11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú að vísu verið að ræða um samkomudag reglulegs Alþ., en hér hafa nú komizt inn umr. um afgreiðslu fjárl. Ég tel rétt að segja skoðun mína um þetta mál.

Sumir kalla það nú vandræðaástand að draga afgreiðslu fjárl. fram á fjárlagaárið. En það er eigi eingöngu nú, að slíkt á sér stað, heldur hefur það orðið á betri tímum, stríðsárunum, þegar allt virtist leika í lyndi fyrir okkur. En ef taka á þetta ár sérstaklega fyrir, — ég man nú ekki glöggt, hvaða dag fjárl. voru lögð fyrir þ., en hitt veit ég, að allmargir dagar liðu til þess frá þingsetningu. Ég ætla þó eigi að sakast um, að frv. varð svo síðbúið. Ég hygg, að því hafi sá undirbúningur valdið, er þörf var á. Yfirleitt tel ég mjög vendilega frá frv. gengið á marga lund og margar þarflegar athuganir vera í því. En hins vegar væri æskilegt, að eitt af hinum fyrstu frv., sem væru lögð fyrir þ., væru fjárl. Ég býst við því, að tíminn, sem hv. fjmrh. hafði til umráða, hafi verið allverulega skemmri nú en stundum áður. En það, er ég hygg hafa ráðið mestu um það, að ógerlegt var fyrir hv. n.afgr. l. fyrir áramót, var afgreiðsla dýrtíðarmálanna rétt fyrir jólin í vetur, og hlaut það að kosta mikla fyrirhöfn að komast að sameiginlegum niðurstöðum. Ég beini þessu til hv, þm. N–M., og með allri virðingu fyrir dugnaði hans; a.m.k. í talfærunum, býst ég við, að ekkert vit hefði verið í því að afgr. fjárl. fyrir jól. Ef taka á reynslu undanfarandi árs til samanburðar, verður að ætla hv. fjvn. a.m.k. tvo mánuði til að skila áliti sínu. Stafar það af því, hve ríkisbáknið er orðið umfangsmikið og stórt. Það er ekki lítil vinna fólgin í því hjá hv. fjvn. að fara vandlega í gegnum gjaldapóstana til að leita með logandi ljósi, hvar draga megi úr útgjöldunum. Sú vinna hv. n., sem leiðir af viðleitni hennar að kafa eins djúpt og hægt er niður í einstaka liði, ef hækkun megi koma við, gerist eigi á skömmum tíma, vegna nauðsynlegrar samvinnu við margar stofnanir. Ég bendi á þetta, því að lítillar þekkingar og enn minni góðvildar hefur orðið vart hjá þeim mönnum, er eigi hafa hlotið það hnoss, sem þeir kalla svo, að komast í fjvn. Alþ. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að tvennt geti komið til greina, svo að afgreiða mætti fjárlög fyrir jól. Annaðhvort að þ. komi saman þann 1. sept. eða hitt, að fjvn. sé kölluð saman mánuði áður en þ. sjálft er kallað saman, Það hefur verið gert og er lögum samkvæmt leyfilegt. Á hinn bóginn er mér ljóst, að afgreiðsla fjárl. veldur því, að þ. eru svona löng. Ég segi, að sé Alþ. kallað saman þann 1. sept.; þá eru 31/2 mánuður framundan, sem það getur starfað. Ég reikna með, að það sitji til 15. des. Og hin leiðin er sú, að flokkarnir tilnefni menn til að vinna að fjárl. áður en þ. kemur saman. — Ég bendi á þessar leiðir sem færar til þess að kippa í lag því vandræðaástandi, að fresta þurfi afgreiðslu fjárl. Hins vegar vil ég ekki breyta fjárhagsárinu. Það er svo margt hjá okkur, sem þarf að vera alveg ákveðið um varðandi fjárveitingar, hve mikið fé skuli veita til þessa eða hins. T.d. þarf að hafa fyrirvara um efniskaup, svo að framkvæmdir geti hafizt þegar eðlilegt þykir, vegalagningar svo sem þegar snjóa leysir af fjöllum, vinna við hafnargerðir og lendingarbætur, er tækifæri gefst, o.s.frv. Margt fleira styður og að því, að sá háttur um þetta mál, er hafður hefur verið, hafi við full rök að styðjast.

Að lokum vil ég taka það fram, að ég hef ekki hugsað mér að bera fram till. um samkomudag Alþ. Mér er kunnugt um, að frv. var samþ. í hv. Nd. með aðeins tveggja atkv. mun. Rétt er, að það eru fulltrúar byggðanna úti um land, sem vilja draga samkomudag þ. fram á haustíð. En hæstv. ríkisstj. hefur í hendi sinni, hvort hún vill kalla það saman þann 1. eða 11. okt. Fer það að sjálfsögðu eftir því, hversu farið er um undirbúning mála. Sé það eigi talið rétt, hef ég bent á þessar tvær leiðir: að breyta samkomudeginum eða kalla fjvn. saman fyrir þingsetningu. En hér er þó aðeins um ábendingu eina að ræða af minni hálfu.