11.02.1949
Efri deild: 59. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1472 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

124. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1949

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég get ekki gert að því, þótt samvizkubit hv. 1. landsk. þm. geri það að verkum, að hlustunartæki hans eru í því ástandi, að hann heyrir einhvern tón í því, sem mælt er, sem er eitthvað annað en orðanna hljóðan. — Það hafa nú talað hér meira en helmingur þdm., og allir, sem hafa talað, eru sammála um það, með mismunandi sterkum orðum, að það sé óviðunandi ástand, sem hér hefur ríkt og ríkir, að við á árinu 1949 sitjum hér á Alþ. 1948 og erum að semja fjárlög fyrir árið 1949, sem í raun réttri eiga að vera fyrir alllöngu tilbúin og búin að gilda í sex vikur. Allir eru sammála um þetta, hver einasti þm. Sumir segja, að þetta sé ófremdarástand, aðrir, að þetta sé óviðunandi. Allir viðurkenna, að því lengri tíma sem Alþ. hefur til þess að semja fjárlög, því meiri líkur séu fyrir, að þau fáist afgr. í tæka tíð. Þó kemur hæstv. forsrh. með það sjónarmið, að það sé hæpið, að ríkisstj. geti verið búin að semja fjárlagafrv. eins vel til að leggja það fyrir þingið í byrjun þings, ef það kemur saman 1. sept. eins og ef þingið kemur ekki saman fyrr en 1. okt. Mér skilst, þó að hann nefni það ekki, að hann álíti þetta vegna þess, að þá, 1. sept., sé kannske ekki útséð um síldveiðar, og þess vegna séu líkur fyrir, að tekjuvonir ríkisins séu gleggri, með tilliti til innflutnings og þeirra skatta og tolla, sem fást í sambandi við hann, þegar kemur fram að 1. okt. en þegar 1. sept. Ég vil ekki mæla alveg á móti þessari staðreynd. Þó vil ég fullyrða, að um mánaðamótin ágúst og september er það orðið nokkurn veginn ljóst, hvernig síldarvertíðin verður, þannig að miklu getur ekki skeikað, og þetta sjónarmið getur þess vegna ekki ráðið fyrir fjöldanum, sem vill hafa samkomudaginn seinna. Hvað er það þá, sem er í veginum? Það er ekkert annað en persónuleg sjónarmið hv. þm. sjálfra, sem vilja hafa samkomudaginn seinna á árinu. Þeim finnst sér koma það, að einhverju leyti verr að fara á þing 1. sept. en 11. okt. En til hvers eru menn að taka að sér verk, ef menn eru ekki tilbúnir að vinna það þegar þörfin er fyrir að vinna það og þegar mestar líkur eru til þess, að hægt sé að vinna það sæmilega? Þeir menn sem láta slík sjónarmið ráða, sem ég nú lýsti, eru algerlega á rangri hillu. Þeir eru ekki nema hálfir menn, þeir eiga ekki að sitja á þingi. Það verk, sem maður tekur að sér að vinna, verður maður að vinna hvenær sem er, nótt eða dag, þegar kallað er eftir, að það sé unnið, og engar prívattafir eiga að vera því til fyrirstöðu, að verkið sé unnið þegar þörf er á því að gera það: Þess vegna er það sjónarmið, að einhverjum komi það illa, að Alþ. komi saman vissan dag og þeir láti það sjónarmið ráða um fylgi við ákvörðun um samkomudag þingsins, að þeir vilji ekki fara heiman að frá sér fyrr en á einhverjum vissum tíma árs, það sjónarmið á engan tilverurétt, ekki nokkurn. Ef allir eru sammála um, að það sé ekki viðeigandi og nánast sagt til skammar að vera að halda Alþ. 1948 á árinu 1949 og vera að semja fjárlög eftir að þau eiga að réttu lagi að vera búin að gilda í nokkrar vikur, vera þá að baksa við þau, — ef menn eru sammála um þetta, þá eiga menn ekki að láta persónulegar ástæður verða þess valdandi, að þeir leggist í gegn því, að gerðar séu ráðstafanir til þess að lagfæra það ófremdarástand, sem ríkt hefur og ríkir í þessu efni, annaðhvort með því að færa byrjun fjárhagsársins yfir á vorið, annaðhvort til 1. maí eða 1. júní og byrja þá þingið í janúar og vera búinn með fjárlög áður en nýtt fjárhagsár byrjar og koma þá ekki saman næsta haust fyrr en 11. okt. og semja þá fjárlög fyrir part af árinu — og með því væri komizt hjá þeirri hengingaról, sem af því gæti spunnizt, ef slitnaði upp úr stjórnarsamvinnunni á vetrarþingi — eða þá hins vegar með því að láta Alþ. koma fyrr saman síðari hluta ársins en gert hefur verið og gert er ráð fyrir í þessu frv. og reyna að klára Alþ. fyrir áramót. Þá geta þó alltaf vofað yfir haustkosningar, ef upp úr stjórnarsamvinnunni slitnar. Hinir hv. þm., sem vilja koma saman á Alþ. einhvern tíma rétt fyrir jólin, þegar þeir telja sjálfum sér bezt henta, og vilja láta afgreiðslu fjárl. ganga eins og nú er, þeir hafa áreiðanlega ekki skilið rétt það hlutverk, sem þeir hafa tekið að sér, þ.e. að vinna fyrir þjóðina sem þm., en ekki fyrir sjálfa sig eina.