11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (1930)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég stend hér upp til að svara hv. 1. þm. N-M. (PZ). Allur tónn ræðu hans var um slæm vinnubrögð hjá fjvn. Hann hefur innleitt þessar umr. Það er ekki hægt að ásaka fjvn. fyrir það, að fjárlfrv. hafi ekki verið afgr. fyrir hátíðar. Ástandið í landinu hefur skapað þetta, eins og kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. En hér er verið að ræða, hvenær eigi að kalla þingið saman. Ef hægt hefði verið að afgr. fjárlfrv. fyrir jól, hefði þingið þurft að koma fyrr saman. Sá minnsti tími, sem færi í það að undirbúa og afgr. fjárlög, mundi vera 2 mánuðir. En þá segir hv. 1. þm. N–M., að allt sé búið. En Alþingi þarf lengri tíma við 2. og 3. umr., með öllum þeim aragrúa brtt., sem þm. leggja fram. Ég held, að það sé ekki sagt út í loftið, að lágmarkstíminn er 31/2 mánuður. Nú upplýsir hæstv. fjmrh., að vart sé hægt að ganga frá frv. fyrr en 1. sept. Ég skal nú taka þau rök, sem þar að liggja, og athuga málið. — Á tímabilinu júlí– ágúst er margt af starfsfólki rn. í sumarfríum, og öll vinna gengur þar hægar. Það er ekki hægt að taka af fólkinu orlofsréttinn, þó að þessi hv. þm. vilji taka þann rétt frá þessu fólki og mönnum yfirleitt. Þessi rök eru þung á metunum, og það verður að sætta sig við það. En ekki gengur annað, en að fjárlög verði í framtíðinni til fyrir fram fyrir það ár, sem þau eiga að gilda fyrir. En ég hefði nú haldið, að það hefði mátt standa 1. okt. í frv. í stað þess, sem nú er. Það mundi þó muna um 11 daga. Að ákveða samkomudaginn 1. sept. mundi ekki ná samþykki þingsins, og það yrði til lítils, ef litið er á þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf um ástandið í ráðuneyti sínu um orlofstímann. — Ég get svo lokið máli mínu.