27.01.1949
Efri deild: 49. fundur, 68. löggjafarþing.
Sjá dálk 1475 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

74. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta mál hefur legið dálítið hjá félmn. Hún var búin að ræða það fyrir þinghléið og sendi þá biskupnum það til umsagnar og bað hann bæði að segja sitt álit um frv. og einnig, ef hann teldi ástæðu til þess, að gera frekari breytingar á lögunum, sem n. þá einnig vildi athuga. Svar biskups barst n. nokkru fyrir þinghléið, dagsett 13. des., og þar leggur hann til, að gerð verði á frv. ákveðin breyting, og gerir grein fyrir henni. Biskup segir:

„Ég get fallizt á, að eigi sé ósanngjarnt, að Bálfarafélag Íslands eða væntanlegar deildir þess úti um land, þar sem bálstofa starfar, eigi fulltrúa í kirkjugarðsstjórn. Hins vegar sé ég ekki ástæðu til að binda tölu fulltrúa í kirkjugarðsstjórn við 5 eða 7. Vel getur svo farið, að söfnuðir í Reykjavík verði áður en langt liður 7 eða fleiri, er allir noti hinn sama kirkjugarð, og mælir þá öll sanngirni með því, að hver þeirra hafi rétt til þess að velja sinn fulltrúa í kirkjugarðsstjórnina. Þar sem hins vegar aðeins tveir eða þrír aðilar sameinast um kirkjugarð, virðist ástæðulaust að hafa fulltrúa fleiri en þrjá. Ýmislegt mælir með því, að tala fulltrúa í kirkjugarðsstjórn sé oddatala (3, 5, 7 o.s.frv.) Þar sem svo stendur á, að tala fulltrúa verður jöfn (2, 4, 6 o.s.frv.), virðist mér heppilegt, að hlutaðeigandi sóknarnefndir kysu á sameiginlegum fundi oddamann í kirkjugarðsstjórn.

Fyrir því leyfi ég mér að leggja til eftirfarandi breyt. á frv.:

1. Á eftir orðunum „kjósa hver úr sínum hópi“ komi „einn fulltrúa“ í stað „fulltrúa“.

2. Síðari hluti gr. orðist svo: Nú er tala kjörinna fulltrúa jöfn, og skal þá á sameiginlegum fundi hlutaðeigandi sóknarnefnda eða safnaðarstjórna kjósa oddamann í kirkjugarðsstjórnina fyrir kjörtímabilið og einn til vara. Kirkjugarðsstjórnin kýs sér sjálf formann og skiptir með sér verkum að öðru leyti.

Út af fyrirspurn n. um það, hvort ég telji fleiri breyt. á kirkjugarðsl. æskilegar, leyfi ég mér að senda n. frv. um breyt. á þeim l., sem ég hef nýlega sent kirkjumrn., er fjallar um takmörkun á leyfum til upptöku heimagrafreita, en hin öra fjölgun þeirra horfir til vandræða og óreiðu.“

Þeir þrír nm., sem mættir voru á fundi, — einn nm., 3. landsk., var ekki kominn til þings, og annar nm., þm. Seyðf., var ekki viðstaddur, — voru sammála um að leggja til að samþ. frv., en n. tók hins vegar ekki afstöðu til till. biskups. N. sýndist hún þýðingarlítil út af fyrir sig, en ég tók hana upp og flyt hana hér, til þess að d. skeri úr því, hvort hún vill hafa það fyrirkomulag, sem biskupinn leggur til, að á sameiginlegum fundi sóknarnefnda eða safnaðarstjórna skuli kjósa oddamann í kirkjugarðsstjórnina fyrir kjörtímabilið, svo og varamann hans, eða hvort d. sýnist betra, að hann verði settur af dóms- og kirkjumrn. eftir sérstökum reglum, eins og lagt er til í frv. frá þm.

Um hina spurninguna, sem við spurðum biskup, hvort ástæða væri til að breyta fleiru í stjórn kirkjugarða, svarar hann með bréfi, þar sem hann sendir till. um meiri breyt. á l., og hníga þær að því að takmarka mjög rétt manna til þess að koma upp heimagrafreitum. Nú er það svo, að þeir, sem það vilja, sækja til kirkjumrh. í gegnum biskup um að koma upp slíkum reitum, og biskup hefur yfirleitt ekki getað staðið á móti því að veita mönnum leyfi til þess að hafa heimagrafreiti, ef þeir fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru þar um. Nú vill biskup þrengja þetta og leggur til, að breytt sé 33. gr. kirkjugarðsI. á þá lund, að sóknarprestur og viðkomandi prófastur skuli báðir koma til sögunnar og senda álit sitt til biskups og að einungis megi veita slík leyfi á ættaróðulum. Þessa till.n. sér ekki fært að taka upp, en ég taldi skyldu mína að segja frá henni, ef einhver hér vildi taka upp till. biskups, og er þá hægt að fá hana hjá mér, en n. flytur till. ekki, en eins og ég tók fram áðan, flyt ég hina till. biskups við frv., og ég vænti þess, að hún verði samþ., enda þótt sú breyt. geri ekki neinn höfuðmun.