11.02.1949
Efri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. En það, sem mér finnst skorta á í þessum umr., þegar talað er um að færa samkomudag Alþ. fram á árið, þá er eins og menn horfi á það eitt, hvað embættismenn í stjórnarráðinu þurfa að gera áður til þess að undirbúa fjárlög og hvað þingið þurfi langan tíma til þess að afgr. fjárl. En það er eitt stórt atriði, sem líka þarf að taka með í reikninginn, sem sé á hvaða tíma unnt sé fyrir fjmrh. að undirbúa fjárlagafrv. svo, að vel sé og að gagni komi til fljótrar afgreiðslu í þinginu. Eftir reynslu undanfarinna ára er mjög hæpið, að hægt sé að undirbúa vel fjárlög fyrir 1. sept., þá er ekki búið að sjá marga hluti, sem ríkisstj, þarf helzt að sjá áður en fjárlög eru undirbúin. En það eru meiri líkur til þess, að þetta verði séð fyrir 1. okt. Og ég tel, að alveg eins miklar líkur séu til þess, að hægt sé að afgr. fjárlög fyrir áramót með því að byrja þingið 1. okt. eins og þótt það sé byrjað 1. sept., því að það er það stóra atriði í málinu, að ríkisstj. og sérstaklega fjmrh. geti haft nóga yfirsjón yfir framtíðina, með tilliti til síðasta árs, til þess að undirbúa fjárlögin vel. Þess vegna tel ég eðlilegt, að samkomudagur þingsins sé 1. okt., því að með því móti væri hægt að afgr. fjárlög fyrir 1. jan. næsta ár, ef svo ber undir og ef ekkert kemur annað til athugunar, sem blandast inn í fjárlagaafgreiðsluna, og þá er líka hægt fyrir ríkisstj. að læra af reynslunni og horfa fram á veginn til þess að geta undirbúið fjárlög fyrir næsta ár.