11.02.1949
Efri deild: 58. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vænti þess, að hæstv. forseti veiti mér leyfi til að svara hér ofurlitlu hv. þm. Str., að gefnu tilefni, í sambandi við starfsmannaskrá. Ég hygg, að hv. þm. viti ekki, hvernig liggur í málinu. Það hefur raunverulega legið fyrir skrá yfir hvert fyrirtæki, svo að þannig sést, hvað mikil laun starfsmönnum eru greidd. Þetta hefur fylgt fjárlfrv. öll árin, og þannig sést, hve mikið fer til starfsmanna. En nú er það oft svo, að sami maður hefur laun frá fleiri en einum stað, og það, sem nú er óskað eftir, það er skrá yfir það, hve mikið hver þessara manna hefur samanlagt í laun frá ríkinu. Það er rétt hjá ráðh., að það er ekki auðvelt að gera þessa skrá, en eftir að búið er að semja hana, verður hún til mikilla þæginda. Ég skal nú nefna dæmi. Við menntaskóla eða gagnfræðaskóla, t.d. gagnfræðaskólann á Ísafirði, er sérstök skrá yfir kennarana. Það er skrá höfð yfir laun föstu kennaranna, en nú er greitt svo og svo mikið, segjum 10 þús. kr., fyrir stundakennslu, og þá er ekki gott að vita nema þessir sömu fastakennarar, sem hafa ákveðinn stundafjölda á viku, fái einnig laun af þessum peningum, sem varið er til stundakennslu. Það er vissulega kostnaðarsamt og gífurlega mikið verk að gera slíka skrá, þar sem tína þarf saman launagreiðslur alls staðar af landinu, svo að það er ekki af vanrækslu eða af því að ráðh. ráði ekki við starfsmenn þá, sem að þessu vinna, heldur af því, að það er mjög erfitt að tína þetta allt saman. Síðan hefur n. óskað eftir, að þessi skrá verði saman eftir stafrófsröð, af því að það hefur komið í ljós og hefur fjvn. rekið sig á, að margir menn eru á háum launum á fleiri en einum stað. Einn maður hefur t.d. 30 þús. kr. hjá einni stofnun, 8–10 hjá annarri og 3 þús. hjá þeirri þriðju o.s.frv., og tínist þetta kannske upp í 60–80 þús. á ári. Það er erfitt að koma þessari skrá saman, því að þessir menn, sem þar er getið, vilja standa eins og múrveggur kringum hana. — Mér fannst rétt að láta þetta koma fram, af því að mér hefur skilizt, að menn álíti, að þetta stafaði af einhverri kergju hjá starfsmönnum þeim, er að þessu vinna. En menn gera sér ekki ljóst, að hér er um erfitt viðfangsefni og umfangsmikið að ræða.

Í sambandi við það, sem fram hefur komið hjá hv. þm. Eyf., um að það væri ekki allt undir því komið, hvenær þingið kæmi saman, heldur hvenær fjárl. væru tilbúin til afgreiðslu. 1946–47, þegar stjórnin sat til bráðabirgða áður en önnur tæki við, var fjvn. búin að ganga frá frv., þegar stjórnin tók við. Þá byrjaði hún að gera till., sem kröfðust aukinna útgjalda. Ég gekk þá sem form. n. á milli allra ráðh., til þess að fá þá til að falla frá kröfum sínum, og voru þeir yfirleitt allir mjög samvinnuþýðir og fúsir til en einn þeirra, núv. menntmrh., sló einn í borðið og sagði: „Nei, ég slaka ekkert til á mínum kröfum.“ Ég get vel sagt, hvert það fé rann, sem hann kúgaði í gegn hjá fjvn., og ég veit líka, að hv. þm. vita það allir.

Þá vil ég einnig benda á, hvernig það gekk til með fjárl. í fyrra. Þegar búið var að ganga frá frv., kemur fram breyt. í þinginu frá viðskmrh., svo að að það varð að semja það allt upp á nýjan leik. Svo að það er að því leyti rétt, sem hv. þm. Eyf. (BSt) sagði, að það væri ekki allt undir því komið, hvaða dag þingið kæmi saman, heldur hvenær fjárl. væru tilbúin til afgreiðslu. (HV: Það er þá ekki hægt að ganga frá fjárl. fyrr en á gamlárskvöld.) Hv. 3. landsk. veit, að það er stefnumunur á lífsskoðunum þm., og þarf því ekki að furða sig á, þó að átök verði í ýmsu.

Í sambandi við það, sem hv. þm. Str. sagði, þá vil ég lýsa því yfir hér með, að þau ummæli eiga ekki við um fjvn., því að þótt ágreiningur hafi verið í ýmsum málum innan n., hefur aldrei verið neinn ágreiningur innan hennar um að koma saman til starfa á hvaða tíma sem kallað er, og hygg ég, að það séu ekki aðrar n., sem mæta betur, og fyrir það er ég mjög þakklátur. — Svo að það er ekki henni að kenna, heldur eru ýmis vandamál, sem þarf að leysa, en n. á enga sök á þessu.