11.02.1949
Efri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1469 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Björn Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil bara gera grein fyrir atkv. mínu. Í ræðu sinni sagði hv. þm. Str. meðal annars, í fyrri ræðunni um þessa brtt., sem þá var búið að segja frá, að þeir, sem greiddu atkv. á móti henni, væru um leið að lýsa ánægju sinni yfir því, að ástandið, sem nú hefur verið í afgreiðslu fjárl., héldist áfram. Ég andmæli þessu, því að ég ætla að greiða atkv. á móti þessari brtt., en ástæðan til þess er langt frá því að vera sú, að ég sé ánægður með það, að afgreiðsla fjárl. dragist langt fram yfir þann tíma, er fjárlög eiga að koma til framkvæmda. Hins vegar sé ég enga tryggingu fyrir því, að fjárlög verði afgr. frá þinginu fyrir áramót, þó að þingið kæmi saman 1. sept. Það hlýtur að fara eftir öðru, hvort slíkt tekst eða ekki, svo sem því, hversu vel tekst undirbúningur fjárlfrv. og hvort sérstök vandamál gripa inn í við afgreiðslu fjárl., eins og nú á síðasta ári, sem hljóta að tefja fyrir því, að fjárlög verði afgr. fyrir áramót. Ef slík vandamál koma ekki til greina og ef fjárlfrv. er vel undirbúið, þá hygg ég, að þó að tíminn til að afgr. þau sé ekki lengri en frá 1. okt., og þó að hann sé ekki lengri en frá 11. okt., sem þingið situr, þá ætti að vera hægt að afgr. fjárlög samt sem áður fyrir áramót. Og ég vitna í þessu efni til þess, sem hv. þm. Barð. sagði hér fyrr í dag við 1. umr. þessa máls, að árið 1945 var, ef ég man rétt, ekki byrjað að starfa í fjvn. fyrr en 20. okt., en samt sem áður tókst þá að afgr. fjárlög fyrir jól. Svo að ég tel þetta hreint ekki útilokað. Ég vil að sjálfsögðu, að allt sé gert, sem hægt er, til þess að fjárlagaafgreiðslu sé lokið fyrir áramót. En ég hef ekki neina trú á því, að það sé tryggt, að slíkt takist með því að ákveða samkomudaginn 1. eða 15. sept. Og þess vegna vil ég ekki stuðla til þess með atkv. mínu, að stj. sé gert að skyldu að kalla saman Alþ. svo snemma, jafnvel þó að ég væri alveg vonlaus um eða teldi mjög litla von um að fjárlög yrðu afgr. fyrir áramót þrátt fyrir það. Hins vegar fylgi ég frv. óbreyttu, í því trausti, að ríkisstj. muni gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að fjárlagaafgreiðslu verði lokið fyrir áramót, og fyrir því höfum við eiginlega fyrirheit hæstv. forsrh. — Þetta vildi ég taka fram út af ummælum hv. þm. Str.