22.11.1948
Efri deild: 18. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

74. mál, kirkjugarðar

Flm. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Í byrjun ársins 1944 voru 6 söfnuður starfandi í Rvík. Samkvæmt lögunum um kirkjugarða eiga að vera í kirkjugarðsstjórn 5-7 menn, og ef 6 söfnuðir eru starfandi, skipar ráðherra 7. manninn í kirkjugarðsstjórn. Þetta var gert 1944, og varð það að samkomulagi, að fulltrúi frá Bálfarafélagi Íslands fengi sæti í kirkjugarðsstjórninni. Nú eru aðeins 5 söfnuðir starfandi í Rvík, og þá er samkvæmt lögum ekki heimilt að hafa nema 6 menn í stjórn. En eins og kunnugt er, hefur verið reist hér bálstofa, að miklu leyti fyrir fjárframlög frá Bálfarafélagi Íslands. Hefur félaginu verið afhent til umráða og skipulagningar nokkuð stórt svæði, er nota skal sem duftgarð. Nú er kirkjugarðsstjórnin því fylgjandi, að Bálfarafélagið fái fulltrúa í stjórninni, enda eðlilegt, þegar því hefur verið falin umsjón með vissum hluta kirkjugarðsins. Og verði þetta að lögum, verður að sjálfsögðu af ráðherra skipaður 7. maður í kirkjugarðsstjórnina.

Ég tel það fulla sanngirniskröfu, að þetta nái fram að ganga, og legg til, að frv. verði vísað til 2. umr., og geri ráð fyrir til félmn.