, því að ég er sammála hv. 1. þm. N-M. um það, að núverandi ástand er óheppilegt og má ekki vera, og að því vildi ég vinna, að ef fjárhagsárinu yrði ekki breytt, þá reyndi ríkisstj. að undirbúa svo fjárlög, að þau yrðu afgr. fyrir áramót. Ég held, að ráðherrarnir vinni fullkominn vinnutíma allt árið og hafi yfirleitt ekki stuttan vinnudag. E.t.v. eru þeir sú stétt í landinu., sem hefur einna lengstan vinnudag. Það er því engin ástæða til að hafa þær dylgjur í frammi við stj., að ráðh. vinni ekki.

Að öðru leyti mun ástæðulaust að fjölyrða frekar um þessi mál. En af tilefni þeirra ummæla hv. þm., að mál, sem stj. leggur fyrir þ., séu illa undirbúin, vil ég geta þess, að eigi er undir stj. einni komið, hversu vinnubrögðum er háttað. Veit ég til, að stjfrv. hafa legið hjá n. vikum og jafnvel mánuðum saman.